Afvopnun á höfunum
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Fsp. sú er hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, 2. þm. Austurl., hefur beint til mín er í ætt við þáltill. sem hér hafa verið ræddar áður og nefni ég þáltill. hv. 9. þm. Reykv., Guðmundar G. Þórarinssonar, og fleiri þm. Framsfl. frá árinu 1981, ef ég man rétt, og till. hæstv. núv. fjmrh. frá árinu 1987 um alþjóðlega ráðstefnu til að ræða afvopnun í norðurhöfum. Hér er hreyft mikilvægu máli og það er rétt sem fram kom í máli fyrirspyrjanda að á seinustu árum hafa allir utanrrh. Íslendinga á alþjóðavettvangi lýst vaxandi áhyggjum Íslendinga af þróun mála að því er varðar vopnabúnað í höfunum og átt margvíslegt frumkvæði að því að fá þau mál rædd á alþjóðavettvangi.
    Ég er sammála fyrirspyrjanda að það er í samræmi við augljósa hagsmuni Íslendinga að knýja á um að viðræður hefjist hið fyrsta um afvopnun í og á höfunum. Í fyrsta lagi er okkur sem öðrum Atlantshafsþjóðum lífsnauðsyn að nákvæmlega sé fylgst með ferðum kjarnorkuknúinna skipa og kafbáta sem búin eru kjarnavopnum á Norður-Atlantshafssvæðinu. Það er eitt meginverkefni þeirrar eftirlitsstöðvar Atlantshafsbandalagsins sem staðsett er hér á landi.
    Það má geta þess í þessu samhengi að samkvæmt upplýsingum þessarar eftirlitsstöðvar hefur ferðum slíkra kafbáta fækkað lítils háttar sl. tvö ár þótt ástæðurnar kunni nú ekki að vera mjög jákvæðar, þ.e. þeir hafa í sívaxandi mæli, og þá er ég að tala um kjarnorkukafbáta Sovétmanna, verið búnir langdrægum eldflaugum með kjarnaodda sem ná frá Barentshafi til Bandaríkjanna. Kann þetta að vera meginskýringin á því að ferðum þeirra hefur fækkað umhverfis Ísland.
    Í annan stað eru það okkar hagsmunir að stórveldin sem eiga kjarnorkuknúin skip og kafbáta búna þessum vopnum og stýra ferðum þeirra setjist að gagnkvæmum samningum um traustvekjandi aðgerðir, um aðgerðir til að koma í veg fyrir vistfræðileg slys, um fækkun þessara skipa og útrýmingu tiltekinna tegunda vopna, um sameiginleg efri mörk á fjölda skipa og vopna o.s.frv. Þetta verkefni þarf að skilgreina og fella það inn í afvopnunarferilinn. Horfur á að það megi takast eru nú kannski betri en nokkru sinni áður. Náist sá árangur í Vín sem vonir hinna bestu manna eru fastlega bundnar við, þ.e. um risavaxinn niðurskurð hefðbundinna vopna á meginlandi Evrópu, þá hlýtur afvopnun í höfunum að mínu mati að skoðast sem næsta meginverkefni.
    Við hljótum hins vegar að horfast í augu við þá staðreynd að hér er ekki við auðvelt verkefni að fást. Íslendingar sem eitt af aðildarríkjum Atlantshafsbandalagsins hljóta að vinna að þessu máli í samstarfi við bandalagsþjóðir sínar, enda litlar sem engar líkur til að slík ráðstefna bæri árangur án beinnar þátttöku og stuðnings þeirra ríkja sem hafa yfir þessum vopnum að ráða. Því þurfum við að vinna að þessu máli á margvíslegum vettvangi, þar á meðal innan Atlantshafsbandalagsins, á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og almennt séð á alþjóðlegum vettvangi. Í

þessu viðfangi vitna ég til ummæla hæstv. fjmrh. sem hann lét falla í umræðum um tillögu hans í Sþ. þann 22. okt. 1987. Hann sagði þá, með leyfi forseta:
    ,,Því miður held ég að málin séu þannig að við höfum ekki mátt til þess að boða hér til ráðstefnu þar sem samningaviðræðurnar sjálfar ættu að hefjast, það sé ekki á okkar valdi því miður, og þess vegna sé það raunsæi af okkar hálfu að ætla okkur ekki stærra verk en það að knýja á um að hinar formlegu samningaviðræður hæfust.``
    Út frá spurningunni um hvernig við getum best komið málinu í réttan farveg er því ljóst að mínu mati að undirbúningur hlýtur að vera viðamikill og hlýtur að fela í sér tvíhliða viðræður við margar þjóðir og mikið samræmingar- og undirbúningsstarf áður en við getum gert okkur vonir um árangursríkt ráðstefnuhald um þetta efni. Af því tilefni leyfi ég mér, virðulegi forseti, að vitna til ummæla forvera míns, hæstv. núv. forsrh., í sömu umræðum en hann sagði þá orðrétt:
    ,,Ég vil taka það fram fyrir mitt leyti að ég er í raun hlynntastur því að fækkun kjarnavopna fari fram á heimssviði, þ.e. fyrir heiminn allan, því að þau eru þess eðlis hvort sem þau eru staðsett í hafinu eða í Úralfjöllum eða í Klettafjöllum að þau geta eytt öllu mannlífi á jörðu. Það er mikilvægast að ná samkomulagi um fækkun kjarnavopna á heimsgrundvelli.`` Þetta sagði hæstv. forsrh. Og enn fremur, með leyfi forseta: ,,Spurningin er hvort við eigum að stofna til slíkrar ráðstefnu sem þessarar, hvort hún nær þeim góða tilgangi sem ég veit að hv. flm. hefur í huga. Ég hef efasemdir um það. A.m.k. þarf að vera tryggt að þátttaka í slíkri ráðstefnu yrði einlæg, ef ég má orða það svo, og ekki bara yfirborðskennd.``
    Nú er þess að geta, virðulegi forseti, að því fer fjarri að ekki hafi margt verið gert til að knýja á um að alvöruviðræður verði teknar upp um afvopnun á þessum sviðum. Ég skal láta þess getið í fyrsta lagi að þetta er meginviðfangsefni í samningaviðræðum Bandaríkjanna og Sovétríkjanna, svokölluðum START-viðræðum sem fara fram í Genf. Í lok forsetatíðar Reagans Bandaríkjaforseta gerðu menn sér vonir um það að þarna næðist verulegur
árangur. Því miður hefur hann látið á sér standa, fyrst og fremst vegna erfiðleika sem eru á því að tryggja traust og haldgott eftirlit. Menn verða að hafa hugfast að það er erfiðara að tryggja slíkt eftirlit þegar um er að ræða samninga sem fela í sér kannski helmings fækkun vopna fremur en útrýmingu. Kjarnorkukafbátarnir eru náttúrlega mjög hreyfanlegir og þess vegna er samningur um eitt svæði ekki nægileg trygging fyrir því að þeir verði ekki fluttir til, til annarra hafsvæða. Í annan stað er miklum erfiðleikum bundið að greina kjarnaodda frá venjulegum sprengjuhleðslum á eldflaugum, jafnvel þótt ný tækni í sambandi við gervihnetti og myndatöku gæti út af fyrir sig komið auga á og fylgst með ferðum allra slíkra kafbáta.
    Þess er síðan að geta að það eru í gildi tvíhliða samningar milli Bandaríkjanna, Bretlands og

