Framkvæmdasjóður á sviði menningarmála
Þriðjudaginn 07. mars 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það er í rauninni hálfdapurlegt að heyra hvern þingmanninn á fætur öðrum lýsa því yfir úr ræðustóli að stofnun þessa sjóðs sé eins konar nauðvörn vegna þess að það sé staðreynd að ekki sé áhugi fyrir menningarmálum á hinu háa Alþingi. Ef finnast menn í öllum flokkum sem enn þá hafa þennan áhuga má e.t.v. spyrja hvort þeir geti ekki reynt að vekja hann aðeins innan sinna flokka frekar en að gefast upp fyrir þessari bitru staðreynd. Ef þetta er rétt, sem ég reyndar dreg ekki mjög í efa, verður enn þá brýnni spurningin sem ég spurði áðan: Hvernig á að tryggja að þessi sjóður njóti þeirra tekna sem honum eru ákveðnar? Í öðru lagi vil ég í því sambandi spyrja Guðmund G. Þórarinsson, hv. 10. þm. Reykv., þegar hann segir um leið og hann lýsir stuðningi við svona sjóð að jafnframt verði að tryggja að það dragi ekki úr öðrum fjárveitingum Alþingis til menningarmála: Hvernig ætlar hann að tryggja það og hvernig ætla hv. flm. þessa frv. að reyna að tryggja framkvæmd þess ef þeir eru, eins og þeir marglýsa hér yfir, sannfærðir um þá bitru staðreynd að það sé ekki nægur áhugi á menningarmálum á hinu háa Alþingi?