Fyrirspyrjandi (Ólafur Þ. Þórðarson):
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. menntmrh. fyrir hans svör og þó fremur fyrir þann anda sem mér fannst vera í hans svörum, að hann hefði til þess fullan vilja að taka á þessu máli. Ég held að sú brýning sem kom fram frá hv. 3. þm. Norðurl. v. segi okkur fullum fetum að dreifbýli Íslands stendur með þessum fjölmiðli og ætlast til þess að það fái að njóta hans.
    Ég hef fundið það á Vestfjörðum þar sem ekki heyrist til Rásar 2 að menn telja það ekkert aukaatriði að ástandið sé á þann veg og ég vænti þess að þegar menn taka á þessum málum og klára þetta dæmi, því það eru mannréttindi að mínu viti að eiga aðgang að þessum fjölmiðli, gleymi þeir ekki heldur íslenskum sjómönnum.