Stjórn umhverfismála
Þriðjudaginn 07. mars 1989

     Flm. (Matthías Á. Mathiesen):
    Herra forseti. Á þskj. 431 hef ég leyft mér ásamt sex hv. þm. úr Sjálfstfl. að flytja frv. til laga um samræmda stjórn umhverfismála. Umhverfismál, umhverfisvernd, eru málefni sem mjög brennur á víða og hafa m.a. verið til umræðu hér á Alþingi á þessu þingi. Má þar víkja að till. til þál. um umhverfisráðuneyti sem mælt hefur verið fyrir hér, en flm. eru þingmenn Kvennalistans, 1. flm. Kristín Halldórsdóttir. Auk þess var nýlega mælt fyrir ályktun Vestnorræna þingmannaráðsins, þar sem sérstaklega var fjallað um eftirlit með mengun hafsins þannig að þessi mál hafa þó nokkuð verið rædd hér á þessu þingi. Engu að síður töldum við flm. þessa frv. ástæðu til að flytja þetta frv. og koma þar fram með hugmyndir um með hvaða hætti skynsamlegast væri að okkar dómi að skipa umhverfismálum.
    Markmið umhverfisverndar er að tryggja íbúum jarðar þau gæði láðs og lagar sem gefa þeim möguleika á sem bestum lífsskilyrðum. Er þá átt við ástand mála eins og þau eru á hverjum tíma og ekki síður þegar til framtíðarinnar er litið. Er hér um að ræða alla þætti lífríkisins.
    Umhverfismálalöggjöf er forsenda allrar stjórnar á þessu sviði. Hlutverk hennar er fyrst og fremst að skipa fyrir um hvernig taka beri tillit til eiginleika umhverfisins með hliðsjón af lífríkinu. Þótt umhverfisvandamál séu fyrst og fremst leyst á tæknilegan hátt er umhverfismálaréttur löngu viðurkenndur innan fræðikerfis lögfræðinnar. Rétt er t.d. að benda á að umhverfismálaréttur viðurkennir því aðeins mengun og aðra röskun að fjárhagslegir hagsmunir liggi að baki, þ.e. að efnahagslegur ábati vegi þyngra en sú röskun sem starfseminni fylgir.
    Rétturinn til heilbrigði í tengslum við óspillt umhverfi er viðurkenndur sem grundvallarréttur og telst því til sjálfsagðra mannréttinda og er meginmarkmið umhverfismálalöggjafar.
    Fræðilega er hugtakið umhverfi skýrt mjög rúmt og tekur þannig yfir öll líffræðileg, efnafræðileg og félagsleg atriði sem geta haft áhrif á heilsu manna, bæði beint og óbeint. Skiptir þar ekki máli hvort áreitið beinist gegn einstaklingum eða hópum.
    Til að ná fram þeim þáttum sem áður eru nefndir hefur reynst nauðsynlegt að setja reglur á sviði umhverfismála. Er það ekki síst vegna þess að iðnaðurinn
sjálfur hefur reynst ófær um eftirlitið vegna eigin hagsmuna, en slík er ótvíræð reynsla allra þjóða og má þá sérstaklega skírskota til reynslu landa Evrópubandalagsins. Þessar reglur verða að taka tillit til langtímanota af gæðum umhverfisins, þ.e. gæðin þrjóti aldrei, og kveða á um verndun lofts, láðs og lagar. Því er nauðsynlegt að ná fram réttarreglum um hráefnisöflun, vinnslu hráefnis, um varðveislu náttúru- og menningarverðmæta, og ekki síst reglum er stuðla að því að bæta ríkjandi ástand. Rannsóknir á gæðum og þoli umhverfis og náttúrunnar eru nauðsynleg forsenda þessa alls. Þessir þættir hafa leitt til alþjóðlegrar samvinnu, alþjóðlegrar áætlanagerðar og

alþjóðaverndarstarfs.
    Hér á landi hefur það ekki náðst enn fram að fá samþykkta samræmda stjórn umhverfismála og hefur þó verið unnið að þessum málum í meira en hálfan annan áratug og allar ríkisstjórnir frá árinu 1974 hafa fjallað um þessi mál, haft þau á sinni stefnuskrá án þess að enn hafi tekist að ná fram því markmiði sem reynt er að gera með því frv. sem hér er talað fyrir.
