Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Vestnorræna þingmannaráðið hefur nú starfað í nokkur ár og sent ályktanir frá fundum sínum. Það er góður siður að kynna þessar ályktanir hér á hv. Alþingi og eðlilegt sem fram kemur í lokatilmælum þingmanna ráðsins til þinga aðildarlandanna að þau láti sig þessi mál varða sem ályktað er um og leitist við að tryggja framkvæmd þeirra. Þetta tel ég vera mjög eðlilega áherslu og ég vænti þess að eftir meðferð í hv. utanrmn. á þessum málum sjáist þess merki hér á Alþingi með viðeigandi hætti að tekið verði á þessum málum og gefnar leiðbeiningar til framkvæmdarvaldsins eftir því sem við á.
    Við hljótum að taka eftir því að mörg þeirra mála, sem þarna er ályktað um í þessum sjö ályktunum, varða umhverfismál, varða áhyggjur út af mengun umhverfisins og það er mjög vel að á þessum vettvangi skuli staðinn vörður með þeim hætti sem hér er gert varðandi hreint umhverfi, sú viðleitni sem endurspeglast í þessum ályktunum.
    Ég vil geta þess hér að sum þessara mála sem hér er ályktað um voru til umræðu og ályktunar á nýafstöðnu þingi Norðurlandaráðs. Þar voru umhverfismálin raunar annar af tveimur meginþáttum í almennum umræðum á þinginu. Það voru annars vegar umhverfismálin og hins vegar hin svokölluðu Evrópumál sem þar fór mest fyrir. Og nú er af sem áður var. Nú eru umhverfismálin orðin nánast tískumál í umræðum en sem betur fer ekki bara tískumál heldur eru teknar ákvarðanir a.m.k. í orði og vonandi verður þeim fylgt eftir á borði, sumum hverjum, því að ástandið í þessum efnum heldur sem kunnugt er áfram að versna, t.d. varðandi mengun andrúmslofts og mengun hafsins, þrátt fyrir þær samþykktir sem þegar hafa verið gerðar. Og jafnvel þrátt fyrir að staðið verði við þær ályktanir með ákvörðunum, eins og t.d. varðandi eyðingu ósonlagsins, varðandi mengun andrúmsloftsins af öðrum efnum en ósoneyðandi efnum, er gert ráð fyrir því að ástandið haldi samt áfram að versna á næstu árum. Menn mega því sannarlega taka sig á í þessum efnum.
    Ég vil geta þess sérstaklega að þriðja málið sem ályktað var um og komið hefur til umræðu hér á hv. Alþingi, bæði því síðasta og því sem nú situr, um loftflutninga með plúton, var, vegna íslensks frumkvæðis, tekið upp í ábendingar og ályktun efnahagsnefndar Norðurlandaráðs sem Norðurlandaráðsþing samþykkti, að í tengslum við áætlun tengda kjarnorkumálum yrði tekið sérstaklega á flutningi og frágangi á geislavirkum efnum og sérstaklega vísað til hættunnar sem heimskautasvæðum getur stafað af slíkum flutningi. Þetta mál er því komið inn í samþykktir Norðurlandaráðsþings með viðeigandi tilmælum til ráðherranefndar, í þessu tilviki orkumála, til þess að taka á.
    Menn minnast þess að haldið var sérstakt aukaþing Norðurlandaráðs í nóvember sl. varðandi mengun hafsins eða varðandi umhverfismál sérstaklega þar sem samþykkt var sérstök áætlun um aðgerðir til

varnar mengun hafsins og nú á nýafstöðnu þingi Norðurlandaráðs var samþykkt sérstök áætlun um samstarf í fiskimálefnum, sem ég kalla svo, þ.e. varðandi rannsóknir á fiskstofnum en einnig á ástandi sjávar, og ekki bara fiskstofnum í þröngum skilningi þess orðs heldur ekki síður á sjávarspendýrum sem gert er ráð fyrir að efldar verði rannsóknir á eins og við Íslendingar erum nú að leitast við að gera einnig af okkar hálfu. Þessi fiskimálasamþykkt Norðurlandaráðs og efni hennar tengist einnig mengunarmálunum því að eðlilega er lögð rík áhersla á það í þessari samstarfsáætlun um fiskimál að undirstaðan, umhverfið, sjórinn sjálfur, haldist þannig að líf dafni með eðlilegum hætti og að takast megi að draga úr mengun.
    Þetta vildi ég hér nefna, virðulegur forseti. Ég get einnig látið fylgja að í umræðum sem tengdust áliti samgöngunefndar Norðurlandaráðs nefndi ég sérstaklega þau efni sem varða ferðalög og möguleika ungs fólks á Norðurlöndum til þess að ná saman á vettvangi Norðurlandaráðs æskulýðsins sem svo er kallað í lauslegri þýðingu. Og í ályktunum og ábendingum samgöngunefndarinnar kom fram stuðningur við þessi efni sem hér er að vikið en þau varða ekki síst þau lönd sem fjærst eru þungamiðju Norðurlanda landfræðilega séð og hvað íbúafjölda snertir, þ.e. vesturhluta Norðurlanda, Grænland, Ísland og Færeyjar. Við skulum vona að þessar áherslur af hálfu Vestnorræna þingmannaráðsins fái þannig stuðning, ekki aðeins í orði heldur einnig á borði á samnorrænum vettvangi eftir því sem við á.