Efnahagsáætlun Norðurlanda 1989-1992
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):
    Virðulegi forseti. Á þingi Norðurlandaráðs sem haldið var í Stokkhólmi nú fyrir skömmu var fjallað um tillögu ráðherranefndar Norðurlanda um efnahagsáætlun Norðurlanda 1989--1992. Í skjali því sem lá fyrir var að finna kafla um fjármagnshreyfingar og í því sérstakan fyrirvara af Íslands hálfu varðandi markmið og tillögur um fjármagnshreyfingar og fjármálaþjónustu.
    Á hinn bóginn sagði í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um efnahagsmál, sem hæstv. forsrh. flutti á Alþingi 6. febr., að á næstu árum verði reglur um fjármagnshreyfingar og viðskipti með fjármálaþjónustu milli Íslands og annarra landa mótaðar á grundvelli tillagna ráðherranefndar Norðurlanda um efnahagsáætlun Norðurlanda 1989--1992. Áðurnefndur fyrirvari er hvergi nefndur í yfirlýsingunni og því er spurt hvort ríkisstjórnin hafi fallið frá hinum sérstaka fyrirvara við efnahagsáætlunina sem hér var getið um.