Hagvarnaráð
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Geir H. Haarde):
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir hans svör. Þau leiða í ljós að þetta ráð hefur ekki verið mjög starfsamt. Það hefur að vísu verið skipað og komið saman en síðan falið Almannavörnum raunverulega að annast þau verkefni sem því eru ætluð með lögum.
    Ég vil út af fyrir sig fagna því að Almannavörnum er treyst fyrir þessu verkefni og tek undir hvert einasta orð sem hæstv. ráðherra sagði um starfsemi þeirra og það starfsfólk sem þar hefur unnið mjög gott starf. En ég vil líka gera þær spurningar að mínum sem hæstv. ráðherra varpaði hér fram í lok síns svars um það hvort skynsamlegt sé að hafa í lögum ákvæði eins og þessi um hagvarnaráð sem ekki virðast hafa verið framkvæmd til fullnustu og hugsanlega spurning um hvort starfseminni sé betur fyrir komið hjá þeirri stofnun sem fæst við almannavarnir í heild sinni, þ.e. Almannavörnum ríkisins. Ég hef engar tillögur um það á þessu stigi en ég tel að þetta svar ráðherrans styðji það sjónarmið að þarna eigi hugsanlega að breyta lögum.