Stjórn umhverfismála
Þriðjudaginn 07. mars 1989

     Flm. (Matthías Á. Mathiesen):
    Herra forseti. Það hafa talað í þessu máli tveir hv. þm. auk flm. Hv. 12. þm. Reykv. Kristín Einarsdóttir, sem er aðili að tillögu þeirri sem ég vék að í minni ræðu hér áðan, gerði ítrekað grein fyrir sjónarmiðum þeirra flm. í þessu máli og vék að því frv. sem hér er til umræðu. Síðan talaði hv. 2. þm. Austurl. Hjörleifur Guttormsson, fyrrv. hæstv. iðnrh., og hann orðaði það svo í sinni ræðu að mönnum fyndist kannski það sem hann væri að tala um yfirdrifið eða ofstæki.
    Það verður að meta það sem hv. þm. sagði hér með tvennum hætti, annars vegar það sem hann talaði um umhverfismálin sem slík og svo hins vegar þegar hann vék að sögu málsins hér á Alþingi og í ríkisstjórn. Ég er ekkert viss um að það sem hann segir í sambandi við umhverfismálin sem slík sé mjög yfirdrifið. Mér er fullkomlega ljóst að hann hefur mikinn áhuga á þessum málum, en ég get tekið undir það með hv. þm. sjálfum að það sem hann sagði hér um framgang þessa máls, um afstöðu einstakra flokka, um það hvernig að þessu hefur verið staðið, fannst mér jaðra við ofstæki að sumu leyti. Hann sagði að hefði þetta frv. legið fyrir fyrir 10 árum síðan hefði það verið mjög gott. ( HG: Ávinningur.) Ávinningur. En ég spyr: Hver sat í ríkisstjórn Íslands fyrir 10 árum, og hver hafði þess vegna aðstöðu til að flytja slíkt frv. fyrir 10 árum, 1979? Að vísu sat á þeim tíma sem við erum nú á, í marsmánuði, einmitt hæstv. iðnrh., Hjörleifur Guttormsson, og mér sýnist að þá hefði hann gjarnan hafa viljað standa að slíkum hlut, slíku frv., slíku fyrirkomulagi, en einhverra hluta vegna tókst það ekki. Ég er ekki með svo gott minni að ég muni nákvæmlega hvernig stóð á því, en ég er alveg sannfærður um að það hefur verið eitthvert ósamkomulag innan ríkisstjórnarinnar, innan stjórnarflokkanna, því að ég trúi því ekki að hv. þm. hafi ekki reynt, en ég man ekki eftir því að hann viki sérstaklega að þessum málum á Alþingi þá.
    Hv. þm. sat aftur í ríkisstjórn á árunum 1980--1983 og ég gat um það hér í minni framsöguræðu að þá hefði þáv. hæstv. félmrh., núv. hæstv. menntmrh., þáv. formaður Alþb., Svavar Gestsson, fengið tvær nefndir til þess að semja frv., en hvorugt þessara frv. sá dagsins ljós á Alþingi. Þingmanninum fannst það sæma sér að ræða sérstaklega stöðu Sjálfstfl. og forustumanna hans í þessum málum í þeirri tóntegund sem hann gerði. Hann var þó tilbúinn að fallast á að það er fyrst í tíð ríkisstjórnar Geirs Hallgrímssonar sem farið er að ræða þessa hluti, farið að ræða það að við þurfum að setja löggjöf um samræmda stjórn umhverfismála. Ég átti sæti í þeirri ríkisstjórn og ég fylgdist mjög vel með þegar að því var unnið og það frv. var lagt fram á Alþingi vorið 1978, það var frv. um umhverfismál og var 291. mál þess þings en varð ekki útrætt. Það er það fyrsta og það var undir forustu þáv. forsrh. og það var hann sem skipaði þessa nefnd en ekki neinn af fagráðherrunum. Þegar ljóst var að þetta frv. næði ekki fram að ganga hvað gerði þáv. forsrh.? Til þess að koma málinu af stað fól hann þáv. félmrh. að fara með umhverfismálin fyrir hönd

ríkisstjórnarinnar formsins vegna og þannig hefur það verið allar götur síðan.
