Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Bara örstutt athugasemd.
    Hv. fyrirspyrjandi nefndi bæði í fyrri og seinni ræðu að viðskiptahalli hefði keyrt úr hófi í fyrra og stefndi í enn hærri tölur á þessu ári. Hann nefndi í fyrri ræðu sinni að viðskiptahallinn hefði verið 12 milljarðar á liðnu ári. Þetta er ekki rétt. Hann var um 10 milljarðar kr. Það er hins vegar rétt að það er of mikið. En það er líka rangt hjá hv. fyrirspyrjanda að það stefni í meiri viðskiptahalla á þessu ári því samkvæmt þeim spám sem síðast hafa verið kynntar er gert ráð fyrir um 9 milljarða kr. viðskiptahalla á árinu 1989 og það er í senn lægri fjárhæð í beinum tölum en var í fyrra og til muna lægra hlutfall af umsvifum í þjóðarbúskapnum. Þannig er að því stefnt að ná jöfnuði í viðskiptum við útlönd, að vísu í hægari skrefum en menn kysu. En ég ítreka það, sem kom fram í mínu svari við fsp. hv. 5. þm. Austurl., að það er ekki rétt að það séu eingöngu viðskiptajöfnuður og rekstrargrundvöllur útflutningsatvinnuvega og samkeppnisgreina sem eigi lögunum samkvæmt að ráða genginu. Það er hins vegar, eins og ég nefndi, mikil áhersla lögð á að halda sem stöðugustu gengi. Þarna er hagsmunaárekstur sem ekki verður útkljáður með einföldum viljayfirlýsingum af því tagi sem hv. fyrirspyrjandi hefur flutt úr þessum ræðustól.