Verslunarfyrirtæki í dreifbýli
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Eins og kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda segir í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í kaflanum um byggðamál að unnið verði að því að bæta aðstöðu verslunarfyrirtækja í dreifbýli. Til þess að gera athugun á afkomu þessara fyrirtækja og leiðum í þessu efni og til þess að móta tillögur um aðgerðir í málinu hef ég skipað sérstaka nefnd, en í henni eiga sæti auk ráðuneytisstjórans í viðskrn. fulltrúar frá Verðlagsstofnun, Byggðastofnun, Þjóðhagsstofnun, Kaupmannasamtökum Íslands og Sambandi ísl. samvinnufélaga. Vandi dreifbýlisverslunarinnar er margþættur. Sumt er háð árferði, annað lýtur að þróun til lengri tíma, breyttar samgöngur, breyttir verslunarhættir, breytt áhugamál fólks og tengsl milli ferðalaga og verslunar sem hafa valdið því að verslun hefur lagst öðruvísi um landið en áður var. Nefndinni er ætlað að greina þetta sundur og það er of snemmt á þessu stigi máls að segja hvenær hún muni skila áliti, en ég mun ganga eftir því að það verði sem fyrst.
    Að endingu vildi ég svo aðeins nefna að ekki síst vegna þess að ríkt hefur hér verðstöðvun og frysting á álagningarhlutföllum frá því á sl. sumri hefur af eðlilegum ástæðum ekki verið ráðist í neinar breytingar á kjörum þessara verslunarfyrirtækja sem mjög verulegu máli skipta hvað varðar þeirra álagningarheimildir á þeim tíma sem liðinn er frá því þessi hæstv. ríkisstjórn tók til starfa. En að sjálfsögðu er það líka mikilvægt hagsmunamál þessara verslunarfyrirtækja að fjármagnskostnaður í verslun og dreifingarkostnaður í landinu verði sem lægstur. Þetta verður m.a. það sem nefndin fjallar um.