Framkvæmdasjóður á sviði menningarmála
Þriðjudaginn 07. mars 1989

     Flm. (Birgir Ísl. Gunnarsson):
    Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hefur átt sér stað í dag um þetta frv. Það hafa komið fram ýmsar athugasemdir sem rétt er að víkja nokkuð að, en ég ætla fyrst að gera að umtalsefni það sem tveir síðustu ræðumenn ræddu sérstaklega, þ.e. hv. 5. þm. Reykv. Albert Guðmundsson og hv. 11. þm. Reykn. Hreggviður Jónsson.
    Það er misskilningur, sem fram kemur í máli t.d. hv. þm. Hreggviðs Jónssonar, að hér sé verið að hækka enn eignarskatta í viðbót við þá sem fyrir eru eins og hann orðaði það í sinni ræðu. Sjálfstfl. tók mjög ákveðna afstöðu gegn hækkun eignarskatta hér á Alþingi í vetur og okkar afstaða til þess er alveg óbreytt. Við teljum að sú mikla hækkun sem varð á eignarskatti með því frv. sem samþykkt var fyrir tilstuðlan hæstv. ríkisstjórnar fyrr í vetur hafi verið óverjandi og erum jafnsannfærðir um það nú og þá að það hafi verið röng ákvörðun. Það sem þetta frv. fjallar um er að beina skatti sem þegar er innheimtur í dag í ákveðinn farveg. Hér er ekki verið að gera ráð fyrir að leggja á nýjan skatt sem ekki er innheimtur í dag heldur framlengja þann eignarskattsauka sem Alþingi samþykkti nokkurn veginn samhljóða. Þegar hv. þm. Albert Guðmundsson sat í ríkisstjórn var samþykkt að taka sérstakan eignarskattsauka og beina honum í þjóðarbókhlöðu. Það er það sem er verið að gera með þessu frv. að halda áfram þeirri skattheimtu og beina henni reyndar áfram til þjóðarbókhlöðu og til fleiri menningarstofnana eins og frv. sjálft ber með sér. Það er sem sagt ekki um að ræða viðbót við það sem fyrir er og ekki nýjan skatt, ekki hækkun á eignarskatti heldur áframhaldandi skattheimtu sem Alþingi var mjög sammála um að taka upp á sínum tíma af þessu sérstaka tilefni.
    Ég geri mér fulla grein fyrir því að í frv. eins og þessu eru mörg álitamál og ýmis af þeim álitamálum hafa verið tekin til umræðu í dag. Það er t.d. spurningin hvernig eigi að skilgreina menningarstofnanir. Í 2. gr. þessa frv. eru taldar upp nokkrar stofnanir sem okkur flm. fannst liggja í augum uppi að væru brýn verkefni. Ég tek fram að að undanskilinni þjóðarbókhlöðu, sem talin er að hafa skuli forgang, ber ekki að skilja þessa upptalningu í síðari hluta 2. gr. þannig að þar sé verið að festa niður einhvern forgang. Þetta er fyrst og fremst upptalning og lagt í hendur Alþingis að ákveða forgangsröð við afgreiðslu fjárlaga hverju sinni.
    Spurningin er sú sem hv. 18. þm. Reykv. varpaði fram: Hvers vegna þarf sérstakan sjóð? Auðvitað er það spurning sem vert er að huga dálítið betur að. Auðvitað væri æskilegt að við þyrftum ekki sérsjóð af þessu tagi. Reynslan hefur bara sýnt að þessi málaflokkur og reyndar ýmsir kannski skyldir málaflokkar eiga mjög undir högg að sækja á Alþingi. Það er staðreynd sem við verðum að horfast í augu við og í ljósi þeirrar reynslu er gert ráð fyrir að sérstakur sjóður verði stofnaður. Það eru til aðrir sjóðir, eins og sjóðir fyrir aldraða, sjóðir fyrir stofnanir í þágu fatlaðra og þar fram eftir götunum