    Það var 4. mars 1975 að þáv. ríkisstjórn undir forsæti Geirs Hallgrímssonar skipaði níu manna nefnd til þess að vinna að heildarlöggjöf um stjórn umhverfismála undir formennsku Gunnars G. Schram prófessors. Það frv. sem þá var samið var flutt og lagt fyrir Alþingi vorið 1978.
    Í aprílmánuði sama vor var ákveðið að félmrh. skyldi sinna málefnum umhverfis, umhverfismálum, án þess þó að þess væri getið sérstaklega í stjórnlögum að öðru leyti en því sem málefni heyrðu undir félmrn.
    Það var næst í ráðherratíð Svavars Gestssonar 1980--1983 að samin voru frv. en þau voru hins vegar ekki lögð fyrir Alþingi. Það var svo síðan í tíð ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar 1983 að áfram var unnið að þessum málum af þáv. félmrh. undir formennsku Hermanns Sveinbjörnssonar. Enn fremur voru þá á þingi alþingismenn sem unnu að þessu frv. í þessa veru. Og það er svo í tíð ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar að frv. var samið af nefnd sem skipuð var undir forustu Sigurðar Magnússonar. Hún skilaði frv. til ríkisstjórnarinnar sem þetta frv., sem hér er mælt fyrir, byggir að meginefni á.
    Núverandi skipan umhverfismála er með þeim hætti að þar fara mörg ráðuneyti með stjórnun: Heilbr.- og trmrn. fer með hollustuhætti og mengunarvarnir, menntmrn. með náttúruvernd, landbrn. með gróðurvernd, samgrn. með mengunarvarnir á sjó, vegamál, ferðamál, flugmál, þ.e. skipulag þessara mála, félmrn. fer með skipulagsmál að öðru leyti, sjútvrn. með friðun fiskimiða, iðnrn. með ýmis sérlög um verksmiðjur og svo síðan utanrrn. sem fer með öll umhverfismál á umráðasvæði varnarliðsins.
    Það eru fjölmargar stofnanir sem sinna þessum málum, Hollustuvernd ríkisins, Náttúruverndarráð, Siglingamálastofnun ríkisins, Skógrækt ríkisins,
Landgræðsla ríkisins, Geislavarnir ríkisins, eiturefnanefnd og fleiri mætti telja.
    Þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar var mynduð var á stefnuskrá hennar að fjalla sérstaklega um umhverfismálin og stefna að því að sett verði almenn lög um umhverfismál og samræming þeirra falin einu ráðuneyti. Ég gat þess áðan að þáv. forsrh. hafi skipað nefnd. Þeirri nefnd veitti forstöðu Sigurður M. Magnússon, forstöðumaður Geislavarna ríkisins. Auk þess sátu í nefndinni Alda Möller matvælafræðingur og Hermann Sveinbjörnsson, aðstoðarmaður sjútvrh. Ritari nefndarinnar var Ingimar Sigurðsson yfirlögfræðingur. Þessari nefnd var sérstaklega falið að hafa samráð við þau ráðuneyti og samtök sem fara með verkefni á sviði umhverfismála.
    Það frv. sem ég mæli hér fyrir er ávöxtur

þessa starfs. Grundvöllur þess er að ná samræmingu um samræmda stjórn umhverfismála án þess að myndað skyldi nýtt ráðuneyti. Niðurstaða þeirrar nefndar sem vann að þessu var sú að þar sem svo stórir málaflokkar væru stjórnlögum samkvæmt í samgrn. sýndist ekki óeðlilegt að það ráðuneyti tæki að sér til viðbótar þau atriði sem nauðsynlegt væri, þar væri um að ræða yfirstjórn þessara mála og sá ráðherra sem færi með það ráðuneyti sem yrði samgöngu- og umhverfisráðuneyti yrði sá ráðherra sem bæri ábyrgð á þessu máli út á við, þ.e. færi með umhverfismál á erlendum vettvangi. En málefni einstakra ráðuneyta, sem um hefur verið getið, yrðu í þeim ráðuneytum með samræmingu hjá samgöngu- og umhverfisráðuneytinu og samkvæmt því skipulagi sem þetta frv. gerir ráð fyrir.
    Í grg. með frv. er vikið að helstu nýmælum þessa lagafrv. og ég vil, með leyfi forseta, víkja að þeim:
    1. Í 1. gr. er hugtakið umhverfismál skilgreint og er þar átt við ytra umhverfi. Umhverfismál eru samkvæmt lögunum mengunarmál, náttúruvernd, þar með talin friðun lands og dýra, landvernd og verndun náttúrulegra skóga, svo og skipulagsmál.
