Ökuferilsskrá
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Jóhanna Þorsteinsdóttir):
    Hæstv. forseti. Ég þakka svar hæstv. dómsmrh. og fagna því sem þar kemur fram. Tilgangur viðurlaga, ef svo má segja, sem felst í ökuferilsskrá er margþættur. Fyrst og fremst er lagaákvæðum um þessi efni ætlað að hafa varnaðaráhrif og halda mönnum frá því að fremja brot. Er auðvitað erfitt að meta hvenær hér er hæfilega langt gengið. Einnig ráða hér öryggissjónarmið talsvert og er ökuleyfissvipting ekki síst hugsuð sem öryggisráðstöfun. Telja verður að sektir séu raunhæft form refsingar við almennum umferðarlagabrotum og reynslan sýnir að viðurlög sem snerta fjárhag manna eru yfirleitt áhrifarík. Þess þarf jafnan að gæta að sektir séu í samræmi við almennar staðreyndir í þjóðfélaginu hverju sinni, svo sem laun og verðlag.
    Annað hugsanlegt úrræði, einkum í sambandi við ítrekuð brot, væri að gefa viðkomandi kost á að í stað sektar fari hann á námskeið eða í endurmenntun á sviði umferðarmála með það að markmiði að hann verði betri og löghlýðnari vegfarandi. Einnig hefur oft verið rætt um að áhrifaríkt kynni að vera að skylda menn, sem ítrekað gerast sekir um t.d. of hraðan akstur eða glannalegan, til að fara í heimsóknir á slysa- og endurhæfingardeildir sjúkrahúsanna til þess að kynnast af eigin raun afleiðingum slysa. Vissulega ættu slíkar heimsóknir að fá menn til aukinnar umhugsunar um þessi mál.
    Að því er varðar ökuleyfissviptingar er þeim ekki síst beitt við svokölluð hættubrot, þ.e. gagnvart háskalegu framferði í umferðinni, ofsaakstri og ölvun við akstur. Vart verður séð að önnur úrræði séu tiltæk sem gefi sama árangur. Sumir segja að þetta sé allt of harkaleg aðgerð og jafnvel brot á mannréttindum sem hafi víðtæk áhrif, ekki einungis fyrir þann sem fyrir sviptingu verður heldur einnig fjölskyldu hans alla. Er það rétt að missir ökuleyfis nú á dögum er flestum þungbær, en á hinn bóginn er hér á það að líta að þetta er varnaðaraðgerð þjóðfélagsins gagnvart þeim sem sýnt hafa að þeim er ekki trúandi fyrir ökutæki og hér eru miklir hagsmunir í húfi. Skulu menn hafa í huga að mestu varðar að allt sé gert af hálfu opinberra aðila sem tiltækilegt er til að stemma stigu við því að sjálfir atburðirnir gerist sem hafa slysin og tjónið í för með sér. Ég beini þeim tilmælum til hæstv. dómsmrh. að hann láti vinna reglugerð að samræmingu ökuskírteinis og ökuferilsskráR á landsvísu. Virk ökuferilsskrá með innbyggðu punktakerfi er að öllum líkindum það aðhaldskerfi sem vænlegast er til að stuðla að fækkun umferðarbrota, bættri umferðarmenningu og um leið auknu umferðaröryggi.