Stjórn umhverfismála
Þriðjudaginn 07. mars 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það er auðvitað afar eðlilegt að hv. þm. Matthías Á. Mathiesen leitist við að skýra það og verja að hann ásamt fleiri þm. Sjálfstfl., þar á meðal formanni flokksins, leggi fram þingmál af þessu tagi um samræmda stjórn umhverfismála og ég hef ekkert við það að athuga.
    Ég hef heldur ekki ásakað hann fyrir það að bera fram mál á þingi um þetta, en ég harma það að þetta þingmál skuli ekki vera í takt við tímann og að Sjálfstfl. virðist ekki hafa lært neitt á þessu sviði frá því vorið 1978. Það er auðvitað mjög hörmulegt. Það stendur eftir óhaggað og er líklega óhætt að segja að Sjálfstfl. beri meginábyrgð á því að ekki hefur náðst hér saman um stofnun eins umhverfisráðuneytis á þessum tíma, þó að ég vilji ekki vera að hengja Sjálfstfl. fyrir það sem gerst hefur þegar hann hefur ekki haldið um stjórnartaumana eða átt sæti í ríkisstjórn. Það ætla ég ekki að gera.
    Ég held líka að ekki sé rétt að gera það að meginmáli í umræðu um þessi efni hvernig þetta hefur gengið í fortíðinni og er ég þó fullkomlega til reiðu að ræða þau mál bæði hér úr ræðustól og annars staðar því að ég þekki nokkuð vel þessa raunasögu. Ég held að það væri raunar annað sem við ættum að beina sjónum okkar að öðru frekar og það er, og þess saknaði ég úr síðustu ræðu, að hv. þm. skýrði það fyrir okkur sem á hann hlýðum hvers vegna nú á árinu 1989 skuli hann ásamt öðrum forustumönnum í hans flokki leggja til það sérkennilega stjórnkerfi á sviði umhverfismála sem hér er gerð tillaga um.
    Þm. kaus að misskilja og afflytja orð mín í sambandi við efnislegt innihald þessa máls hér. Ég sagði að frv. um samræmda stjórn umhverfismála í þá átt sem hér er gerð tillaga um hefði verið ávinningur 1978 og ég sný ekkert frá með það. En ég hafði þá og hef enn fjölmargar ábendingar að gefa og til rökstuðnings á þeirri skoðun að þetta er því miður ekki það kerfi sem við eigum upp að taka. Við eigum fremur að sýna biðlund þangað til hér skapast meiri hluti fyrir eðlilegri skipan mála á þessu sviði.
    Vegna fortíðarinnar vil ég aðeins ítreka að það hafa margir komið þar við sögu, þar á meðal ágætir embættismenn. Hv. þm. vék nokkuð að því og nefndi þar einstaklinga og það væri fróðlegt að fara í gegnum þau málsskjöl sem þar liggja fyrir og sýna fram á það sem fyrir liggur ef skyggnst er um með hvaða hætti sjónarmið embættismanna hafa orðið yfirsterkari almennri sýn stjórnmálamanna til þessara mála. Hvernig þeim hefur tekist að flækja málsmeðferð þannig að ekki hefur tekist að afgreiða það sem hefur kannski verið pólitískur vilji manna. Ætla ég ekki að rekja þá sögu frekar hér og nú.
    Við hv. flm. vil ég segja hér að lokum að ég vona að hann og aðrir flm. þessa máls séu reiðubúnir til þess að horfa gagnrýnum augum á þetta verk sem er niðurstaða nefndarstarfs þar sem ekki náðist saman um aðra skipan. Ég trúi ekki öðru en að Sjálfstfl. sé reiðubúinn til þess að læra af alþjóðlegri reynslu, reynslu grannþjóða, reynslu okkar á þessu sviði á

undanförnum árum og mistökum ríkisstjórna einnar af annarri til þess að leysa þessi mál.
    Þetta mál fer til þeirrar þingnefndar sem lagt hefur verið til að tæki við því, þ.e. hv. samgn. þar sem svo vill til að ég er í þeirri nefnd og veiti henni formennsku um skeið. Ég er að sjálfsögðu einnig reiðubúinn til þess að taka á þessu máli þar með þinglegum hætti og mun nota það tækifæri til að fara yfir þennan málaflokk á vettvangi nefndarinnar. Það gefur e.t.v. einnig kærkomið tækifæri til að kanna það hvar eða hvort framkvæmdarvaldið, núv. ríkisstjórn, hefur eitthvað fram að færa eða ætlar sér einhvern hlut á þessu ári á yfirstandandi þingi. Enn el ég þá von í brjósti að þar nái menn áttum fyrr en seinna en ítreka að umræða um þessi mál og skoðanaskipti eru af hinu góða og því ber ekki að vanvirða það að hv. þm. hefur drifið þetta mál fram í þinginu og gefið þannig tilefni til umræðu um þennan afar þýðingarmikla málaflokk.