Afvopnun á höfunum
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 459 hef ég leyft mér að bera fram fsp. til hæstv. utanrrh. um íslenskt frumkvæði varðandi afvopnun á höfunum. Fsp. er svohljóðandi:
    ,,Er ríkisstjórnin reiðubúin að eiga frumkvæði að því að boðað verði til alþjóðlegrar ráðstefnu hérlendis til að fjalla um afvopnun á og í höfunum?``
    Vígbúnaður í höfunum er sem kunnugt er eini þáttur afvopnunarmála sem hvergi er tekið á í afvopnunarviðræðum milli risaveldanna og á alþjóðavettvangi. Af engu öðru máli stafar Íslandi slík ógnun og þeirri staðreynd að vígbúnaður fer vaxandi á norðurhöfum og víðar um heimshöf og í grennd við landið er stöðug umferð herskipa og kafbáta sem knúðir eru kjarnaorku og búnir eru kjarnorkuvopnum. Sú þróun blasir við að áframhald getur á þessu orðið og hætta er á enn frekari aukningu kjarnorkuvígbúnaðar ef ekki tekst að koma á samkomulagi um stöðvun og fækkun milli risaveldanna. Þetta á alveg sérstaklega við eftir að tekist hefur að semja um fækkun meðaldrægra og skammdrægra kjarnavopna eins og gerðist í samkomulagi fyrir nokkrum missirum.
    Á síðasta þingi flutti hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, núv. fjmrh., till. til þál. um að íslensk stjórnvöld boði til alþjóðlegrar ráðstefnu í Reykjavík um skipulag og efnisþætti formlegra samningaviðræðna um afvopnun á norðurhöfum. Þessari tillögu var vel tekið í umræðum í þinginu, m.a. af þáv. utanrrh. og núv. hæstv. forsrh., Steingrími Hermannssyni, og var tillögunni vísað til utanrmn. en þaðan var hún hins vegar ekki afgreidd fyrir þinglok. Ég minni á að margir íslenskir utanrrh. og þar á meðal sá sem nú situr hafa nefnt hernaðinn á höfunum sem sérstakt áhyggjuefni í ræðum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna a.m.k. frá árinu 1984 að telja. Ég minni einnig á að Ísland var aðili að tillögu sem flutt var á vettvangi Sameinuðu þjóðanna um úttekt á vígbúnaði á höfunum sem leiddi til sérstakrar skýrslu sem heitir á ensku ,,The naval arms race`` og gefin var út 1986. Ég vænti þess að núv. ríkisstjórn hafi frumkvæði í þessu máli með því að leita eftir samstöðu um alþjóðlega ráðstefnu hérlendis til að fjalla um afvopnun á og í höfunum. Að því lýtur fyrirspurnin.