sem hafa verið stofnaðir og reynslan af þeim hefur verið sú að a.m.k. fyrst í stað hafa þeir skilað þeim árangri að setja verulegan kraft í uppbyggingu viðkomandi verkefna. Eftir því sem tíminn líður hefur stundum verið gengið í að skerða þessa sjóði og þá hefur Alþingi gert það sjálft með nýjum lögum, oft frá ári til árs í sambandi við afgreiðslu lánsfjárlaga, en sá er þó munur á varðandi byggingarsjóð þjóðarbókhlöðu að Alþingi hefur aldrei samþykkt með sérstakri lagabreytingu að skerða framlög til hans í sambandi við afgreiðslu lánsfjárlaga.
    Það er líka spurning hverjar eigi að vera tekjur sjóðs af þessu tagi. Ég hef heyrt öðrum hugmyndum fleygt, eins og t.d. að leggja ákveðið gjald á sölu hverrar bjórdósar eða hverrar bjórflösku og setja í sjóð af þessu tagi. Mér finnst allar slíkar hugmyndir vera vel þess virði að þær séu skoðaðar og því fer fjarri að ég sé eitthvað fastur í því að nákvæmlega þessi tekjuaðferð eigi að vera við lýði varðandi þennan sjóð. Ég get alveg sagt þeim það, báðum þingmönnum Borgfl. sem hér hafa talað, að ég er fyllilega til viðræðu um góðar hugmyndir frá þeirra hálfu um aðra tekjustofna í sjóð af þessu tagi. Mér finnst hins vegar mikilvægt að slíkur sjóður sé stofnaður og það er mér alls ekki neitt sáluhjálparatriði eða mér er það ekki fast í hendi að nákvæmlega þessi tekjuaðferð verði viðhöfð ef aðrar tekjuaðferðir eða aðrir tekjustofnar sem skila sambærilegum tekjum finnast eða hugmyndir koma upp um slíkt.
    Hv. 1. þm. Vesturl. gerði nokkuð að umtalsefni kostnaðaráætlanir þjóðarbókhlöðunnar og taldi að þær kostnaðaráætlanir hefðu ekki verið nægilega öruggar og hefði ekki verið fyrr en á síðasta hausti að endurskoðaðar áætlanir voru lagðar fram. Ég skal vissulega taka undir með honum um það atriði að það er allt of oft að kostnaðaráætlanir opinberra bygginga eru ekki nægilega raunhæfar og síðan eru þær ekki endurskoðaðar nægilega ört þannig að menn átta sig ekki alltaf nákvæmlega á því hvar þeir eru staddir. Ég lagði hins vegar mikla áherslu á það þann tíma sem ég var í menntmrn. að einmitt áætlanir um byggingu þjóðarbókhlöðu væru sem nákvæmastar á hverjum tíma og óskaði sérstaklega eftir því á sl. vori, þ.e. vorið 1988, að lögð yrði fram
endurskoðuð framkvæmda- og kostnaðaráætlun. Ég var af tilviljun með í töskunni bréf sem ég fékk frá byggingarnefndinni, dagsett 2. júní 1988, þar sem hún leggur fram endurskoðaða framkvæmda- og kostnaðaráætlun hönnuða miðað við byggingarvísitölu í maí 1988. Samkvæmt þeirri áætlun kemur fram að heildarkostnaður frá næstu áramótum, þ.e. áramótunum 1988--1989 miðað við verðlag í maí 1988, verður samkvæmt hinni endurskoðuðu áætlun að viðbættum 717 millj. kr.
    Nú kann vel að vera að það hafi verið gerð enn ný áætlun í haust sem hafi verið allmiklu hærri, en samkvæmt þeirri áætlun sem lá fyrir í júní var gert ráð fyrir því að ef allur eignarskattsaukinn sem innheimtur var á árunum 1987--1989 færi í þetta verkefni, sem menntmrh. telur eða taldi a.m.k. að ætti

að gera, mundu þessar tekjur ekki, jafnvel þó þær kæmu allar, hrökkva til þess að ljúka þessu verki og yrðu u.þ.b. 535 millj. kr. eftir sem þyrfti þá að afla sérstaklega fjár til.
    Ég vildi aðeins geta um þetta vegna þess að ég vildi a.m.k. ekki liggja undir því að meðan ég var í menntmrn. hefði ekki verið reynt að hafa kostnaðaráætlun um þessa byggingu á hverjum tíma eins nákvæma og hægt var.
    Herra forseti. Ég hef aflað mér upplýsinga um það frá því ég flutti mína framsöguræðu um þetta mál að frv. um byggingarsjóð þjóðarbókhlöðu fór til fjh.- og viðskn. á sínum tíma og tel eðlilegt að þetta fari sömu leið og vil því leggja til að fjh.- og viðskn. fái þetta einnig.