Verslunarfyrirtæki í dreifbýli
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Danfríður Skarphéðinsdóttir):
    Virðulegi forseti. Nú í vetur hefur vanda dreifbýlisverslunar oftlega borið á góma. Eins og mörg fyrirtæki úti á landsbyggðinni standa nú verslanir höllum fæti og jafnvel gamalgróin kaupfélög riða til falls. Atvinnuleysi á landsbyggðinni hefur aukist að undanförnu, ekki síst meðal kvenna, þegar bæði frystihús og prjóna- og saumastofur leggja upp laupana og önnur fyrirtæki draga saman rekstur.
    Það hefur ætíð verið talinn lífgjafi byggðarlaga að heimamenn geti sótt sem mest af þeirri þjónustu sem nútímafólk telur nauðsynlega og sjálfsagða heima fyrir. Verslun er einn þeirra þátta. Fæstum þykir hagkvæmt eða skynsamlegt að aka langar leiðir eftir misjöfnum vegum til að ná sér í helstu lífsnauðynjar.
    Í stjórnarsáttmála núv. hæstv. ríkisstjórnar kemur fram fyrirheit um að bæta aðstöðu verslunar úti á landi og hef ég því leyft mér að bera fram fsp. á þskj. 474 til hæstv. viðskrh. er hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hvað hefur verið gert af hálfu ríkisstjórnarinnar til að ná því markmiði sem fram kemur í stjórnarsáttmálanum um ,,að bæta aðstöðu verslunarfyrirtækja í dreifbýli"?``