Deilur Ísraels og Palestínumanna
Mánudaginn 06. mars 1989

     Flm. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um deilur Ísraels og Palestínumanna, en tillagan er 102. mál Sþ. og er að finna á þskj. 105 ásamt greinargerð og 10 fylgiskjölum sem málið varða. Tillögu þessari var dreift í Sþ. 15. nóv. 1988 og því nokkur tími liðinn síðan hún var lögð fram en efni hennar heldur fyllilega gildi sínu og vel það í raun í ljósi þeirrar þróunar sem orðið hefur í Miðausturlöndum og á alþjóðavettvangi varðandi þessi mál á þeim tíma sem liðinn er síðan tillagan var fram lögð.
    Flutningsmenn að þessari tillögu eru, ásamt þeim sem hér mælir, hv. 12. þm. Reykv. Kristín Einarsdóttir og hv. 1. þm. Norðurl. v. Páll Pétursson. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að lýsa áhyggjum sínum yfir því ástandi sem ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs og telur það stöðuga ógnun við heimsfriðinn.
    Alþingi fordæmir síendurtekin mannréttindabrot Ísraelsstjórnar gagnvart Palestínumönnum að undanförnu og leggur áherslu á að ísraelsk stjórnvöld virði Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og 4. Genfarsáttmálann um vernd óbreyttra borgara á stríðstímum.
    Alþingi styður kröfuna um að tafarlaust verði haldin alþjóðleg friðarráðstefna á vegum Sameinuðu þjóðanna með þátttöku allra deiluaðila og telur að Ísland eigi að bjóðast til að vera gestgjafi slíkrar ráðstefnu.
    Alþingi leggur sérstaka áherslu á að viðurkenna beri sjálfsákvörðunarrétt palestínsku þjóðarinnar og rétt hennar til að stofna eigin ríki í samræmi við ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 181 frá 29. nóv. 1947 um leið og viðurkenndur er tilveruréttur Ísraelsríkis innan öruggra landamæra. Jafnframt ber að viðurkenna rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við margítrekaðar ályktanir allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.
    Alþingi felur ríkisstjórninni að framfylgja ofangreindri stefnu og viðurkenna Frelsissamtök Palestínu, PLO, sem málsvara palestínsku þjóðarinnar.``
    Í greinargerð með þessari tillögu sem ég hef hér lesið er að finna rökstuðning við þau sjónarmið sem þar eru fram sett og þau eru enn frekar studd rökum með vísun til fylgiskjala þar sem m.a. er nefndur hluti ályktana Sameinuðu þjóðanna varðandi stofnun tveggja ríkja fyrir botni Miðjarðarhafs, stuðningur við PLO í ýmsu formi og afstaða alþjóðlegra samtaka til málefna PLO og Ísraels eða varðandi málefnin fyrir botni Miðjarðarhafs, þar á meðal ályktun frá ráðstefnu Alþjóðasambands jafnaðarmanna í Madrid 12. nóv. 1988 og fjölmargt fleira sem fram er dregið í þessum fylgiskjölum. Þar er einnig listi yfir þau mörg hundruð manns sem drepin hafa verið, þar á meðal börn og unglingar, eftir að uppreisn almennings hófst á herteknu svæðunum í Palestínu í desember 1987 og sá listi hefur lengst frá því að þetta fylgiskjal var prentað.
    Ástandið í þessum heimshluta og áframhaldandi

hernám Ísraelsmanna er storkun við almenningsálit og ógnun við heimsfriðinn. Um leið og framferði Ísraelsstjórnar er fordæmt ber að leggja áherslu á að hið fyrsta verði kvödd saman alþjóðleg friðarráðstefna um Austurlönd nær á vegum öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna með þátttöku allra deiluaðila, þar á meðal Frelsissamtaka Palestínu og Ísraels á jafnréttisgrundvelli.