    2. Í 3. gr. kemur fram skýr tilgangur laganna sem er að samræma stjórn umhverfismála í landinu öllu og lögsögu þess með skipulegu samstarfi þeirra aðila sem starfa að þessum málum. Lögunum er ætlað að efla varnir gegn hvers konar mengun og öðrum skaðlegum umhverfisáhrifum og vinna að vernd náttúrugæða landsins.
    3. Lagt er til að umhverfismál, þ.e. mengunarmál, náttúruvernd og skipulagsmál, falli hér eftir undir þrjú ráðuneyti, þ.e. félmrn., heilbr.- og trmrn. og samgrn. Enn fremur er það nýmæli að lagt er til að eitt ákveðið ráðuneyti fari með ábyrgð á samræmingu umhverfismála er undir lögin falla og kemur það í hlut samgönguráðuneytis að breytast í samgöngu- og umhverfisráðuneyti.
    4. Lagt er til að umhverfismálaskrifstofa verði starfrækt innan samgöngu- og umhverfisráðuneytis sem hafi það hlutverk að samræma yfirstjórn umhverfismála og að skipaður verði sérstakur skrifstofustjóri til að veita henni forstöðu.
    5. Í 6. gr. er lagt til að stofnuð verði sérstök stjórnarnefnd umhverfismála þar sem í eiga sæti fulltrúar ráðherranna þriggja, sem getið var um áður, auk tilnefndra fulltrúa landbrh., sjútvrh., iðnrh., Sambands íslenskra sveitarfélaga og náttúruverndarþings.
    6. Lagt er til að stjórnarnefnd umhverfismála fjalli um ágreiningsmál og úrskurði í slíkum málum. Enn fremur er lagt til að vísa megi þeim úrskurði til samgöngu- og umhverfisráðherra sem fari með endanlegt úrskurðarvald í stjórnkerfinu.
    7. Lagt er til að stjórnarnefnd umhverfismála fylgist með framkvæmd einstakra þátta umhverfismála og fjalli m.a. um öll lagafrv. og reglugerðardrög á sviði umhverfismála og veiti umsögn um starfsleyfi fyrir stórframkvæmdir og starfsemi sem getur valdið

verulegri mengun.
    8. Í stað Náttúruverndarráðs er lagt til að skipað verði umhverfismálaráð, er hafi það hlutverk að vera ráðgjafar- og umsagnaraðili, bæði fyrir ríkisstjórn og stjórnarnefnd umhverfismála. Yrði umhverfismálaráð skipað sjö mönnum og er gerð krafa um sérþekkingu þeirra allra.
    9. Í 10. gr. frv. er lagt til að tekið verði á eftirlitsþáttum þeirra umhverfismála er undir frv. falla. Er skýrt tekið fram hvað skuli vera í höndum heilbrigðisfulltrúa sveitarfélaganna, samgöngu- og umhverfisráðuneytis, Siglingamálastofnunar og Skipulagsstjórnar ríkisins. Enn fremur er það nýmæli lagt til að annað eftirlit, sem fellur undir lögin og ekki er tiltekið, falli undir samræmingarráðuneytið, þ.e. samgöngu- og umhverfisráðuneyti.
10. Í 10. gr. er lagt til að veita heimild til þess að fela heilbrigðisfulltrúum sveitarfélaganna að annast aðra þætti eftirlitsins en þeim er beinlínis falið samkvæmt sérlögum verði aðilar ásáttir um nauðsyn slíks eftirlits. Samgöngu- og umhverfisráðherra setur reglur um þetta eftirlit, að fengnum tillögum stjórnarnefndar og að höfðu samráði við sveitarfélögin.
11. Í 11. gr. er lagt til að samgöngu- og umhverfisráðuneyti geti veitt heimild til þess að setja gjaldskrá fyrir notkun á ýmiss konar einnota
umbúðum, vélum og tækjum, pappír o.s.frv. í þeim tilgangi að stuðla að viðurkenndri förgun þeirra og endurvinnslu í eins ríkum mæli og við verður komið. Heimilt er að setja í slíka gjaldskrá ákvæði um svonefnt skilagjald einnota umbúða undir matvörur, eiturefni og hættuleg efni o.fl.
