Framkvæmdasjóður á sviði menningarmála
Þriðjudaginn 07. mars 1989

     Alexander Stefánsson:
    Virðulegi forseti. Það er aðeins í sambandi við þjóðarbókhlöðuna. Ég get staðfest að hv. 1. flm. þessarar tillögu og fyrrv. menntmrh. gerði tilraun á árinu 1988 til að láta setja upp kostnaðaráætlun fyrir þjóðarbókhlöðuverkið, en því miður var sú áætlun ekki í því formi sem hægt er að kalla endanlega áætlun. Sú áætlun liggur núna fyrir og samkvæmt því er gert ráð fyrir að til þess að ljúka þjóðarbókhlöðunni verði heildarverð hennar komið upp í 1,4 milljarða tæplega. Miðað við uppreiknaðan kostnað frá fyrri áætlun hefði það verið um 900 millj. og miðað við uppreiknaðan tekjustofninn, að honum væri öllum skilað, þ.e. eignarskattsaukann í þjóðarbókhlöðuna, vantar milli 400 og 500 millj. núna til að ljúka verkinu miðað við nýjustu kostnaðaráætlun. Ég held að það sé rétt að það komist alveg skýrt inn að það er vandamálið sem er fram undan í sambandi við þetta mikla verkefni þar sem lögin um þennan eignarskattsauka falla úr gildi í lok þessa árs. Ég tel rétt að undirstrika þetta um leið og ég endurtek að mér finnst ástæða til að stjórnvöld og auðvitað Alþingi leggi meiri áherslu á það en verið hefur við svona dýr mannvirki að kostnaðaráætlun sé alltaf í endurskoðun og raunveruleikinn liggi alltaf fyrir um fjárvöntun til að ljúka slíkum mannvirkjum til fullnustu.