Flm. (Friðjón Þórðarson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um ályktanir Vestnorræna þingmannaráðsins 1988. Tillagan er þess efnis að Alþingi álykti að beina þeim tilmælum til ríkisstjórnarinnar að hún hrindi í framkvæmd ályktunum Vestnorræna þingmannaráðsins sem samþykktar voru á fundi þess í Ilulissat í júlí 1988 og prentaðar eru með ályktun þessari sem fylgiskjal. Flm. eru þeir þm. sem skipuðu Vestnorræna þingmannaráðið á sl. ári, nema hv. 4. þm. Suðurl. Margrét Frímannsdóttir, kemur í stað hv. 4. þm. Norðurl. e., Steingríms J. Sigfússonar sem sagði af sér störfum í ráðinu þegar hann tók við ráðherraembætti.
    Vestnorræna þingmannaráðið er grein af norrænu samstarfi og á sér nokkurn aðdraganda. Að frumkvæði norrænu embættismannanefndarinnar um byggðastefnu, NERP, var á árinu 1980 stofnað til sérstaks svæðissamstarfs Færeyinga og Íslendinga. Svæðinu var gefið norræna nafnið Vestnorden, Hin vestlægu Norðurlönd. Slíkt norrænt svæðissamstarf á sér margar fyrirmyndir og hliðstæður. Benda má á t.d. Nord-Kalotten, nyrstu héruð Noregs, Svíþjóðar og Finnlands, og samstarf Borgundarhólms og Suður-Skáns, Midt-Norden-samstarfið sem tekur til héraða um miðbik Noregs, Svíþjóðar og Finnlands o.s.frv. En aðalmarkmið starfseminnar er að stuðla að jákvæðari byggðaþróun á Norðurlöndum með samnorrænum aðgerðum sem komi til viðbótar aðgerðum ríkisstjórnanna.
    Ráðið var stofnsett í september 1985 í Nuuk á Grænlandi. Undirbúning að stofnun þess önnuðust þingmannanefndir kjörnar af Alþingi Íslendinga, Lögþingi Færeyinga og Landsþingi Grænlendinga.
    Hlutverk þingmannaráðsins er að annast samstarf þjóðþinga Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga og vinna að auknu samstarfi um sameiginleg hagsmunamál þjóðanna.
    Stofnskrá fyrir Vestnorræna þingmannaráðið var samþykkt á Alþingi 19. des. 1985. Ráðið hefur einungis tillögurétt til landanna þriggja, eins eða fleiri.
    Fulltrúar í íslensku þingmannanefndinni eru kjörnir af Alþingi til eins árs í senn. Einn fulltrúi frá hverjum þingflokki á sæti í þeirri nefnd.
    Hinir árlegu fundir eru haldnir í löndunum þrem til skiptis: Grænlandi, Íslandi og Færeyjum. Júlífundurinn var fjórði fundur ráðsins, en annar fundur þess á Grænlandi. Þennan fund sátu af hálfu Alþingis þingmennirnir Friðjón Þórðarson, sem er formaður Íslandsdeildar ráðsins, Alexander Stefánsson, Árni Gunnarsson, Óli Þ. Guðbjartsson, Danfríður Skarphéðinsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon, eins og áður er vikið að.
    Á fundinum var fjallað um sameiginleg hagsmunamál Íslands, Færeyja og Grænlands, m.a. á sviði menningarmála, samgöngumála, hafréttar- og umhverfismála o.fl., og nokkrar samþykktir gerðar, eins og segir nánar í fskj.
    Fundurinn í Ilulissat (Jakobshavn) fór fram með hefðbundnum hætti. Það er venja að formaður er valinn frá því landi þar sem fundurinn er haldinn

hverju sinni.
    Formaður stjórnarinnar er nú Preben Lange, Grænlandi, en meðstjórnendur Friðjón Þórðarson, Íslandi, og Hans Jacob Debes, Færeyjum.
    Í almennum umræðum var lögð áhersla á að efla þetta samstarf þar sem svo miklir sameiginlegir hagsmunir eru í húfi, t.d. hvað varðar nýtingu auðlinda hafsins og umhverfismál. Enn fremur voru fundarmenn einhuga um að leitast við að efla samgöngur og viðskipti milli landanna.
    Á hinn bóginn kom það greinilega fram að tilgangslítið væri að koma saman einu sinni á ári og samþykkja margar ályktanir sem lítt væru kynntar og enn minna farið eftir.
    Á fundinum í Ilulissat voru samþykktar þær ályktanir sem prentaðar eru á fskj. I og ákveðið að þær yrðu lagðar fyrir þing og stjórn í hverju landi fyrir sig og kynntar. Sendinefndir hvers lands skuldbundu sig til þess að sjá um að svo yrði gert, sbr. tilmæli ráðsins sem ég vík að síðar.
    Nú hefur nýkjörið ráð komið saman og skipt með sér verkum. Það er gert ráð fyrir að næsti fundur verði haldinn á Íslandi í júnímánuði og verður hann væntanlega haldinn í Stykkishólmi.
    Ég vík þá að ályktunum Vestnorræna þingmannaráðsins. Þær skiptast aðallega í tvo flokka, nr. 1--4 þar sem fjallað er um umhverfismál og mengunarvarnir, nr. 5--6 um æskulýðsmál og síðan er 7. tillagan um markaðssamstarf.
    Fyrsta tillagan fjallar um geislavirkan úrgang undir hafsbotni. Ráðið beinir þeim tilmælum til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands að þær beiti sér kröftuglega gegn því að geislavirkum úrgangi verði komið fyrir undir hafsbotni eins og áformað hefur verið.
    Í öðru lagi er ályktun um notkun freons. Þar er tilmælum beint til stjórnvalda að innflutningur og notkun úðabrúsa með freoni sem þrýstiefni verði bönnuð og unnið verði áfram að frekari aðgerðum til þess að takmarka notkun freons og annarra efna sem eyða ósonlaginu.
    Þá er þriðja tillagan varðandi loftflutninga með plúton. Þeim tilmælum er beint til stjórnvalda að loftflutningar með plúton yfir vestnorræn land- og hafsvæði verði bannaðir sem og millilendingar með efnið á því svæði.
    Þá er ályktun um eftirlit með mengun hafsins sem hljóðar svo:
    ,,Vestnorræna þingmannaráðið hefur þungar áhyggjur af vaxandi mengun sjávar frá iðnvæddum löndum og þeirri ógn við umhverfið sem stafar af aukinni slysahættu vegna hernaðarumsvifa á höfunum.
    Ráðið beinir þeim tilmælum til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands að þær komi sameiginlega á fót skrifstofu er samræmi það starf sem þegar er verið að vinna að við mælingar á mengun á vestnorrænum hafsvæðum og eigi jafnframt frumkvæði að öflugra starfi á þessu sviði. Skrifstofan komi upplýsingum beint til stjórnvalda í hverju landi um sig.

