Málefni heyrnarskertra
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Í nóvember 1987 skipaði ég nefnd sem ætlað var að leiða í ljós með hvaða hætti unnt væri að bæta stöðu heyrnarlausra í þjóðfélaginu. Nefndin skilaði skýrslu um málefni heyrnarlausra og niðurstöðu könnunar á félagslegri stöðu heyrnarlausra í maí 1988 þar sem jafnframt koma fram tillögur nefndarinnar til úrbóta. Skýrslan var send fjölmörgum aðilum á sl. sumri, þar á meðal öllum þingflokkunum.
    Nefndin lét einnig gera könnun á félagslegri stöðu heyrnarlausra eins og áður er sagt. Könnunin náði til þeirra sem eru félagsmenn í Félagi heyrnarlausra. Spurt var um fjölda og aldur heyrnarlausra, orsakir heyrnarleysis, aðstæður, húsnæði, fjölskylduaðstæður, atvinnuástand, tekjur, tryggingabætur, afkomu, félagsleg tengsl, menntun, fullorðinsfræðslu og jafnframt kannað á hvaða sviðum heynrarlausir njóti ekki þeirrar þjónustu sem heyrandi njóta almennt í tengslum við fjölmiðla, dagheimili, skóla, fullorðinsfræðslu og félagslega þjónustu. Enn fremur var könnuninni ætlað að leiða í ljós hver er þörf fyrir túlkaþjónustu hér á landi.
    Niðurstöður könnunarinnar eru um margt forvitnilegar. M.a. kemur í ljós að heyrnarlausir eru með mjög lágar tekjur og búa afar þröngt. Menntunaraðstaða heyrnarlausra er bágborin. Heyrnarleysi leiðir til mikillar einangrunar sem veldur því að heyrnarlausir geta aðeins að takmörkuðu leyti nýtt sér það sem upp á er boðið í nútímaþjóðfélagi og eru oft í vandræðum með að sinna einföldustu erindum daglegs lífs. Það atriði sem brýnast er að sinna er að koma á fót túlkaþjónustu fyrir heyrnarlausa. Tillögur nefndarinnar vörðuðu m.a. textasíma, túlka og tollamál.
    Nefndin leitaði eftir því að Póstur og sími kæmi upp þjónustu hjá Landssíma við heyrnarlausa í 02 við litlar tölvur sem nýst geta heyrnarlausum með sama hætti og textasímar en bjóða upp á ýmsa aðra og mun meiri möguleika við notkun og eru auk þess ódýrari en fullkomnir textasímar. Jafnframt lagði nefndin til við tryggingaráð að fjármögnuð verði kaup á slíkum tölvum fyrir heyrnarlausa í stað þeirra textasíma sem nú eru í notkun. Nefndin beindi þeim tilmælum til menntmrh. að komið yrði á fót menntun fyrir táknmálstúlka í sérkennsludeild Kennaraháskóla Íslands. Nefndin lagði einnig til að þegar yrði komið á almennri túlkaþjónustu við heyrnarlausa og með hvaða hætti hún yrði framkvæmd og að túlkaþjónusta yrði greidd af Tryggingastofnun ríkisins, t.d. að hver heyrnarlaus einstaklingur ætti rétt á 30 klukkustundum á ári. Lagði nefndin tillögur sínar varðandi túlkaþjónustu einnig fyrir tryggingaráð.
    Nefndin lét einnig til sín taka tollamál vegna innflutnings myndbanda frá Norðurlöndum fyrir heyrnarlausa, niðurgreiðslu á síma og dagskrárgerð ríkissjónvarps fyrir heyrnarlausa og skrifaði fjmrn. og útvarpsráði til að fylgja þeim málum eftir.
    Upplýst er að tryggingaráð hefur ekki tekið afstöðu til tillagna nefndarinnar varðandi textasíma og túlkaþjónustu en mun fjalla um málið fljótlega.

    Þroskaþjálfaskólinn bauð nemendum 3. bekkjar í fyrsta sinn nám í táknmáli og túlkun fyrir heyrnarlausa á þessum vetri. Kennaraháskólinn hefur ákveðið að hefja kennslu í táknmálstúlkun fyrir kennara úr Heyrnleysingjaskólanum. Er það bráðabirgðalausn og hægt að útvíkka þá kennslu fyrir stærri hópa síðar.
    Í menntmrn. er nú rædd hugmynd um samskiptamiðstöð heyrnarlausra.
    Í framhaldi af vinnu nefndarinnar óskaði Sjónvarpið eftir því að Félag heyrnarlausra gerði tillögur um hvernig æskilegast væri að hátta 30 mínútna löngum vikulegum fréttaþætti fyrir heyrnarlausa. Vegna auglýsingatekna treysti Sjónvarpið sér ekki til að hafa fréttir á táknmáli næst á undan fréttum og textun á barnaefni og öllu innlendu efni sé of dýr fyrir Sjónvarpið nema greiðslur fyrir það kæmu annars staðar frá.
    Hvað varðar niðurfellingu tolla af myndböndum skorti fjmrn. til þess lagaheimild á sl. sumri, en á fjárlögum þessa árs er heimild til að fella niður aðflutningsgjöld og söluskatt af öryggis- og hjálpartækjum fyrir fatlaða sem ná yfir myndbönd, textasíma og tölvur.
    Þær upplýsingar fengust hjá Pósti og síma að þeir hafa fullan hug á að leysa málin varðandi smátölvur í stað textasíma og hafa átt von á að fá þær til skoðunar og prófunar en hafa ekki fengið þær enn.
    Á sl. ári veitti félmrn. ásamt heilbrmrn. og menntmrn. sérstakan styrk til Þroskaþjálfaskóla Íslands til vinnslu kennsluefnis og undirbúnings kennslu í táknmáli og túlkun. Hefur skólinn nýverið fengið viðbótarstyrk sömu aðila til að ljúka þessu verkefni. Með þessu má segja að lagður hafi verið grunnur að því að flytja táknmálskennsluna og menntun túlka í það horf að ör framfaraþróun geti orðið á þessu sviði á komandi árum.
    Með niðurstöðum nefndar um málefni heyrnarlausra hefur félmrn. lokið sérstakri athugun á þessum málum og þann 6. okt. sl. var stjórnarnefnd um málefni fatlaðra send niðurstaða nefndarinnar til frekari úrvinnslu.
    Virðulegi forseti. Ég tel með tilliti til þess sem ég hef hér lýst að ekki sé réttmætt að halda því fram, eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda, að ekkert hafi gerst í þessu máli eða að ekkert sé í undirbúningi til að styrkja stöðu heyrnarlausra í þjóðfélaginu.