Afvopnun á höfunum
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð um þetta mál. Ég ætla ekki að draga úr því að það er gott sem gert er af Íslands hálfu á alþjóðavettvangi, en ég tel það ekki vera nóg. Alla vega er það staðreynd að samhliða því að eitthvað hefur verið fækkað vopnum á landi hefur vopnabúnaðurinn í hafinu aukist gífurlega undanfarin ár.
    Það er alveg rétt að auðvitað þarf að verða afvopnun, kjarnorkuafvopnun og allsherjarafvopnun á heimsgrundvelli eins og hæstv. ráðherra orðaði það, en það þarf ekki nema smáslys í einum kjarnorkukafbát til þess að það þýði stórslys fyrir okkur Íslendinga þannig að við þurfum að vera mjög á verði og þurfum að eiga veglegt frumkvæði í því að fjalla um afvopnun. Ég tel að vel geti komið til greina að boðað verði til alþjóðlegrar ráðstefnu hér á landi eins of till. gerir ráð fyrir. Ég tel það einnig skref í áttina að því verði lýst yfir að Ísland sé kjarnorkuvopnalaust og hafið umhverfis. Með því gætum við sýnt að við meintum í raun og veru eitthvað með því að vilja afvopnun í höfum kringum landið.