    Vestur-Norðurlönd setja þessa samstarfsskrifstofu á stofn í þeim tilgangi að viðhalda og vernda umhverfi í vestnorrænum löndum.
    Ráðið beinir þeim tilmælum til landanna hvers um sig að ræða nánar skipulag, þátttakendur og verk- og valdsvið slíkrar samstarfsskrifstofu.``
    Þá er hér tillaga nr. 5, um skiptiferðir fyrir ungt fólk, þar sem ráðið hvetur landsstjórn Færeyja, landsstjórn Grænlands og ríkisstjórn Íslands til að ræða hvernig auðvelda megi ungu fólki er ferðast um vesturhluta Norðurlanda, hugsanlega með hinn svokallaða ,,norræna farseðil`` sem fyrirmynd og enn fremur að kanna hvort samræma megi þessa tvenns konar ferðamáta.
    Sjötta tillagan fjallar um námsdvöl, þar sem ráðið víkur að því að greitt sé fyrir því að á hverju ári verði á fjárlögum landanna gert ráð fyrir styrk handa námsmanni eða vísindamanni til að dveljast um eins árs skeið í öðru hvoru hinna landanna.
    Þá er loks tillaga nr. 7, um markaðssamstarf, þar sem rætt er um að vegna þeirra miklu breytinga sem væntanlegar eru á markaðsaðstæðum í Vestur-Evrópu sé æskilegt að löndin þrjú, Ísland, Grænland og Færeyjar, hefji nánara samstarf í útflutningsmálum.
    Tillaga svipaðs eðlis var flutt á síðasta Alþingi, þ.e. tillaga um samvinnu Íslands, Færeyja og Grænlands á sviði markaðsmála og viðskipta. Þá var 1. flm. hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrímur J. Sigfússon, núv. hæstv. landbrh., og meðflm. aðrir þingmenn í Vestnorræna þingmannaráðinu. Þessi tillaga var samþykkt sem þál. frá Alþingi 11. maí 1988.
    Ég skal ekki segja hvort allir eru sammála um þessa tillögu. Ég hef orðið var við það að frá viðskrn. hefur komið athugasemd. Þeir líta á málið frá nokkuð annarri hlið, en þeir munu þá að sjálfsögðu gera grein fyrir sínu áliti því að eins og ég hef bent á hefur Vestnorræna þingmannaráðið aðeins efni á að beina tilmælum til ríkisstjórnanna en ekki knýja þær til framkvæmda. Hins vegar er það svo að sendinefndir á fundi þessa ráðs bera hver um sig ábyrgð á því að ályktanir ráðsins séu teknar á dagskrá í hverju þjóðþingi fyrir sig, þ.e. séu rækilega kynntar fyrir Alþingi og ríkisstjórn í hverju landi.
    Ráðið sá ástæðu til þess að þrýsta einmitt á þetta atriði með því að kveða svo að orði:
    ,,Í ljósi þess að framkvæmd ályktana ráðsins hefur ekki verið vandkvæðalaus, bæði meðferð þeirra og kostnaður við þær og með hliðsjón af þeim slæmu áhrifum sem þetta hefur á framtíð ráðsins og starfsemi þess, hvetur ráðið ríkisstjórn Íslands, landsstjórn Grænlands og landsstjórn Færeyja til að gera átak í að hrinda ályktunum í framkvæmd og veita nauðsynlegt fjármagn í því skyni. Vakin er athygli á slæmum afleiðingum þess að löggjafar- og framkvæmdarvald í hverju landi um sig fylgi ekki eftir ítrekuðum ályktunum ráðsins. Verði það ekki gert nær starfsemi ráðsins ekki þeim tilgangi sem henni var ætlaður við stofnun þess.``
    Hygg ég að þetta liggi ljóst fyrir öllum hv. alþm.
    Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál nánar, en

legg til að málinu verði að þessari umræðu lokinni vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.