Árni Gunnarsson:
    Virðulegi forseti. Nokkur orð um þessa till. til þál. sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Vestnorræna þingmannaráðið er tiltölulega ung stofnun en hefur í starfi sínu gert ýmsar ályktanir um málefni sem snerta einkum og sér í lagi þau svæði sem kölluð hafa verið jaðarsvæði hins norræna samstarfs, þ.e. Grænland, Færeyjar og Ísland.
    Um það var mikið kvartað á sínum tíma innan Norðurlandaráðs að málefni þessara landa fengju tiltölulega litla umfjöllun innan Norðurlandaráðs og stofnun Vestnorræna þingmannaráðsins var m.a. svar við þeirri gagnrýni þannig að þar mættu menn fjalla um þau mál sem einkum og sér í lagi snertu þessi þrjú lönd. Og þar kemur í ljós að sameiginlegir hagsmunir eru gríðarlega miklir, einkum og sér í lagi hvað varðar lífsafkomu þessara þjóða sem allar byggja hana á hafsvæðunum sem í kringum löndin eru.
    Því er ekki að leyna að innan Vestnorræna þingmannaráðsins hefur komið fram mikið vonleysi um það að ráðið eigi sér lífsvon. Ástæðan er mjög einföld. Frá upphafi ráðsins hafa ríkisstjórnir, heimastjórnir og landsstjórnir þessara þriggja landa ekkert, ég endurtek, ekkert gert með tillögur ráðsins. Þær hafa aldrei farið inn á þing þessara landa í því formi að þær yrðu samþykktar af ríkisstjórnum sem viljayfirlýsing þessa þingmannaráðs. Sjálfur var ég þeirrar skoðunar á fundi, og lét það koma skýrt fram, sem haldinn var á Grænlandi sl. sumar að ef fram héldi sem horfði væri það ekkert annað en peningasóun að halda starfi þessa ráðs áfram.
    Ég leyfi mér að vona að sú ákvörðun Vestnorræna þingmannaráðsins að færa mál sín og ályktanir inn á þing viðkomandi landa í trausti þess að framkvæmdarvaldið taki málin upp og ýti þeim úr vör, hrindi þeim í framkvæmd, mín von er sú að sú ákvörðun geti orðið til þess að einhver ávinningur verði af þessu samstarfi. En ég tel þetta samstarf með því merkasta sem gerist á norrænum vettvangi um þessar mundir. Ástæðan er m.a. sú að að þessum þremur löndum steðjar nú meiri vandi en oft áður, vandi í formi mengunar, í formi aukinna hernaðarumsvifa á hafsvæðum þangað sem þessar þrjár þjóðir sækja lífsbjörg sína og vandi sem felst í ónógum samgöngum á milli þessara þriggja landa, ónógu menningarlegu samstarfi og svo mætti lengi telja.
    Ég hef stundum leyft mér að segja það að við Íslendingar værum sú stórþjóð í þessu samstarfi að við töluðum ekki um það í annan tíma en þann sem við vildum skreyta okkur með því að eiga samstarf við þessar vinaþjóðir hér í Norður-Atlantshafi.
    Á fundi sem haldinn var 1987 í Vestnorræna þingmannaráðinu flutti ég tillögu um það að Norðurlandaþjóðirnar kæmu á fót stofnun sem fylgdist með mengun og ynni gegn mengun Norður-Atlantshafsins. Þessi tillaga var samþykkt lítið breytt, en hún hefur aldrei komist inn á vettvang þjóðþinga þessara landa. Ég held að þarna sé á ferðinni eitt stærsta hagsmunamál þessara þriggja

þjóða, þ.e. að verja uppsprettu lífsbjargarinnar í Norður-Atlantshafinu og koma í veg fyrir að sú ógn sem mengunarmálin eru orðin eigi eftir að eyðileggja og tortíma þeim fiskistofnum sem við lifum á.
    Persónulega hef ég mestar áhyggjur af því að þau hernaðarumsvif, sem einkum og sér í lagi hafa verið á svæðinu milli Grænlands og Íslands, Íslands og Skotlands og upp með Noregsströndum í átt að Kola-skaga, fari mjög vaxandi um þessar mundir, einkum og sér í lagi eftir að afvopnun á meginlandi Evrópu fór að verða veruleiki. Ég hef vissan ótta af því að varnar- og sóknarsvæði stórveldanna færist út á Norður-Atlantshafið. Ég hef oft minnst á það að mér þyki menn taka því með nokkurri léttúð þegar við vitum, eins og nú t.d. á sér stað við Ísland, að fram fara heræfingar kjarnorkuknúinna skipa, bæði ofansjávar- og neðansjávarskipa, án þess að við gerum við það nokkra athugasemd. En það hlýtur að verða eitt meginmarkmið okkar varðandi þau hernaðarumsvif sem eiga sér stað á höfunum að gera kröfur til stórveldanna um að hraða afvopnun á höfunum.
    Virðulegi forseti. Ég gat ekki á mér setið að koma þessu á framfæri. Ég vil benda hv. þm. á það að þriðjungurinn af öllum kjarnorkuvopnum stórveldanna tveggja er í höfunum. Ég vil benda mönnum á það að yfirgnæfandi meiri hluti allra kjarnorkuofna eða kjarnakljúfa sem stórveldin eiga eru á höfunum. Ég vil vekja athygli á því að eitt minni háttar slys í Norður-Atlantshafi þar sem geislavirkt kælivatn rynni frá kafbát eða herskipi, sem knúið er kjarnorku, getur eyðilagt hrygningarstöðvar þorsks eða annars nytjafisks um 100 ára skeið. Þá þyrftu Íslendingar ekki að binda um sárin í efnahagslegu tilliti.
    Það eru þessar umræður sem hafa einkennt störf Vestnorræna þingmannaráðsins. Á þessum þjóðum brennur þessi vandi heitar en á þeim meginlandsþjóðum sem eiga aðild að Norðurlandaráði. Ég legg þess vegna mikla áherslu á það að þessi tillaga, sem hér er fram komin, fái framgang hjá framkvæmdarvaldinu. Og ég skora á hv. þm. sem hafa áhuga á því að þessum málum verði framfylgt að þrýsta á. Ef svo verður ekki þá sé ég í raun engan tilgang með því að Vestnorræna þingmannaráðið haldi áfram að starfa.