Deilur Ísraels og Palestínumanna
Mánudaginn 06. mars 1989

     Flm. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég tek undir þau sjónarmið sem fram komu hér í máli hv. 12. þm. Reykv. sem er meðflutningsmaður að tillögunni. Ég hafði vænst þess að hæstv. utanrrh., sem er viðstaddur þessa umræðu, hefði eitthvað um málið að segja. Ég held að það skipti verulegu máli að utanrrh. Íslands greiði fyrir því innan þings og á vettvangi ríkisstjórnar að jákvæð afstaða mótist af Íslands hálfu til þessara mála og að Ísland leggist á sveif með þeim aðilum sem hafa tekið undir þá jákvæðu þróun sem að frumkvæði Palestínumanna hefur orðið fyrir botni Miðjarðarhafs, reyndar með tilstyrk fjölmargra annarra aðila, þar á meðal, held ég megi segja, með hlutdeild Alþjóðasambands jafnaðarmanna. Ég minnti á í ræðu minni að forsætisráðherra Svíþjóðar, Ingvar Carlsson, hefði átt mikilvægan þátt í því að leiða saman áhrifamikla aðila, gyðinga úr Bandaríkjunum og fulltrúa alþjóðlegra samtaka sem vinna að friði fyrir botni Miðjarðarhafs með forustu PLO. Hlutur jafnaðarmanna á alþjóðavettvangi til að bera klæði á vopnin og ýta undir farsæla þróun hefur því verið verulegur á undanförnum mánuðum.
    Ég vænti þess fastlega að hæstv. utanrrh. láti ekki sinn hlut og Íslands eftir liggja að því er varðar að jákvæð þróun og aðgerðir verði á alþjóðavettvangi í framhaldi af þeim samþykktum sem þegar liggja fyrir og í tillögunni er raunar gert ráð fyrir sérstöku frumkvæði af Íslands hálfu til þess að stuðla að slíkri þróun. Því hefði ég vænst þess að heyra rödd utanrrh. Íslands á vettvangi Alþingis þegar þetta mál er rætt.