Umhverfismengun af völdum einnota umbúða
Þriðjudaginn 07. mars 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka þeim hv. þm. sem hér hafa tekið til máls um þetta frv. fyrir þeirra jákvæðu undirtektir við meginstefnu frv. Ég á auðvelt með að skilja vonbrigði þeirra hv. 6. og 14. þm. Reykv. með það hversu seint hefur gengið að koma fram nauðsynlegum umhverfisvörnum í landinu. Á því er m.a. sú skýring sem hv. 6. þm. Reykv. kom inn á í sínu máli, að það er enn ekki búið að finna þessu mikilvæga verkefni stað í stjórnkerfinu. Þess vegna er það m.a. að ég sem iðnrh., sem auðvitað fer ekki sérstaklega með umhverfisverndarmál, hef talið það skyldu mína að láta slík mál ekki detta á milli stóla heldur vinna að þeim þótt ekki sé alveg ljóst hvar þau eiga heima. Ef allir hugsa þannig gerist aldrei neitt. Þess vegna er frv. hér flutt, en mér finnst skiljanlegt að fólki finnist það hafa gengið nokkuð hægt fram.
    Vegna þess sem hv. 6. þm. Reykv. vék að í einstökum atriðum langar mig til að segja að ég er að sjálfsögðu sammála hv. þm. um það að í heiti frv. á að vera aðaltilgangur þess, þ.e. umhverfisvernd, þótt ég telji reyndar, eins og ég vék að í mínu máli, að endurvinnsla og hirða á úrgangsefnum sé líka undirstaða atvinnu og iðnaðar og það sjónarmið megi heldur ekki vanrækja.
    Um athugasemdir hv. þm. um skilagjaldið, þá bendi ég á að pantur fyrir glerflöskur sem skilað er aftur er núna 5 kr. Við það er auðvitað nokkur samanburður í hugum þeirra sem skila þessum dósum. Í Svíþjóð þar sem er nærtækust fyrirmynd er skilagjald 50 aurar af hverri áldós eða rétt um 4 kr. íslenskar. Ég geri ekki ágreining við það fólk sem hefur þá skoðun að gjaldið þurfi að vera hærra hér til þess að hvetja til hirðusemi. Það má vera enda heimilar frv. það, ef að lögum yrði, að ákveða hærra gjald með reglugerð. Ég vil hins vegar ekki taka dæmi af öðru í skýringum við frv. einfaldlega vegna þess að Áfengis- og tóbaksverslunin hefur ákveðið að byrja sín viðskipti með áfengt öl með 5 kr. skilagjaldi á hverri dós. Það er lágmark. Það er rétt hjá hv. 6. þm. Reykv.
    Um það hvort ástæða sé til að verðtryggja þetta með formlegum hætti í lögunum vil ég segja: Ég tel ástæðu til þess að hv. iðnn. þessarar deildar hugleiði það hvort þarna eigi að stofna rýmri heimild til gjaldtökunnar, en ég tel það hins vegar ekki alls kostar ábyrga lagasetningaraðferð að veita opnar heimildir til gjaldtöku af þessu tagi. Þess vegna er þarna sett ein föst tala, 10 kr. á hverja dós.
    Það er rétt hjá hv. 6. þm. Reykv. að í þessu söfnunarkerfi felst ákveðin þversögn, þ.e. félagið hefur hag af því að ekki heimtist allar dósirnar sem seldar eru og félagið hefur fengið skilagjald fyrir. Ég bendi hins vegar á, eins og kemur fram í 1. gr. frv., að umsýslugjaldið sem í upphafi er ákveðið 1% af skilagjaldinu má hækka í 5%. Ætlun mín er að í samningi við félagið yrði ákveðin hækkun á umsýslugjaldinu í hlutfalli við heimturnar, þ.e. það hækki eftir því sem betur heimtist, og það er þá hvatning fyrir félagið að stofna til hreinsunarherferða,

fær það hærra hlutfall af því sem inn kemur.
    Ég ætla ekki að segja annað um 3. gr. og 5% af tekjuafgangi til Náttúruverndarráðs en það að talsmenn Náttúruverndarráðs sem hafa tekið þátt í undirbúningi þessa máls, og það hafa þeir gert á öllum stigum málsins, hafa lýst því að þeir séu sáttir við þessa tillögu. Ég tel erfitt að opna þann farveg að ákveða að skilagjaldið sé ekki eingöngu skilagjald, heldur líka einhvers konar eyrnamerktur skattur sem fari til ákveðinna tiltekinna annarra þjóðþrifamála en að þrífa landið, og er þess vegna með tillöguna í þeirri mynd sem hún er þarna, að þetta sé tengt söfnunarárangri félagsins.