    Hv. þm. vék svo að því að sá sem í ræðustól stendur hafi allt í einu eftir að þetta frv., sem hér er flutt, var lagt fram í ríkisstjórninni vorið 1988 talið sig vera orðinn umhverfisráðherra og því farið að vinna samkvæmt því. Þetta var reginmisskilningur hjá hv. þm. Þau málefni sem þá voru á dagskrá í sambandi við mengun hafsins heyra undir samgrn. og það var einmitt þess vegna sem samgrh. var erlendis til þess að fara á fundi, til þess að sinna sínum málum. Þetta tilvik sem hv. þm. vék að áðan varðandi þá ráðstefnu veit ég nákvæmlega að utanrrn. var beðið um að sjá til þess að ákveðinn sendiherra yrði þar viðstaddur en ekki gat orðið svo og það vissu menn um seinan. Það var ekki vegna þess að félmrh., sem formlega fór með þessi mál frá því 1978, eða að samgrh., sem fór með mengunarmál í hafinu, væru ekki reiðubúnir og ekki búnir að biðja um það. Þetta var vegna þess að þannig hagaði til hjá þeim aðila sem óskað hafði verið eftir að tæki sæti á þessum fundi.
    Frv. um umhverfismál sem lagt var fram á þingi 1978 --- var fjallað um það eða var farið að ræða um þau mál í ríkisstjórn Ólafs Jóhannessonar 1978--1979? Lagði sú ríkisstjórn fram það frv. eða eitthvert annað frv.? Nei. Ég ætlast ekki til þess að minnihlutastjórn Alþfl., sem sat frá því haustið 1979 þar til í febrúar 1980, væri svo rösk að það lægi fyrir frv. af hennar hálfu, enda ríkisstjórn sem vitað var að sæti skamman tíma. Þá máttu menn sjálfsagt reikna með því að málið yrði aftur tekið upp af ríkisstjórn Gunnars Thoroddsens í febrúar 1980 þar sem hv. þm. gegndi embætti iðnrh. en það var ekki gert.
    Það er svo árið 1983 að formaður þeirrar nefndar sem semur frv. er kominn á þing. Hann, áhugamaður um málefnið, flytur málið inn á þing til þess að vekja á því athygli, til þess að reyna að ýta málinu áfram, en niðurstaðan varð engin á því kjörtímabili því miður, og ég segi aftur því miður.
    Hvað gerist svo í ríkisstjórnartíð Þorsteins Pálssonar? Í XII. kafla stefnuyfirlýsingarinnar stendur: ,,Sett verði almenn lög um umhverfismál og samræming þeirra falin einu ráðuneyti.`` Sú nefnd sem hann svo skipar semur
frv., það er lagt fram í ríkisstjórninni vorið 1988 og er þá kynnt í þingflokkunum. Það er hins vegar ekki lagt fram hér á Alþingi vegna þess að það náðist ekki samstaða um það án þess að menn hefðu sagt til um hvort þeir væru almennt tilbúnir til þess að fella sig við frv. En ég vek athygli á því að nefndarskipunin varð með þeim hætti að í þeirri nefnd sátu fulltrúar allra stjórnarflokkanna svo að reikna mátti með því að náðst gæti breið samstaða um það mál. Ég vek enn fremur athygli á því að sá sem var ritari nefndarinnar, Ingimar Sigurðsson, hafði sem embættismaður í ráðuneytinu starfað með í nefndunum sem hæstv. ráðherra Svavar Gestsson skipaði á sínum tíma og þar af leiðandi kunnugur málinu og að sjálfsögðu gagnlegur fyrir þá aðila sem unnu að þessu. Ég er

ekki þeirrar skoðunar og verð aldrei að það sé frambærilegt að segja að hvísl embættismanna eigi að hafa áhrif á mótun lagasetningar eða mótun frumvarpa ráðherra. Það var auðvitað rétt sem hv. þm. sagði, hvað svo sem hægt er að segja um embættismenn sem slíka, að það eru ráðherrarnir sem bera ábyrgðina.
