Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra (Guðmundur Bjarnason):
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir og Guðrún Agnarsdóttir hafa beint til mín fsp. á þskj. 464, um starfsheiti og starfsréttindi matvælafræðinga. Það er fyrst spurt hver sé ástæðan fyrir þeirri breytingu sem heilbrrh. gerði á reglugerð nr. 432/1987, um starfsheiti og starfsréttindi matvælafræðinga, 5. jan. sl.
    Við setningu reglugerða um starfsheiti, starfsréttindi og skyldur hinna ýmsu heilbrigðisstétta hefur verið fylgt þeirri meginreglu að kveða á um réttindi þeirra aðila sem eru í starfi við gildistöku reglugerðanna án þess þó að þeir hafi fullnægjandi menntun til starfans í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru í reglugerðinni. Við gerð reglugerðar nr. 432/1987, um starfsheiti og starfsréttindi matvælafræðinga, láðist að gera ráð fyrir slíku ákvæði, enda var ráðuneytinu og landlækni, sem gerði tillögu að reglugerðinni eins og lög gera ráð fyrir, ókunnugt um að slíkir aðilar væru hér við störf. Síðan hefur komið á daginn að í störfum matvælafræðinga, eins og þau eru skilgreind í reglugerðinni, voru nokkrir einstaklingar við gildistöku reglugerðarinnar án þess að þeir uppfylltu þau skilyrði til menntunar sem sett eru í reglugerð. Ráðuneytið átti því ekki annars úrkosti en að setja í reglugerðina tímabundin ákvæði til bráðabirgða á sama hátt og gert hefur verið þegar í hlut hafa átt aðrar nýjar starfsstéttir innan heilbrigðiskerfisins þegar þær hafa hlotið svokallaða lögverndun. Tillaga hér að lútandi kom frá landlækni eins og gert er ráð fyrir í lögum nr. 24/1985, um starfsheiti og starfsréttindi heilbrigðisstétta.
    Í öðru lagi er spurt: ,,Á hvaða forsendum telur heilbrrh. unnt að leggja nám matarfræðinga og matvælafræðinga að jöfnu og veita þeim sömu starfsréttindi?``
    Í 1. gr. reglugerðar nr. 10/1989, þ.e. þessari sem gefin var út nú í janúar sl. um breytingu á reglugerð nr. 432/1987, misritaðist orðið ,,matvælafræðingur`` og varð að ,,matarfræðingi``. Þegar hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að bæta úr þessari misritun. Þannig var hvorki ætlunin að leggja nám matarfræðinga og matvælafræðinga að jöfnu né veita þeim sömu starfsréttindi. Hér var einfaldlega um misritun að ræða sem þegar hefur verið leiðrétt.
    Í þriðja lagi er spurt: ,,Hefur heilbrrh. í hyggju að nýta sér þessa heimild? Ef svo er, um hve marga aðila gæti verið að ræða og hvaða menntun hafa þeir?``
    Enn sem komið er hefur ekki reynt á það ákvæði sem hér er til umræðu. Að sjálfsögðu verður ráðuneytið að beita þeirri heimild sem hér um ræðir eins og þegar aðrir starfshópar eiga hlut að máli mæli rök með því. Áður en ráðuneytið tekur afstöðu til slíkra umsókna skulu landlæknir og Matvæla- og næringarfræðingafélag Íslands fjalla um umsóknirnar. Veiting starfsleyfa í slíkum tilvikum á því að vera vel grundvölluð í ráðuneytinu. Til ráðuneytisins hafa sótt fjórir aðilar sem ekki uppfylla þau menntunarskilyrði

sem sett eru í reglugerðinni, en sem telja sig hafa verið í starfi við gildistöku reglugerðarinnar. Ráðuneytið sér ekki ástæðu til að upplýsa um menntun þessara einstaklinga á þessu stigi þar sem umsóknir voru þegar í stað sendar til landlæknis og þaðan áfram til Matvæla- og næringarfræðingafélagsins til umsagnar eins og gerist í öllum slíkum tilvikum. Ráðuneytið kannaði ekki sérstaklega grundvöll umsóknanna heldur sendi þær beint til umsagnaraðila. Málið er þess vegna í meðferð eins og stendur.