Hagvarnaráð
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég hef á þskj. 462 borið fram fsp. til hæstv. forsrh. um störf hins svokallaða hagvarnaráðs sem starfar á grundvelli laga nr. 85/1985, um almannavarnir. Þau lög voru sett að lokinni nokkuð ítarlegri endurskoðun og í kjölfar þeirrar endurskoðunar var bætt inn í lögin sérstökum kafla, VI. kafla, um hagvarnir, sem var nýjung frá því sem áður hafði verið. Í þessum kafla segir m.a. að forsrh. skuli skipa sérstakt hagvarnaráð er í eigi sæti ráðuneytisstjórar ráðuneytanna og einnig segir að verkefni ráðsins sé að vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um hagvarnir. Síðan segir í 24. gr., með leyfi forseta:
    ,,Hagvarnaráði ber að gera ráðstafanir til þess að í ráðuneytum og stofnunum ríkis og sveitarfélaga sé eftir því sem við á gerð áætlun um verkefni og viðbrögð á hættutímum. Jafnframt skal hagvarnaráð gera ráðstafanir til þess að á einn stað verði safnað saman skýrslum um þörf fyrir birgðir nauðsynja til að tryggja lífsafkomu þjóðarinnar á hættutímum og gera áætlun um öflun viðbótarbirgða og dreifingu þeirra eða skömmtun eftir atvikum. Öllum er skylt að gefa hagvarnaráði upplýsingar af þessu tagi, enda skal hagvarnaráð fara með þær sem trúnaðarmál.``
    Síðan eru hér fleiri og nánari ákvæði um hvað hér gæti verið á ferðinni eins og t.d. matvæli, eldsneyti, varahlutir, lyf og aðrar nauðsynjar sem hætta gæti verið á að gangi til þurrðar á hættutímum.
    Nú eru liðin u.þ.b. fjögur ár frá því að þessu ráði var komið á laggirnar með lögum. Það hefur lítið farið fyrir því á opinberum vettvangi í það minnsta og kannski er það út af fyrir sig ágætt að starfsemi sem þessi sé ekki allt of mikið í sviðsljósinu. Mig langaði hins vegar til að grennslast fyrir um það hjá ráðherra hvort skipulag þessarar starfsemi sé eitthvað á veg komið eða hvort raunveruleg starfsemi sé hafin og því er þessi fsp. flutt.