Skólabúðir í Reykjaskóla
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Pálmi Jónsson:
    Virðulegi forseti. Ég sé ástæðu til að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli, þeirri merku nýjung í skólastarfi sem hafin er á Reykjum í Hrútafirði. Ég minnist þess að þegar þessi hugmynd kom fyrst upp í tíð fyrrv. menntmrh. Sverris Hermannssonar og hann átti fund með heimamönnum um þetta mál, þá vakti málið mikla athygli. Mér er og ljúft að staðfesta það, sem hér hefur komið fram, að eftir mínum kynnum af þessu hefur þetta starf tekist vel og lofar mjög góðu. Ég held að þarna sé fundin leið til að vinna að mjög auknum þroska nemenda, ekki síst úr þéttbýli landsins, þar sem þeir hafa möguleika til þess að kynnast nýju umhverfi, nýjum viðfangsefnum og aðstæðum sem eru öðruvísi en í þeirra heimabyggð. Allt laðar það fram vilja til að sækja sér aukinn þroska og hefur að mínum dómi heppileg og góð áhrif.