Deilur Ísraels og Palestínumanna
Mánudaginn 06. mars 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Frá því að þessi tillaga var lögð fram í nóvember sl. hefur ýmislegt átt sér stað varðandi þau mál sem tillagan tekur til. Því miður hefur ekkert lát orðið á síendurteknum mannréttindabrotum Ísraelsstjórnar gagnvart Palestínumönnum og er því fyllsta ástæða til að fordæma þau brot eins og tillagan gerir ráð fyrir.
    Um miðjan nóvember 1988 lýstu Palestínumenn yfir stofnun sjálfstæðs ríkis og samþykktu jafnframt ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 242 um alþjóðlega friðarráðstefnu um málefni Mið-Austurlanda. Með því að samþykkja ályktun Sameinuðu þjóðanna viðurkenndi þjóðarráð Palestínumanna tilverurétt Ísraelsríkis, en skortur á slíkri viðurkenningu hefur m.a. staðið í vegi fyrir að Ísraelsmenn hafi talið sig geta tekið þátt í viðræðum við Palestínumenn um frið í Mið-Austurlöndum.
    Ég bjóst því við að allir, þar með taldir Ísraelsmenn, mundu fagna þessum samþykktum sérstaklega. Sú var þó ekki raunin. Auðvitað fögnuðu flestir þessu skrefi sem þeir töldu mikilvægt í átt til lausnar á deilunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Viðbrögð ríkisstjórnar Ísraels urðu því miður neikvæð og taldi hún að hér væri um pólitískt áróðursbragð að ræða og vildi lítið gera með viðurkenningu þjóðarráðs Palestínumanna á tilverurétti Ísraelsríkis.
    Ísraelsríki var stofnað á sínum tíma sem griðastaður fyrir gyðinga sem höfðu verið ofsóttir og kúgaðir í aldaraðir. Í ljósi þeirra staðreynda er ákaflega erfitt að skilja af hverju Ísraelsmenn skuli nú kúga og ofsækja Palestínumenn, viðurkenna ekki tilverurétt ríkis þeirra og vilja svo ekki viðurkenna það skref sem Palestínumenn hafa tekið í átt til lausnar á deilunum og þar með í átt til friðar.
    Með samþykkt þessarar tillögu getum við stuðlað að því að varanleg lausn fáist á málefnum Mið-Austurlanda.