Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi gerir því skóna með sinni fsp. að ekki hafi verið farið að fyrirmælum 18. gr. laga um Seðlabanka Íslands við skráningu á gengi krónunnar undanfarin ár. Ég vísa þessari skoðun á bug og vildi, með leyfi forseta, endurtaka það sem segir í 2. mgr. 18. gr. seðlabankalaganna þótt hv. fyrirspyrjandi hafi að mestu farið með þann texta, en hann er svona: ,,Ákvarðanir um gengi íslensku krónunnar skulu miðast við að halda sem stöðugustu gengi og ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd, en tryggja jafnframt rekstrargrundvöll útflutningsatvinnuvega og samkeppnisgreina.``
    Hér er með öllu ljóst að markmiðin togast á, en stjórntækið sem hér er rætt er bara eitt: gengið. Það getur því reynst erfitt með því að beita því tæki einu að láta þetta ganga upp því markmiðin eru tvö eða þrjú: stöðugt verðlag, jöfnuður í utanríkisviðskiptum og rekstrargrundvöllur fyrir útflutningsatvinnuvegi og samkeppnisgreinar, góð afkoma þeirra.
    Ég tel einsýnt að í lögunum um Seðlabankann, þegar þau eru lesin í heild og gengisfyrirmælin lesin í því samhengi, er sett á oddinn að gengisskráningin skuli veita innlendri verðlagsþróun aðhald. Stöðugu gengi eða sem stöðugustu gengi eins og þetta er orðað í lögunum er að minni hyggju samkvæmt anda laganna ætlað að vera ankeri fyrir verðlagsþróun í landinu. Þessi vilji löggjafans er að mínu viti byggður á reynslu og réttum lærdómum af henni dregnum. Það vita allir að breytingar á genginu skila sér fljótt í innlendu verðlagi. Það er hins vegar undir hælinn lagt hvort breytingar á nafngenginu, ef þær eru ekki studdar öðrum aðgerðum, hafi mikil áhrif á viðskiptajöfnuð eða afkomu í útflutnings- og samkeppnisgreinum. Ef þensla ríkir í þjóðfélaginu getur gengislækkun jafnvel gert illt verra af því að hún verður eldsmatur á verðbólgubálið og kyndir undir gagnvirkum hækkunum á öllum mörkuðum innan lands.
    Ef hins vegar eftirspurn sljákkar um leið og hallarekstur er á útflutningsatvinnuvegum og halli á viðskiptum við önnur lönd má ætla að við slíkar aðstæður, þegar um grundvallarmisvægi er að ræða, geti breyting á genginu skilað árangri. Ég tel að í minni embættistíð sem viðskrh. hafi verið fylgt gengisstefnu sem er í samræmi við lögin.
    Ég vil benda á að hækkunin á raungengi krónunnar sem varð á árinu 1987 og varð of mikil, ég tek undir það með hv. fyrirspyrjanda, hafi ekki stafað af gengisstefnunni fyrst og fremst sem fylgt var heldur af því að innlend launa- og verðlagsþróun fór úr böndunum þrátt fyrir stöðugt gengi. Ég vil líka leyfa mér að benda á að árið 1987 var kosningaár og enginn vafi á því að stjórnvöld hafa hneigst til að halda í böndum verðlagsþróun fram eftir ári.
    Ég dreg ekki dul á að á árinu 1987 og á fyrri hluta ársins 1988 var raungengi krónunnar orðið of hátt. Ég bendi hv. fyrirspyrjanda á að með nokkrum tiltölulega smáum gengislækkunarskrefum á síðustu mánuðum hefur tekist að lækka raungengið verulega

án þess að valda kollsteypu í innlendu verðlagi. Ég legg hins vegar á það mikla áherslu að forsenda þess að gengisbreytingar skili árangri er að þær séu gerðar þegar innlendar eftirspurnaraðstæður eru þær að hér hafi orðið afturkippur, samdráttur. Þá og þá aðeins getur gengisbreyting skilað þeim árangri sem löggjöfin ætlast til og sem ég veit að hv. fyrirspyrjandi ber líka fyrir brjósti.