Afvopnun á höfunum
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Svar hæstv. utanrrh. við fsp. minni var ótrúlega rýrt og innihaldslaust, fléttað inn í og pakkað inn í umbúðir sem til afsökunar til að breiða yfir þá staðreynd, sem kemur fram í þessari umræðu, að hæstv. ráðherra ætlar sér ekkert frumkvæði í þessu máli. Undirtektir hæstv. ráðherra við þá hugmynd sem fram kemur í þessari fsp. og sem fram kom í þáltill. Ólafs Ragnars Grímssonar, nú hæstv. fjmrh., á síðasta þingi eru engar og verða því að túlkast neikvæðar.
    Hvaða frammistaða er það að ætla að túlka það sem jákvæðan þátt í einu stærsta, líklega allra stærsta, lífshagsmunamáli Íslendinga að því er varðar öryggi þjóðarinnar að utanrrh. landsins hafi verið að minna á það á ráðstefnum á alþjóðavettvangi að hér hafi verið fluttar tillögur á Alþingi Íslendinga, minna á það hvað Íslendingar hafi verið að tala í þessum efnum? Handhafi framkvæmdarvaldsins í þessu máli, hæstv. ráðherra, ætlar sér hins vegar ekki að gera neitt, ef ég skildi orð hans rétt, umfram það sem utanríkisráðherrar Íslands hafa verið að gera á undanförnum árum, en í því hefur ekki falist neitt frumkvæði varðandi þetta mál, því miður. Og svo vitnar hæstv. utanrrh. til áróðursmálflutnings herfræðinga sem starfa hér í herstöðinni á Miðnesheiði, flytur áróðurslummurnar um mat þeirra á stöðu mála svipað og lesa má um í Morgunblaðinu 2. mars sl. en þó er þar skilmerkilegar frá því sagt, þó að fyrirsögn sé nokkuð sérkennileg, sem sagt, að dregið hefur úr umferð flota Sovétríkjanna hér við land og það sama mun einnig gilda um Noregsstrendur að því er upplýst var á fundi þingmanna sem vinna að því að gera Norðurlöndin kjarnorkuvopnalaus undir forustu Anker Jörgensen, fyrrum formanns Jafnaðarmannaflokks Danmerkur. Eigum við að bíða eftir því aðgerðarlausir uppi á Íslandi að risaveldunum þóknist kannski að koma sér saman um það að taka með skipulegum hætti á afvopnunarmálum, á vígbúnaðarmálunum varðandi höfin í framhaldi af þeirri umræðu sem nú fer fram í Vínarborg um að draga úr hefðbundnum herafla? Ég segi nei. Við eigum að sjálfsögðu að knýja á um það, t.d. með þeim hætti sem felst í þessari fsp., að Ísland taki þarna frumkvæðið og það væri sannarlega eðlilegt að Noregur gerði það einnig því að þessar tvær þjóðir, hvor sínum megin Atlantsála, eiga meira en nokkur önnur undir að slíkar afvopnunarviðræður hefjist hið fyrsta. Hún er í litlu samræmi, virðulegur forseti, við það sem þyrfti að vera, sú staðreynd að á vegum Atlantshafsbandalagsins var efnt til mestu heræfinga sem nokkru sinni hafa farið fram í norðurhöfum haustið 1988 undir heitinu Teamwork. Ég hef ekki heyrt gagnrýni frá utanrrh. Íslands á því framferði og sérkennilega tiltæki jafnframt því sem upplýst er að risaveldið í austri hafi dregið úr hernaðarumsvifum sínum hvað flota snertir á þessum slóðum.