Ökuferilsskrá
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Virðulegur forseti. Skv. 52. gr. umferðarlaganna skulu lögreglustjórar halda skrár um ökuskírteini og ökuferil samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Lögreglustjórar halda hver fyrir sig skrá um útgefin ökuskírteini. Ökuferilsskrá hefur verið haldin við nokkur umdæmi en án settra reglna um það hvað skuli skrá.
    Í undirbúningi er að koma á tölvuvæddri landsskrá um ökuskírteini. Sama er um ökuferilsskrá. Í því sambandi þarf að ákveða hvaða upplýsingar skuli færa í ökuferilsskrána, svo og þarf að tryggja að um samræmda færslu verði að ræða um land allt. Þá þarf að kveða á um það hvernig nýta eigi þær upplýsingar sem í skrána verða færðar.
    Undirbúningurinn hefur einkum farið fram við lögreglustjóraembættið í Reykjavík, en í samráði við dómsmrn. Er þess að vænta að ákveðnar tillögur um þetta efni geti legið fyrir síðar á þessu ári.