Deilur Ísraels og Palestínumanna
Mánudaginn 06. mars 1989

     Flm. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Ég notaði rétt minn til annarrar ræðu til þess að bera fram ósk um að hæstv. ráðherra kæmi hér inn í umræðuna. Nú hefur það gerst og ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að hann skuli taka þátt í umræðunni. Ég tel að hans viðbrögð við þessum tillöguflutningi séu með öðrum og skapfelldari hætti en fram kom þegar við áttum orðastað um þessi mál fyrr á þessu þingi og ég er ánægður með það. Mat okkar hæstv. utanrrh. á stöðu mála og eðli þeirra hörðu deilna sem fram fara fyrir botni Miðjarðarhafs á landsvæði Palestínu er ólíkt eftir sem áður, heyri ég, í vissum greinum. Það verður ekki jafnað hér með ræðuhöldum.
    Ég vil um það eitt segja þegar menn eru að líta til deiluaðila að það er ólík aðstaða barnanna sem grípa til þess að kasta grjóti á móti vígtólum af fullkomnustu gerð og hinna sem þar halda um gikkinn í skjóli laga þess ríkis sem heldur stórum landsvæðum herteknum síðan 1967 og hefur virt að vettugi samþykktir gerðar með yfirgnæfandi meiri hluta þjóða heims sem aðild eiga að Sameinuðu þjóðunum.
    En það eru aðgerðir til lausnar sem öllu máli skipta en ekki deilur um það sem liðið er og hér á Ísland tækifæri sem ég vona að hv. Alþingi beri gæfu til að nýta og ekki síður ríkisstjórn Íslands með því að leggja sitt af mörkum til að taka jákvætt á máli, taka í framrétta hönd Frelsissamtaka Palestínu og eiga frumkvæði eða bjóðast til þess að hér verði haldin sú alþjóðlega ráðstefna sem samþykktir lúta að til lausnar deilumálunum fyrir botni Miðjarðarhafs.