    Hvað gerist svo þegar ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar fer frá? Nú erum við komnir fram í marsmánuð og erum að ræða það frv. sem lagt hafði verið fram í hans ríkisstjórn, frv. sem samið hafði verið samkvæmt, eins og ég las áðan, því sem stjórnarmyndunaryfirlýsingin sagði til um. Það hafði ekkert heyrst frá ríkisstjórninni sem tekið hafði við. Þingmenn Kvennalistans höfðu lagt fram á Alþingi þáltill. í þá veru sem þeir óskuðu eftir að unnið yrði að málinu. Hvað var eðlilegra og sjálfsagðara fyrir sjálfstæðismenn en að leggja fram það frv. sem unnið hafði verið að í ríkisstjórnartíð Þorsteins Pálssonar, formanns flokksins? Til þess að koma málinu hér inn, til að leggja fram þær hugmyndir og tillögur sem þar höfðu verið fram lagðar. Síðan árið 1978 er það frv. nánast það frv. um stjórn umhverfismála sem helst sýnist geta náð þeim meginsjónarmiðum sem fram hafa komið, m.a. í þeirri skýrslu sem hv. þm. nefndi og kennd er við forsrh. Noregs, þ.e. um samræmda meðferð og um einn ráðherra til ábyrgðar.
    Hv. þm. kom hins vegar inn á það sem hefur verið mergurinn málsins í þessu og vikið er að í greinargerðinni þar sem sagt er að í ljósi þessa --- í ljósi hvers? --- í ljósi þess að á Alþingi væri ekki fyrir hendi vilji til að stofna sérstakt umhverfisráðuneyti leitaðist nefndin við að finna raunhæfa lausn á málinu. Og það gerðist og meira að segja svo vel að hv. þm. lyfti skjalinu og sagði: ,,Ég hefði gjarnan viljað flytja þetta fyrir tíu árum síðan``, hvað hann ekki gerði. Frá þeim tíma, fyrir tíu árum, gæti hann sagt: fyrir átta árum síðan, fyrir sjö árum síðan, en aldrei flutti hann frv.
    Ég efast ekkert um að hv. þm. talar af heilum hug þegar hann gagnrýnir núv. hæstv. ríkisstjórn. Ég efast ekkert um það. En mér finnst einhvern veginn að jafnvel þó að við séum ekki sammála um það sem hér stendur megi hann ekki láta það verk, sem hér er og er skref í rétta átt með tilliti til þess sem hann vill, fara svo í sínar fínu taugar að frv. er flutt af fulltrúum stjórnarandstöðunnar og því sé málið og hugmyndirnar með öllu óalandi og óferjandi.
    Það er vissulega rétt að þörf er á að ræða þetta mál og við verðum fyrr eða síðar að koma okkur niður á með hvaða hætti við náum saman til þess að við höfum í þessu landi samræmda stjórn um umhverfismál. Að mínum dómi gerum við það ekki með þeim fullyrðingum sem hv. þm. var með til þeirra sem reyna að leggja fram sinn hlut, sinn skerf. Það er þá miklu frekar að menn segi: Við skulum drífa þetta frv. til nefndar og sjá hvort Alþingi getur leyst þann ágreining sem er milli manna hér því þá er lausnin fundin. En okkur er ljóst og það vitum við að ágreiningur er innan ríkisstjórnarinnar um þessi mál og þar leysast þau ekki, eða eins og hv. þm. endaði

ræðu sína, ef ríkisstjórnin sér ekki sóma sinn í því að koma fram með sínar tillögur í þessu máli verður þingið að komast að niðurstöðu. Þetta er að sjálfsögðu mergurinn málsins. Þess vegna er frv. flutt af hálfu okkar sjálfstæðismanna. Hér eru hugmyndir um samræmingu, hér eru hugmyndir sem byggja á samræmdri meðferð umhverfismála undir forustu eins ráðherra og eins ráðuneytis. Ég trúi ekki öðru heldur en þingmenn átti sig á því að jafnvel þó það hefði verið miklu betra að samþykkja þetta fyrir tíu árum síðan er það ekki of seint í dag.