12. Í 12. gr. er lagt til að stofnaður verði svonefndur umhverfisverndarsjóður og að stjórnarnefnd umhverfismála fari með stjórn sjóðsins. Tekjur sjóðsins verða gjöld sem innheimt verða skv. 11. gr. frv. af ýmiss konar einnota umbúðum o.s.frv. Hlutverk sjóðsins er að styrkja þau sveitarfélög og þá aðila sem þurfa á sérstöku átaki að halda til að leysa umhverfisvandamál og að standa fyrir rannsóknum á skaðlegum þáttum umhverfisins. Enn fremur er lagt til að verja skuli allt að einum tíunda hluta sjóðsins til fræðslu- og upplýsingastarfa á sviði umhverfismála.
13. Í 13. gr. frv. er gengið út frá því að við förgun úrgangs skuli ávallt gætt að umhverfinu. Enn fremur er gengið út frá því að urðun úrgangs sé neyðarúrræði. Lögð er sú skylda á hlutaðeigandi aðila að þeir standi sjálfir undir kostnaði. Enn fremur skal unnið að því að finna ráð til þess að farga úrgangi á viðunandi hátt.
14. Í ákvæðum til bráðabirgða, 6. tölul., er lagt til að fyrir 1. júní 1990 skuli ríkisstjórnin í samvinnu við sveitarfélög gera áætlun um frágang skólp- og frárennslislagna í þeim tilgangi að draga eins og mögulegt er úr mengun láðs og lagar af þeim sökum. Þar skal koma fram á hvern hátt stjórnvöld hyggjast leysa þessi mál á næstu tíu árum og hvernig kostnaði skuli skipt. Einnig skulu koma fram tillögur um á hvern hátt sveitarfélögum verði gert kleift að standa undir kostnaði.

15. Í ákvæðum til bráðabirgða, 7. tölul., er lagt til að notkun svokallaðs blýbensíns verði óheimil eftir 1995 og að bifreiðar, vélar og tæki, sem flutt verða til landsins eftir 1991, skuli geta nýtt blýlaust eldsneyti. Enn fremur er lagt til í 8. tölul. að dregið verði úr notkun efnasambanda sem valdið geta eyðingu á ósonlaginu þannig að hún minnki um a.m.k. 25% fyrir 1991 miðað við notkunina 1986 og um a.m.k. 50% fyrir 1994.
16. Lagt er til að stöðuheimildir Náttúruverndarráðs skuli flytjast yfir í umhverfismálaskrifstofu samgöngu- og umhverfisráðuneytisins frá og með gildistöku laganna.
    Herra forseti. Ég hef vikið að meginþáttum þess frv. sem ég mæli hér fyrir. Ég hef gert grein fyrir helstu nýmælum þessa frv. og ég vakti athygli á því hvernig staðið hefur verið að þessum málum, hvernig í hálfan annan áratug hefur ekki tekist að ná fram heildstæðu frv. til laga um samræmda stjórn umhverfismála.
    Hér í kringum okkur hafa verið stofnsett sérstök umhverfisráðuneyti og þeim sem fylgst hafa með þykir nóg um hvernig þær stofnanir hafa þanist út. Það er þess vegna hér reynt að koma í veg fyrir slíka hluti með því að ná fram samræmingu og samstarfi þeirra aðila sem fjallað hafa um þessa hluti, gera tilfærslur, endurskoða löggjöf sem lýtur að þessum málum og gera hlutina þannig að það byggist á samræmdri stjórn og falið einu því ráðuneyti sem fer með veigamikla þætti í þessum málum þegar í dag.
    Verði þetta frv. að lögum kallar það á breytingu á stjórnlögum. Þar sem í lögunum um Stjórnarráð Íslands er gert ráð fyrir samgrn. yrði að sjálfsögðu að flytja tillögu til breytingar um það að þar stæði samgöngu- og umhverfisráðuneyti. Auk þess yrði að sjálfsögðu að gera breytingar á þingsköpum með tilliti til nefndastarfa þannig að nefnd sú sem í dag heitir samgöngunefnd mundi að sjálfsögðu þá fjalla um þennan málaflokk og nefnast samgöngu- og umhverfismálanefnd þingsins.
    Í samræmi við þetta leyfi ég mér að leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umræðu verði þessu frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn. um leið og ég vík að því og undirstrika að hér er í fyrsta skipti um að ræða löggjöf þar sem tekist er á við þessi mál og tekist hefur að koma fram frv. um samræmda stjórn umhverfismála.