Hjúkrunarheimili fyrir heilaskaðaða
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svar hans. Því ber að fagna að unnið sé að undirbúningi þess að byggja hjúkrunarheimili fyrir heilaskaðaða þó að sá undirbúningur liggi ekki fyrir á þann veg að við sjáum fyrir það að framkvæmdir hefjist. Það liggur sem sagt ekki fyrir að búið sé að ákveða það að framkvæmdir hefjist þó að ráðherra hafi lagt það til við Framkvæmdasjóð fatlaðra að fjármagn verði lagt til þessa verkefnis. Ég held þess vegna að það verði að leggja höfuðáherslu á það að sérstakt fjármagn fáist til þessa verkefnis eins og ráðherra reyndar nefndi.
    Því ber að fagna að frjáls samtök í landinu, Lionshreyfingin, hafa tekið þetta verkefni upp á sína arma og hyggjast safna fjármunum til þess að koma upp aðstöðu fyrir þetta fólk og þá væntanlega í tengslum við Reykjalund. Vera má að það verði í framtíðinni sá þáttur sem leysir þetta verkefni að miklum hluta. Því ber að fagna. En sérstaklega verður að leggja áherslu á það að ríkisvaldið ákveði sérstaka fjárveitingu til þessa verkefnis. Annars má búast við því að verkefnið dragist allt of mikið á langinn ef þetta á að vera innan ramma fjárveitinga úr Framkvæmdasjóði fatlaðra.