Efnahagsáætlun Norðurlanda 1989-1992
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Virðulegi forseti. Ég vil fyrst vekja athygli á því að þessi fyrirvari er miklu eldri en seta núv. hæstv. fjmrh. í ríkisstjórninni. Það má vel vera að hann hafi komið þarna inn fyrir jafnvel tveimur eða þremur árum en a.m.k. sá fjmrh., sem var á undan þeim sem nú situr, ítrekaði hann og fylgdi honum í meðferð þessa máls. Það sem gerst hefur nú er að þessi sami fyrirvari hefur verið ítrekaður, hann er áfram í þeirri áætlun sem Norðurlöndin hafa gert.
    Út af því sem kom fram hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni þykir mér rétt að leggja áherslu á að ríkisstjórninni er að sjálfsögðu ljóst að hér er um afar vandmeðfarið mál að ræða. Það má segja að teningunum hafi verið kastað fyrir allmörgum árum þegar við tengdumst EFTA og gerðum samninginn við EB. Spurningin er sú hvernig við getum einnig skapað aðstöðu fyrir íslenskan iðnað og samkeppnisgreinar á fjármagnsmörkuðum sem er sambærileg við það sem svipaðar greinar búa við annars staðar á Norðurlöndum.
    Mér þykir rétt, með leyfi forseta, að lesa hér það sem ég sagði á þingi Norðurlandanna um þessi mál því það bar hér á góma. Þar segir: ,,Samstarf okkar Íslendinga við Evrópubandalagið viljum við því takmarka fyrst og fremst við frjálsan markað fyrir framleiðslu beggja aðila, samstarf á sviði vísinda, samstarf á sviði öryggismála og smám saman aukið samstarf á sviði fjármála og þjónustu. Til þess að auðvelda slíkt samstarf viljum við aðlaga hið íslenska stjórnsýslukerfi þeim breytingum sem eru að verða í Vestur-Evrópu. Í því skyni leggjum við höfuðáherslu á náið samstarf Norðurlandanna og EFTA-ríkjanna.``
    Ég vil láta það kom hér fram að um þessa málsmeðferð er full samstaða innan ríkisstjórnarinnar og fullur skilningur á því hvað þarna er um viðkvæmt mál að ræða og oft vandrataður hinn gullni meðalvegur.
    Út af orðum hv. síðasta ræðumanns þá þykir mér gott að heyra að svo mikill framkvæmdamaður sem hann er er ánægður með hið íslenska bankakerfi, telur sig eflaust hafa fengið þar alla þá þjónustu sem hann þarf. En hann er einn af þeim örfáu eða sá eini sem ég hef heyrt gefa slíkt til kynna. Þvert á móti þá heyri ég afar mikið ... ( KrP: Ég sagði það ekki.) Nú, ég skildi orðin svo að það væri í lagi. ( KrP: Ég var að gera grín að því.) Nú, það er nefnilega það. Ef hv. þm. var að gera grín að því hlýtur hans meining að vera að hleypa eigi inn öflugum erlendum fjármagnseigendum og bönkum sem yfirtækju þetta sístem sem við höfum hér. Ég er ekki þeirrar skoðunar. ( KrP: Er það ekki það sem viðskrh. vill?) Nei, viðskrh. er ekki þeirrar skoðunar heldur. (Gripið fram í.) Ég hef stundum sagt í umræðum um þetta mál að ef við hleypum inn erlendum bönkum eins og nú er ástatt í hinu íslenska peningakerfi þá munar Deutsche bank ekki um að kaupa upp íslensku bankana á einum eftirmiðdegi. Ég held að það sé hárrétt að hér þarf að stokka upp íslenska peningakerfið eins og lýst hefur verið, sameina banka,

efla þá, losna við verðtrygginguna o.s.frv.
    Af því að hv. þm. spurði enn um frjálshyggjuna í Svíþjóð, þá er frjálshyggjan í Svíþjóð undir ákveðinni og harðri stjórn, en hér er hún stjórnlaus eða hefur verið. Við erum með þeim frv. sem nú er verið að fjalla um á Alþingi að reyna að koma stjórn á þetta svokallaða frjálsræði í peningamálum sem er orðið okkur æði dýrkeypt. Ég hef lýst því yfir áður sem svar við þessari fyrirspurn undir öðru máli að við værum ólíkt betur settir ef við hefðum sömu stjórn á okkar peningamálum og Svíar.