Málefni heyrnarskertra
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Fyrirspyrjandi (Þórhildur Þorleifsdóttir):
    Virðulegur forseti. Sú fsp. sem er að finna á þskj. 491 er líka tengd málefnum heyrnarskertra og raunar var ein á dagskrá í viðbót sem bíður um sinn. Það eru nokkur hundruð manns sem á Íslandi eru annaðhvort heyrnarlaus eða svo heyrnarskert að þeir hafa ekki gagn af neinni þeirri þjónustu sem þjóðfélagið býður öðrum þegnum. Þetta er mjög einangraður hópur félagslega og menningarlega og þó að þetta fólk hafi fullt líkamlegt og andlegt atgervi getur það vegna skorts á þessu hjálpartæki, tungumálinu, ekki nýtt sér þá þjónustu og þau tækifæri sem þjóðfélagið býður öðrum þegnum sínum.
    Í fyrra flutti ég tillögur um úrbætur í málefnum heyrnarskertra. Það mál varðaði þá þjónustu sem ég hafði upplýsingar um að væri brýnust fyrir þennan hóp, þ.e. túlkar og textasímaþjónusta. Túlkar, til að geta t.d. stundað nám og einnig fyrir heyrnarskerta sér til aðstoðar við störf, félagslíf og ýmsa þjónustu. Það er enginn hægðarleikur fyrir þá sem hafa öll skynfæri heil að komast í gegnum þyrnigerði ýmissa þjónustustofnana, hvað þá ef enginn skilur þig og þú skilur engan. Textasími er mjög nauðsynlegur í þjónustu við þennan hóp og raunar nauðsynlegri en sími er öllum venjulegum borgurum þessa lands. Það öryggi sem fylgir því fyrir heyrnarskerta að hafa slíkan síma og ekki síður einhvern til þess að svara við hinn endann er gífurlegt.
    Á þingi í fyrra var þessum tillögum vísað frá af þeim orsökum að þær væru óþarfar þar sem nefnd skipuð af félmrh. hefði þegar skilað niðurstöðum og það sem meira var, að framkvæmdir væru þegar hafnar til úrbóta líkar þeim sem ég lagði til í tillögu minni. Nú skilst mér af þeim upplýsingum sem ég hef aflað mér að lítið hafi breyst til batnaðar og því langar mig til að spyrja hæstv. félmrh.:
    1. Hefur nefnd sem félmrh. skipaði á sl. ári, reyndar var hún skipuð fyrir áramót en hún átti að skila niðurstöðu á sl. ári, skilað álitinu?
    2. Ef svo er, hverjar eru þá helstu niðurstöður og tillögur nefndarinnar?