Efling hafbeitar á Íslandi
Mánudaginn 06. mars 1989

     Flm. (Guðmundur H. Garðarsson):
    Virðulegi forseti. Ég harma það að hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir skuli hafa vikið af fundi vegna þeirra ummæla sem hún viðhafði undir dagskrárlið um þingsköp. Ég átti mikið og gott samstarf við virðulegan þm. á sínum tíma í verkalýðshreyfingunni og fannst mér þetta mjög ólíkt henni að nálgast mál eins og það sem hér var til umræðu með þeim hætti sem hún gerði. Ég held það stafi af einhverjum misskilningi hjá henni, þessari ágætu konu. Við vorum ekki og erum ekki að fjalla um fiskeldismál, hvorki hv. þm. Guðmundur G. Þórarinsson né hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson né sá sem hér stendur, út frá sjónarmiði stórgróða. Við höfum haft þetta sem hugsjónamál ásamt mörgum fleiri Íslendingum að reyna að vekja athygli Íslendinga á þessum möguleikum. Sumir þessara hv. þm., m.a. hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, byrjaði á þessu um og eftir 1970 ef ég man rétt og þetta er eitt af þeim málum sem eru bæði hugsjónir og raunveruleiki. Ég held því að það sem við erum að fjalla um sé raunverulega forsendan fyrir því að unnt sé að gera það sem hv. þm. Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir og við öll viljum auðvitað stefna að, þ.e. að tryggja stöðu þeirra sem verr eru settir í þjóðfélaginu sem ég held að hv. þm. hafi átt við.
    Ég skal ekki, virðulegi forseti, tala hér langt mál. Ég þakka þeim hv. þm. sem stóðu upp og lýstu yfir stuðningi við till. og vænti þess að hún nái fram að ganga en eins og ég sagði er hér um bæði hugsjónamál og mál í raunveruleikanum sem skiptir íslensku þjóðina afskaplega miklu máli. Við skulum hafa það í huga að hinir hefðbundnu fiskstofnar fara rýrnandi á sama tíma sem það verður stöðugt dýrara að veiða þessa fiska eins og þorsk, ýsu o.s.frv. Það er orðið dýrara, fiskurinn er lengra úti og tækin dýrari, en á sama tíma erum við að reyna að þróa hér upp nýja atvinnugrein á sviði fiskeldis sem er laxinn sem býður upp á óhemjumikla möguleika og er raunverulega grundvallarforsendan fyrir framtíð þessarar þjóðar sem sjálfstæðrar þjóðar. Ég ítreka það því enn á ný að þetta er eitt af stóru málunum, en hins vegar vil ég segja að lokum að það er e.t.v. táknrænt fyrir þessa umræðu að á dagskrá fundarins í dag eru þessi tvö mál, annars vegar fyrsta mál á dagskrá sem er um kynbótastöð fyrir eldislax og síðan þetta um hafbeit, og að ekki einn einasti ráðherra skuli vera hér viðstaddur, en ég er sannfærður um það að eftir 5 eða 10 ár, ef einhverjir þeirra háu herra verða hér á þingi, munu þeir örugglega koma og segja eins og oft er sagt: Nú get ég, þ.e. þegar aðrir eru búnir að ryðja brautina og byggja upp það sem máli skiptir. Ég sakna þeirra ekki, þessara manna, ráðherranna í ríkisstjórn Íslands í dag. Ég veit það að hv. alþm. munu geta veitt þessu máli brautargengi og ekki síður fyrir það að þessir hæstv. ráðherrar skuli ekki vera viðstaddir.