Afvopnun á höfunum
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Svör mín við fsp. hv. þm. gáfu satt að segja ekkert tilefni til þeirra forstokkuðu ummæla sem fram komu í seinni ræðu hans. Afstaða mín gagnvart tillögum og hugmyndum um frumkvæði Íslendinga í þessum málum er alveg afdráttarlaust jákvæð. Ég tek hins vegar undir það með öllum þeim sem þetta mál hafa skoðað vandlega að það er ekki mikil von um árangur með því að kveðja skyndilega, fyrirvaralítið og án vandaðs undirbúnings, til ráðstefnu um málið. Ég segi ósköp einfaldlega: Sá undirbúningur þarf að vera mjög vandaður vegna þess að við getum ekki gert okkur vonir um jákvæða niðurstöðu eða árangur nema því aðeins að við fáum að þeim umræðum og að þeim samningaviðræðum þegar þar að kemur þau ríki sem ráða þróun þessara mála, eiga og stýra þessum umræddu ógnvekjandi vopnum. Það er allt og sumt. Allir þeir sem hafa skoðað þetta mál eru sammála um það að það er ekki nóg að halda ráðstefnu ráðstefnunnar vegna. Við verðum að setja okkur markmið í þessu efni og vinna að þeim kerfisbundið í áföngum. Það er mikill misskilningur ef hv. þm. vill halda því fram að ekkert hafi verið unnið að þessum málum. Þvert á móti hefur talsvert verið að þeim unnið og vonirnar um það að árangur geti farið að nást er nú meiri en nokkru sinni fyrr. En flas er ekki til fagnaðar og þetta mál verður ekki leyst með einhverjum forstokkuðum gífuryrðum. Það kallar á mjög vandaðan undirbúning, undirbúningsrannsóknir, tillögugerð og pólitíska samstöðu, og þegar ég vitna til þess sem íslenskir utanríkisráðherrar hafa verið að gera með því að koma þessum hugmyndum á framfæri við t.d. utanríkisráðherra bandalagsríkja er það allt liður í undirbúningi að því, viðræðurnar eru um það að koma þessum hugmyndum á framfæri, kanna undirtektir við þær og reyna að skapa forsendur fyrir því að jákvæð afstaða verði til þátttöku í þessu starfi þannig að mér þykir miður að heyra þau gífuryrði sem hv. þm. leyfði sér að hafa uppi um það að það væri enginn áhugi og gersamlega neikvæð afstaða af hálfu utanrrh. Íslands. Því er hreinlega ekki svo varið.