Þjónusta við heyrnarlausa í sjónvarpi
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Á þskj. 521 hefur verið beint til mín fsp. um þjónustu við heyrnarlausa og heyrnarskerta í sjónvarpi.
    Mér hafa borist upplýsingar um hvernig þessum málum er háttað í Ríkisútvarpinu og svörin við þessum spurningum þaðan eru á þessa leið:
    1. Táknmálsfréttir eru um 3--5 mínútur að lengd og eru fluttar daglega kl. 19. Það er svar við 1. fsp.
    2. Tímasetning táknmálsfrétta hefur breyst með öðrum breytingum á dagskrá Sjónvarpsins samkvæmt tillögum dagskrárstjórnar Sjónvarpsins og ákvörðun útvarpsráðs á hverjum tíma. Í sumardagskrá ársins 1989 er gert ráð fyrir óbreyttri tímasetningu og umfangi táknmálsfrétta frá því sem nú er.
    3. Rétt er að taka fram og kemur fram í bréfi Ríkisútvarpsins dags. 8. mars 1989 að það er í endurskoðun staðsetning aðalfréttatímans í dagskrá Sjónvarpsins. Það er ekki ljóst enn þá með hvaða hætti þessum fréttatíma verður skipað inn í dagskrána og það er heldur ekki ljóst með hvaða hætti táknmálsfréttirnar verða tengdar þessum fréttatíma.
    4. Spurt er: ,,Er í ráði að taka aftur upp ritmálsútdrátt úr fréttum?`` Svarið er já. Það er í ráði að það verði gert. Það verður gert um leið og fjárhagur Ríkisútvarpsins leyfir og er lögð á það áhersla að það verði gert hið fyrsta. Þar verður boðið upp á fréttir, veðurfregnir og margvíslegar aðrar upplýsingar sem sendar verða út jafnvel verulegan hluta dagsins.
    Sem svar við tölul. 5, 6 og 7 í fsp. hv. 18. þm. Reykv. barst þetta svar frá Ríkisútvarpinu: ,,Engar endanlegar áætlanir hafa verið gerðar um þau atriði sem um ræðir í þessum töluliðum. Textun af þessu tagi er mjög kostnaðarsöm og hafa sjónvarpsstöðvar stórþjóða af þeim sökum orðið að fara sér hægt í þeim efnum. Fyrirhugað er þó þegar fjárhagur Sjónvarpsins leyfir að setja texta á endursýnt valið íslenskt efni, svo sem íslensk leikrit og kvikmyndir.``
    Ég hef engar upplýsingar um það hvernig þessum hlutum er háttað á öðrum sjónvarpsstöðvum sem reknar eru hér á landi. Það er hins vegar alveg augljóst mál að þjónusta af þessu tagi mætir afgangi. Hún er ekki ofarlega á forgangslista þeirra sjónvarpsstöðva sem reknar eru á Íslandi, hvort sem þar er um að ræða ríkissjónvarp eða einkastöð. Þess vegna er óhjákvæmilegt um leið og útvarpslög eru endurskoðuð að það verði tekið á þessu máli og kannað hvort á að setja í lög beinar skyldur þessara stöðva við fatlaða. Ég held í raun og veru að ef það er ekki gert með skýrum lagabókstaf muni menn jafnan bera fyrir sig fjárhagslega örðugleika áður en þeir fást til að taka inn jafnþýðingarmikinn þátt og þann sem hér um ræðir. Hér er ekki verið að tala um neitt annað en jafnrétti handa fötluðu fólki sem á að stefna að og vinna að samkvæmt öðrum lögum sem í gildi eru í landinu, lögunum um málefni fatlaðra.
    Mér þykir vænt um að hv. þm. Þórhildur Þorleifsdóttir hefur borið þessa fsp. fram. Hún á brýnt erindi við okkur. Ég vona að fsp. og umræðan verði

til að ýta við forráðamönnum sjónvarpsstöðvanna sem til eru og einnig okkur þegar frv. að nýjum útvarpslögum verður lagt fyrir þingið eftir skamman tíma. Ég vænti þess að drög að frv. til nýrra útvarpslaga berist mér í hendur í næstu viku.