    Það er sannarlega rétt hjá hv. 6. þm. Reykv. að hér er allmiklu fé til kostað í upphafi, en ég er þeirrar skoðunar að það sé erfitt að fara af stað með fyrirtæki eins og þetta af vanbúnaði. Það má einfaldlega ekki mistakast. En það má heldur ekki dragast að koma því þannig af stað að það sé okkur til sóma því að það er víða mikill ljóður á ráði landsmanna að skilja umbúðir eftir á víðavangi, þar er margt sem betur þarf að fara.
    Þá sný ég mér að því sem fram kom hjá hv. 14. þm. Reykv. Ég vil endurtaka það sem ég sagði vegna athugasemda hv. 6. þm. Reykv. að það er náttúrlega ekki sanngjarnt að sakast við þann sem hér stendur um það að þetta mál komi seint fram. Ég hef komið því fram jafnskjótt og mér var kostur í minni ráðherratíð. Það er rétt að það var skipuð nefnd í nóvember 1987 af fyrrv. iðnrh. sem hóf störf í ársbyrjun 1988. Starf þeirrar nefndar gekk að mínu áliti allt of hægt. Þess vegna var það að ég ákvað í byrjun þessa árs að bíða ekki lengur eftir því sem ég tel, og ég ítreka það, sem ég tel sjálfur vera brýnasta verkefnið á þessu sviði og það eru einmitt einnota umbúðirnar. Ég er áhugasamur um skilagjald af ökutækjum og hirðu brotamálma. Það er öðruvísi mál. Ég get skýrt það fyrir hv. 14. þm. Reykv. hvers vegna ég hef ekki lagt það frv. óbreytt fram sem nefndin samdi. Þau frumvarpsdrög eru tillaga til ráðherrans en ekkert sem ráðherrann er skyldugur að leggja fram óbreytt í þinginu. Ég er ekki alveg sammála stefnunni í drögum nefndarinnar. Ég tel að nefndin hafi lagt til of hátt gjald á gamla bíla, að það sé ekki gerlegt að leggja enn á bílaeigendur sérstakt allhátt gjald vegna skilanna, vil halda mig við að leggja slíkt gjald
á nýja bíla þegar þar að kemur til þess að íþyngja ekki enn umferðinni, ökumönnum og bíleigendum. Ég tel líka að nefndin hafi þar ætlað sér að setja á fót fyrirtæki sem ekki hentar þessu verkefni þótt það henti varðandi umbúðirnar. Ég tel að sveitarfélögin eigi eðli máls samkvæmt mikilla hagsmuna að gæta við söfnun málmúrgangs og ég vil leggja miklu meira af þeim verkum sem í frv. felast á sveitarfélögin. Þeirra er ábyrgðin, þeirra er líka heiðurinn ef vel tekst til. Ég ætla mér að leggja fram í þinginu frv. sem reist er á vinnu endurvinnslunefndar sem, eins og það frv. sem við ræðum hér í dag, er ekki tillaga nefndarinnar heldur tillaga ráðherrans. Það frv. verður öðruvísi en nefndin samdi það, en það tekur að mínu áliti á þeim vanda sem við er að fást. Ég er innilega

sammála hv. 14. þm. Reykv. að það þarf að fara að koma fram að brotajárnsúrgangur er óþrifnaður sem þarf að taka myndarlega á. Ég geri alls ekki lítið úr fyrra starfi að þessum málum, en segi það ósköp blátt áfram að sá ráðherra sem gerir tillögur í þinginu verður að hafa sannfæringu fyrir því að það séu hans eigin tillögur en ekki eitthvað sem hann afgreiðir á færibandi inn í þingdeildirnar eftir því sem nefndir utan þings skila þeim.