Vestur-Þýskalands annars vegar og Sovétríkjanna um að koma í veg fyrir slys á höfunum. Þessi mál hafa verið tekin til rækilegrar umræðu innan afvopnunarnefndar Sameinuðu þjóðanna þar sem hafa komið fram tillögur um fjölþjóðasamning um að hindra slys á höfunum. Ég minni á, eins og hv. fyrirspyrjandi, að Ísland var árið 1983 meðflytjandi að tillögu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um könnun á flotauppbyggingu og vígbúnaði á höfunum. Sú skýrsla liggur fyrir. Þá er að minna á þær tillögur um traustvekjandi aðgerðir sem er að finna í Stokkhólmsskjalinu þrátt fyrir það að enn sem komið er var samningum beinlínis um flota og vopnabúnað á höfunum haldið utan við þær umræður. Ég lít hins vegar svo á að skili þær viðræður árangri hljóti hitt að vera næsta meginverkefnið.
    Mér þykir rétt af þessu tilefni, virðulegi forseti, ef ég má, vekja athygli hv. þingmanna á sérstakri ráðstefnu sem fram fór um þetta efni, svokallaðri Pugwash-ráðstefnu, í Osló 23.--26. júní árið 1988. Þar eru skilgreind með mjög rækilegum hætti nákvæmlega þau vandamál sem hér er við að fást og þær aðgerðir sem menn eru að ræða og kanna til þess að vekja aukið traust og til þess að draga úr hættu af þessum búnaði sem fyrsta skref í afvopnunarmálum. Þar má t.d. nefna samkomulag um það að koma í veg fyrir að staðbundin átök á hafinu gætu leitt til styrjaldar, í annan stað að koma í veg fyrir að slík staðbundin flotaátök gætu leitt til stigmögnunar upp í kjarnorkustríð, í þriðja lagi sérstakar reglur í samskiptum sem gætu komið í veg fyrir slys eða tortryggni, svo sem eins og reglur um að koma í veg fyrir getu slíkra flota til þess að hrinda af stað fyrirvaralausri árás, reglur um það að ekki verði um að ræða ögrandi flotaæfingar, samkomulag um það að draga úr útgjöldum til flotauppbyggingar o.s.frv.
    Virðulegi forseti. Ég viðurkenni að það er ótal margt sem þyrfti að koma fram annað til þess að svarið við þessari spurningu væri fullnægjandi. Ég vil segja ósköp einfaldlega að svarið er jákvætt í þeim skilningi að Íslendingar hafa gert margt í því efni til þess að koma þessum málum á dagskrá og koma þeim í farveg. Og að lokum vil ég aðeins nefna það að ég hef gert grein fyrir umræðum á Alþingi Íslendinga, tillögum, og lýst hugmyndum okkar um þetta efni í viðræðum við ótal aðila, í fyrsta lagi á ráðstefnu jafnaðarmannaflokka Efnahagsbandalagsríkjanna og EFTA-ríkjanna í Berlín á sl. hausti, í ræðu minni á utanríkisráherrafundi Atlantshafsbandalagsríkjanna í Brussel í byrjun desember, í ræðu minni við upphaf umræðu um lokaskjal Vínarfundarins, í tvíhliða viðræðum við utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Baker, á Íslandi fyrir skömmu síðan. Jafnframt geri ég ráð fyrir því að þessi mál verði til umfjöllunar á utanríkisráðherrafundi Norðurlanda sem í undirbúningi er um næstu mánaðamót og loks er þess að geta að Íslendingar hafa samþykkt þátttöku í ráðstefnu átta ríkja um vistfræðilega hlið þessa máls sem boðað hefur verið til að frumkvæði Finna á þessu sumri.
    Margt fleira er um þetta mál að segja, en því

miður leyfir tíminn það ekki frekar.