    Palestínuþjóðin er til og verður að geta ráðið sjálf málum sínum samkvæmt viðteknum alþjóðalögum. Liður í friðsamlegri lausn mála þarf að felast í því að Palestínumenn viðurkenni tilverurétt Ísraelsríkis og á sama hátt viðurkenni Ísraelsmenn rétt Palestínumanna til að stofna eigin ríki á hernumdum svæðum í Palestínu. Slík gagnkvæm viðurkenning væri í samræmi við ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 181 frá 29. nóv. 1947, en með henni var tilveruréttur Ísraelsríkis staðfestur og einnig að stofnað skyldi ríki Palestínumanna og aðrar ályktanir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eru í samræmi við það. Ég legg alveg sérstaka áherslu á það og dreg það fram sem stundum vill gleymast að í rauninni er það þessi ályktun sem vottar tilverurétt Ísraelsríkis sem slíks og hún er jafnframt bundin því að stofnað verði ríki Palestínumanna fyrir botni Miðjarðarhafs.
    Þá ber að viðurkenna rétt palestínskra flóttamanna til að snúa aftur til fyrri heimkynna sinna í samræmi við Mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna og árlegar ályktanir allsherjarþingsins.
    Virðulegur forseti. Eftir að tillaga þessi var fullbúin, eða rétt um það leyti, gerðist það að þjóðarráð Palestínu kom saman til fundar að frumkvæði PLO í Alsír 12.--15. nóv. og lýsti þar yfir stofnun Palestínuríkis með vísan í samþykktir Sameinuðu þjóðanna frá 1947, m.a. í umrædda ályktun nr. 181. Þar var því einnig lýst yfir að stofnuð yrði bráðabirgðastjórn við fyrsta mögulegt tækifæri, en þjóðarráðið fól framkvæmdastjórn PLO að fara með stjórnarmálefni Palestínuríkis uns bráðabirgðastjórn hefði verið sett á laggirnar. Þessi sögulegi fundur kallaði fram mikla hreyfingu á alþjóðavettvangi og góðar undirtektir. Þá gerðist það fáum vikum seinna, eða 6. des., að fyrir milligöngu sænskra stjórnvalda var komið á fundi í Svíþjóð með fulltrúum frá
samtökum sem kallast á ensku International Center for Peace in the Middle East, samtök gyðinga, og það voru fulltrúar gyðinga í Bandaríkjunum, málsmetandi menn, sem komu þar til fundar við Jassir Arafat og fleiri fulltrúa PLO fyrir milligöngu Ingvar Carlsson forsætisráðherra Svía. Á þessum fundi lýsti Jassir Arafat því m.a. yfir fyrir hönd PLO að samtök hans hefðu fallist á Ísraelsríki sem annað tveggja ríkja á svæði hinnar fornu Palestínu og jafnframt að PLO hafnaði hermdarverkum.
    Þá gerðist það skömmu síðar eða um svipað leyti að ákveðið var að Jassir Arafat ávarpaði allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Stjórn Bandaríkjanna neitaði honum hins vegar um vegabréfsáritun og var sú ákvörðun Bandaríkjastjórnar ekki aðeins umdeild heldur fordæmd af flestum þjóðum. Þessari útilokun

fulltrúa þessara samtaka, sem átt hafa fulltrúa á vettvangi Sameinuðu þjóðanna lengi, var svarað með harðri fordæmingu allsherjarþingsins sem samþykkti með 154 atkvæðum að flytja fundi þingsins til Genfar. Þar í hinni fornu höll Þjóðabandalagsins í Genf ávarpaði Jassir Arafat allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna, fulltrúa 159 landa, þann 13. des. í ræðu sem flaug um allan heim samstundis. Þar rakti hann gang Palestínumálsins og greindi frá stofnun Palestínuríkis og stefnu stjórnar þess, þ.e. framkvæmdastjórnar PLO sem fer með stjórnarmálefnin.
    Ég vil sérstaklega nefna þrjú atriði úr hans máli. Í fyrsta lagi að hið fyrsta verði haldin alþjóðleg ráðstefna um málefni Mið-Austurlanda. Í öðru lagi að hertekin svæði af Ísraelsmönnum í Palestínu verði sett tímabundið undir eftirlit Sameinuðu þjóðanna og sérstakt gæslulið verði sett þar til verndar íbúum þessara svæða til þess að fylgjast með brottför ísraelskra hersveita. Í þriðja lagi að PLO muni leita eftir heildarsamkomulagi í deilum Araba og Ísraels með þátttöku Palestínuríkis og Ísraelsríkis innan ramma alþjóðlegrar ráðstefnu á grundvelli samþykkta öryggisráðsins nr. 242 og 338.
