Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Þetta er nokkuð sérkennilegt mál eins og það ber að hér, ekki málefnin sem eru hér í ályktunum, heldur hlýtur sérstaklega að vekja athygli manns sá viðauki sem er þarna síðast í ályktuninni í fskj. II. Það er jú svo að allir flokkar, sem eiga fulltrúa á Alþingi, eiga fulltrúa í Vestnorræna þingmannaráðinu. Og það er ótrúlegt að fulltrúar þessara flokka séu að standa að ályktunum eða samþykktum í þessu ráði sem brjóta í bága við stefnu þeirra eigin flokka hér heima. Því hlýtur það að vekja nokkra furðu að þeir skuli sjá ástæðu til þess að kvarta undan viðbrögðum Alþingis og/eða ríkisstjórnar við þessum málum.
    Það er að vísu svo að við Íslendingar eigum aðild að fjölmörgum alþjóðasáttmálum sem við skrifum undir en gerum svo harla lítið með framkvæmd hér heima. Stundum er það jafnvel svo að þeir samningar stangast á við lög hér heima og nánast eins og að menn geti sveiflað penna í útlöndum án þess að bera svo ábyrgð á því þegar heim kemur. En það er mjög mikilvægt að íhuga það að Vestnorræna þingmannaráðið er stofnað til þess að gæta hagsmuna svokallaðra jaðarsvæða og það stendur því upp á Alþingi að gæta þess að þessi jaðarsvæði verði ekki eins konar jaðarmálefni í norrænu samstarfi og að Vestnorræna þingmannaráðið sé ekki einhvers konar ventill þar sem jaðarsvæðin koma saman til þess að blása, til þess að aðalsvæðin geti svo haldið áfram að vinna í friði að því sem þeim þykir mestu máli skipta hverju sinni.
    Fjögur þeirra málefna sem hér er ályktað um fjalla um mengun af ýmsu tagi, hvort sem er af hernaðarlegum eða öðrum umhverfislegum ástæðum, og það þarf ekki að fjölyrða um mikilvægi þess fyrir okkur Íslendinga að meðal annars þær ráðstafanir sem nefndar eru í tillögunni séu gerðar. Mætti auðvitað telja ótal fleiri og vil ég sérstaklega taka undir orð hv. síðasta ræðumanns um þann aukna hernað sem nú er hér í norðurhöfum. Þar verða Íslendingar að láta til sín taka fyrr en seinna.
    Við hljótum að spyrja hvers vegna þessar tillögur komi ekki til framkvæmda hér á Alþingi, þar sem Alþingi ber ábyrgð á för og erindi þingmanna í Vestnorræna þingmannaráðinu og ber síðan ábyrgð á að þær tillögur sem þar eru samþykktar nái fram að ganga á Íslandi og þaðan nái þær aftur inn í norrænt samstarf svo að þetta verði ekki einungis orðin tóm. Því að ef svo er, þá er jafngott að eyða ekki peningum í þetta samstarf heldur nýta þá í eitthvað skynsamlegra hér heima fyrir.