Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. svar hans og reyndar fagna því að þarna skuli prentvillupúkinn hafa verið að verki hvað matarfræðingana snertir. Ég vil benda á að það er alveg ljóst að áður en matvælafræðingar komu til sögunnar sem sérstök stétt starfaði enginn algjörlega á því sviði sem þeim er ætlað að starfa á. Áður gegndi enginn störfum matvælafræðings nema sá sem hafði til þess fullgilda menntun. Matvælafræðingar vinna við hlið þeirra stétta sem fyrir voru í matvælaiðnaðinum, t.d. kjötiðnaðarmanna.
    Í 2. gr. reglugerðar um starfsheiti og starfsréttindi matvælafræðinga er að finna heimild til að veita þeim starfsleyfi sem lokið hafa erlendu háskólaprófi sem er sambærilegt við BS-próf í matvælafræði við Háskóla Íslands, en það mun eiga við um marga sem áður sóttu sér slíka menntun til Danmerkur.
    En í 4. gr. reglugerðarinnar segir orðrétt, með leyfi forseta: ,,Óheimilt er að ráða sem matvælafræðinga aðra en þá sem hafa starfsleyfi samkvæmt reglugerð þessari.`` Sú grein tekur af öll tvímæli um þær kröfur sem gerðar eru um starfsleyfi til handa matvælafræðingum. Ég vil benda á varðandi lögverndun starfsheita að í skólum landsins starfa hlið við hlið leiðbeinendur og kennarar og engum dettur lengur í hug að veita leiðbeinendum kennararéttindi án þess að þeir sæki sér þá menntun sem til kennarastarfsins þarf.
    Að lokum vil ég benda á að við erum fyrst og fremst matvælaframleiðendur og á því sviði eru miklir möguleikar fyrir okkur Íslendinga sem þjóð, okkur sem státum af lítilli mengun, hreinu lofti og tæru vatni. En til þess að vel megi til takast þurfum við á menntun og rannsóknum á þessu sviði að halda og við verðum að gæta þess að við rannsóknirnar starfi fólk sem hlotið hefur til þess tilskilda menntun, sem hin sérhæfða menntun matvælafræðinga á háskólastigi býður upp á.