    Að öðru leyti vildi ég aðeins víkja aftur að því sem kom reyndar fram í minni framsögu, að það hefur tekist gott samkomulag innan þeirrar undirbúningsnefndar sem vinnur að undirbúningi að stofnun félags eins og gert er ráð fyrir í 2. gr. um megindrættina í skiptingu hlutafjárins. Þar er gert ráð fyrir því að iðnrekendur --- bæði málmbræðslufyrirtæki, þar á meðal fyrirtæki Ásgeirs Einarssonar sem hér var lesið upp. Það fyrirtæki á reyndar mann í undirbúningsnefndinni og virðist hann sáttur við málið eins og það liggur núna fyrir --- eigi 40% ásamt gos- og bjórframleiðendum, innflytjendur, kaupmenn og samtök þeirra, þar með talin samvinnuhreyfingin, eigi fimmtung, opinberir aðilar, ríkið, Áfengis- og tóbaksverslunin, ríkið, sveitarfélög og almannasamtök, og ég tek það fram að skátahreyfingin hefur átt fulltrúa í undirbúningsnefndinni, eigi önnur 40%. Það er ekki kappsmál mitt að ríkið eigi þarna stóran hlut, en ríkið ber ábyrgð á málinu og verður að vera undir það búið að taka þarna stóran hlut því mér segir svo hugur um að það kunni að verða erfiðara að útvega fé þegar á hólminn er komið eins og oft vill verða þegar menn eru að stofna félög.
    Ég vildi líka vekja athygli hv. 14. þm. Reykv. á því varðandi þátttöku sænskra aðila í þessu máli að þá er hún nefnd í nál. og tilheyrandi frv. sem nefndin hafði samið sem er annað en það frv. sem ég legg hér fram. Eins og kemur fram í greinargerð minni fyrir frv. var þetta verkefni einmitt tekið úr verksviði nefndarinnar til að koma brýnu máli fram. Eins og kemur fram af dagsetningunum í greinargerðinni, þá var nefndin einfaldlega ekki búin að skila í janúarlok. Ég hafði sett henni slíka fresti. Ég vildi ekki bíða lengur, vildi koma fram með málið, en að sjálfsögðu vil ég að þingmenn geti séð hvað það var sem þessi nefnd lagði til. Hún hefur enn ekki lokið sínu starfi. Hún hefur reyndar víðtækt verkefni.
    Ég skil þau áhyggjuefni, sem fram koma í sérálitum og greinargerðum fulltrúa Hollustuverndarinnar og Ásgeirs Einarssonar, forstjóra Sindra, og hv. 14. þm. Reykv. las upp. Fyrir þeim málum er öðruvísi séð í því frv. sem ég mæli nú fyrir en í tillögu endurvinnslunefndar þannig að ég tel að þau mál séu í meginatriðum leyst. Um það þarf ég þess vegna ekki að hafa fleiri orð, en sný mér að því sem hv. 7. þm. Reykn. kom hér inn á.
    Ég tek undir með þingmanninum að það er vissulega áhyggjusamlegt hvernig þróun í umbúðanotkun hér á landi er og hefur verið að undanförnu. Þetta frv. verður þó fremur að skoðast

sem þrándur í götu þeirrar þróunar, þ.e. vaxandi notkunar á einnota umbúðum vegna skilagjaldsins sem á er lagt. Hér er beinlínis gert ráð fyrir því að koma þessu í skikkanlegan farveg. Hvort heppilegt hefði verið að fara aðrar leiðir og byggja meira á áhugasamtökum og einfaldari lausnum, eins og þetta er stundum orðað, þá var það kannað mjög vandlega. Ég átti m.a. samtöl við fulltrúa skátahreyfingarinnar sem höfðu sýnt þessu máli mikinn áhuga. Þeir eru nú aðilar að undirbúningsnefndinni. Ég vona að þeir verði aðilar að þessu félagi. Ég held að þeir og við sem við þá ræddum hafi sannfærst um að það er nauðsynlegt að gefa söfnun umbúða og endurvinnslu fast rekstrarform því það vill oft fara þannig þegar áhugafélög taka að sér verkefni að þá eru þau vel og myndarlega leyst af hendi meðan áhugans nýtur í upphafi hjá þeim sem komu því af stað. En til þess að tryggja varanlega og örugga hirðu á þessu sviði tel ég óhjákvæmilegt að hafa rekstur með fyrirtækjasniði og þannig um hnúta búið að það detti ekki niður vegna mannabreytinga. Í þessu felst engin gagnrýni eða efasemdir um einlægan vilja þeirra samtaka sem hafa látið að sér kveða í málinu heldur hitt miklu fremur að það er ábyrgðarhluti almannavaldsins að finna öruggan farveg fyrir þetta þjóðþrifamál.