Skólabúðir í Reykjaskóla
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Virðulegi forseti. Fyrst er spurt: ,,Hve margir nemendur dvöldust í skólabúðum í Reykjaskóla sl. ár?`` Svarið er: Á sl. ári dvöldust þar 468 nemendur í vikudvöl, komu á hádegi á mánudegi og fóru á föstudegi eftir hádegi. Það fer sem sagt ein skólavika í þetta hjá þessum nemendum. Auk þess komu í heimsóknir einn dag í senn 32 nemendur úr nágrannaskólum þannig að alls komu í skólabúðirnar um 500 nemendur.
    2. ,,Úr hve mörgum skólum voru nemendur og hvernig skiptast þeir á skólaumdæmi?`` Nemendurnir komu í skólabúðirnar úr ellefu skólum, að auki úr tveimur nágrannaskólum í styttri dvöl eins og skýrt er hér á undan. Hér er um að ræða tvo skóla í Reykjavík, þrjá skóla í Reykjanesumdæmi, einn skóla á Vesturlandi, einn skóla í Norðurlandsumdæmi vestra, tvo skóla í Norðurlandsumdæmi eystra og tvo skóla á Suðurlandi en engan á Austurlandi.
    3.--4. ,,Hver var kostnaður á hvern nemanda? Þurftu nemendur að greiða hluta kostnaðar sjálfir og ef svo er, hve mikið?`` Svarið er: Hver nemandi greiddi til mötuneytis 2500 kr., en það er fyrst og fremst vegna hráefniskostnaðar. Ekki eru það alltaf sömu aðilar sem greiða þessa upphæð samkvæmt upplýsingum sem við höfum fengið. Í sumum tilvikum eru það foreldrar, í öðrum ferðasjóðir nemenda, a.m.k. að hluta til, og í þriðja lagi munu dæmi þess að bæjarfélög styrki þessar ferðir. Þá er ferðakostnaður að sjálfsögðu mismunandi eftir því hvaðan nemendur koma, en hann er greiddur með sama hætti og mötuneytiskostnaður. Vert er að geta þess að í kynningu á skólabúðahugmyndinni meðal kennara haustið 1987 var lögð alveg sérstök áhersla á að ferð í skólabúðir yrði að vera mjög vel undirbúin í heimaskólanum til þess að tíminn í skólabúðunum sjálfum nýttist sem allra best.
    5. ,,Var hægt að sinna öllum umsóknum?`` Svarið er þetta: Nei, það var ekki unnt að sinna öllum umsóknum. A.m.k. tveir skólar komust ekki að á þeim tíma sem hentaði þeim, m.a. vegna þess hve hópar þaðan voru stórir, en þessir hópar komast báðir að næsta haust.
    6. ,,Hvert er mat skólayfirvalda á þeirri reynslu sem þarna hefur fengist?`` Svarið er þetta: Starfið hefur gefið mjög góða raun. Nemendur tóku vel þeim verkefnum sem skólabúðirnar gátu boðið upp á eins og m.a. kom fram í máli hv. fyrirspyrjanda. Það er ljóst að viðfangsefni þurfa að vera sveigjanleg eftir aldri nemenda og ytri aðstæðum og það hefur tekist að laga verkefnin nokkuð eftir þörfum þeirra. Það verður hins vegar að hafa í huga að hér er um brautryðjendastarf að ræða, en bæði nemendur og kennarar sem komið hafa í skólabúðirnar hafa verið mjög ánægðir með verkefnin og dvölina þar.
    Rétt er að vekja athygli á að hér er um tilboð til skóla að ræða af hálfu menntmrn. en enga skyldu og er ljóst að Reykjaskóli getur ekki annað eftirspurn ef aðsókn verður mjög mikil. Nú er fullbókað á vorönn 1989 og heita má að þegar sé fullbókað á haustönn

nk.
    Ég vænti þess að þetta svari þeim fyrirspurnum sem hv. þm. bar fram. Ég tel að hérna sé um að ræða eitt merkasta skólaþróunarverkefni sem í gangi er á vegum menntmrn. og er alveg augljóst að það verður kallað eftir þjónustu af þessu tagi víðar á komandi árum.