    Á blaðamannafundi daginn eftir að Jassir Arafat flutti þessa ræðu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna ítrekaði hann að Palestínumenn mundu viðurkenna Ísrael sem ríki og að PLO fordæmdi hermdarverkastarfsemi.
    Bandaríkin, sem höfðu tekið mjög harða afstöðu í þessu máli sem fyrr og bakkað upp stefnu haukanna innan Ísraelsríkis, tóku þessu öllu með semingi en þegar hér var komið skapaðist slíkur þrýstingur á alþjóðavettvangi að Bandaríkjastjórn ákvað að taka upp tvíhliða samband við PLO. Sá veiki þráður helst enn þá þrátt fyrir ýmsar yfirlýsingar af hálfu bandarískra stjórnvalda sem benda til þess að áhugi þeirra megin sé býsna blandinn og hafa látið að því liggja að sambandið kynni að rofna af þeirra hálfu.
    Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur staða PLO styrkst að undanförnu, þar er ekki lengur talað um fulltrúa frá PLO, þar er talað um fulltrúa Palestínu og 87 ríki hafa nú þegar viðurkennt Palestínuríki formlega. Sendiráð hafa verið opnuð í nokkrum ríkjum og skrifstofur PLO sem fyrir voru hafa fengið hækkaðan diplómatískan status, m.a. í Frakklandi, á Spáni, í Austurríki og í fjölmörgum fleiri löndum. Sendinefnd frá Evrópubandalaginu hefur átt fund með Jassir Arafat á Spáni. Ísland er því miður ekki í hópi þeirra ríkja að mér sé kunnugt sem gripið hafi til sérstakra aðgerða til þess að styrkja þá þróun sem þarna hefur átt sér stað og taka undir jákvæðan málflutning af hálfu Palestínumanna á alþjóðavettvangi og þær góðu undirtektir sem hann hefur fengið. Ég vona að á því verði hið fyrsta breyting af hálfu Íslands og það er lagt til með þessari tillögu sem hér er flutt á Alþingi.
    Ég vil minna á það, virðulegur forseti, að því fer víðs fjarri að staðan sé þannig í Ísrael að þar sé tekið undir þá hörðu stefnu sem stjórnvöld þar í landi hafa

fylgt í þessum málum. Þar er fjöldi málsmetandi manna sem tekur jákvætt undir tillögur og málflutning PLO til þess að reyna að leysa þau mál sem blasa við og draga úr þeim miklu hættum sem því eru samfara. Þar má minna á málflutning Abba Eban, fyrrverandi utanríkisráðherra Ísraels að mig minnir, sem er í hópi ýmissa málsmetandi manna sem þar hafa gengið fram fyrir skjöldu til þess að taka undir málflutning Frelsissamtaka Palestínu.
    Allt er þetta ánægjuleg þróun að því er varðar þátt Palestínumanna og frelsissamtaka þeirra til þessara mála og þær undirtektir sem málflutningur þeirra hefur fengið á alþjóðavettvangi. En til þess að vonirnar geti ræst þarf aðgerðir og hér er undir þær tekið í þessari tillögu og þar á meðal, virðulegur forseti, er leitað eftir afstöðu Alþingis í þessu mikilvæga máli. Vegna aðildar Íslands á sínum tíma að ákvörðunum um stofnun Ísraelsríkis berum við Íslendingar hluta af ábyrgðinni á því sem þar hefur síðan gerst. Þróun mála fyrir botni Miðjarðarhafs hefur leitt til mikilla erfiðleika, styrjaldarátaka og gífurlegra hörmunga fyrir það fólk sem áður byggði Palestínu. Nú er það skylda Íslendinga að eiga þátt í að rétta hlut palestínsku þjóðarinnar um leið og tryggð er framtíð Ísraelsríkis.
    Ég legg til, virðulegur forseti, að málinu verði vísað til hv. utanrmn. að umræðu þessari lokinni.