Aðstoð við leigjendur
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Flm. (Aðalheiður Bjarnfreðsdóttir):
    Virðulegi forseti. Ég flyt hérna till. til þál. sem ég er flm. að ásamt þremur samflokksmönnum mínum, þeim hv. alþm. Guðmundi Ágústssyni, Óla Þ. Guðbjartssyni og Albert Guðmundssyni. Ályktunin hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa breytingar á lögunum um tekjuskatt og eignarskatt þannig að greidd húsaleiga lágtekjufólks verði annað tveggja frádráttarbær frá tekjuskatti eða bætt með húsaleigustyrkjum.``
    Ég vil enn fremur, með leyfi forseta, lesa 1. mgr. greinargerðarinnar:
    ,,Þegar lögin um staðgreiðslu skatta og breytingin á lögum um tekjuskatt og eignarskatt voru samþykkt á síðasta þingi var ekki tekið á málum þess stóra hóps fólks sem leigir húsnæði á hinum frjálsa markaði. Hins vegar gera lögin ráð fyrir bótum til handa þeim sem byggja eða kaupa húsnæði án tillits til efnahags þeirra.``
    Sannleikurinn er sá að það er ekkert nýtilkomið að leigjendur séu réttlausir eða a.m.k. réttlitlir. Svo hefur oftast nær verið. Sá sem leigir sér húsnæði hefur í raun og veru ekkert með það að gera á hvaða verði það er. Honum eru settir skilmálar. Hann getur fengið húsnæðið á þessu verði. Ef hann ekki getur tekið það eða ekki getur staðið í skilum með leiguna eru nógir aðrir til að taka það og hann getur bara farið.
    Alla jafna eru leigutekjur ekki taldar fram til skatts og það kemur til af tvennu. Þetta er yfirleitt ekki frádráttarbært fyrir þann sem leigir nema þá að svo litlu leyti, en hins vegar kemur það þeim illa sem leiguna selur. Þegar erfitt er að fá húsnæði eins og nú er, a.m.k. hér á Reykjavíkursvæðinu, fellur þetta mjög oft niður.
    Það vita allir að laun hafa staðið í stað í langan tíma. Leiga hefur ekki mátt hækka, a.m.k. ekki meðan verðstöðvunarlögin stóðu, og hefur það kannski verið haldið að miklu leyti. Þó finnst mér eins og húsaleiga nú sé óeðlilega hár hluti af launum. Ég skal taka hérna dæmi sem ég þekki mjög vel og sem ég held að séu mjög algeng.
    Ung stúlka sem vinnur sem aðstoðarstúlka á barnaheimili fær leigt herbergi. Hún á ekki heima í Reykjavík. Hún fær leigt herbergi með einhverjum aðgangi að síma og leyfi til að fara í eldhúsið á kvöldin og hita sér eitthvað smávegis. Hún greiðir fyrir þetta 10 þús. á mánuði sem er mjög algeng leiga, held ég, á einstaklingsherbergjum þó hún geti verið lægri. Hún getur líka sjálfsagt verið hærri. Hún fær í útborguð laun fyrir sína átta stunda vinnu 28 þús. á mánuði. Hún heldur eftir 18 þús. þegar hún er búin að borga húsaleiguna.
    Annað dæmi um konu sem vinnur vaktavinnu, líka átta stunda vinnu. Með vaktaálagi ber hún úr býtum 51 þús. brúttó á mánuði. Hún leigir tveggja herbergja íbúð, óhrjálega, leiðinlega, í blokk sem margir í Reykjavík þekkja og þekkja einnig af því að þar er lítið gert fyrir leigjendur. Hún er með stálpaðan ungling í skóla. Hún greiðir fyrir þessa íbúð 32 þús.

á mánuði.
    Þá er það fullorðinn verkamaður, maður rúmlega sextugur, búinn að vinna mjög lengi á sínum vinnustað og kominn á besta kaup sem þar er greitt og hefur 56 þús. á mánuði fyrir átta stunda vinnu. Hann leigir kjallaraíbúð, ekkert slæma en ekki heldur góða, og borgar fyrir hana 25 þús. á mánuði.
    Það geta allir litið í eigin barm og séð hvernig er að lifa af því sem eftir er af launum. Það er þessi gamla sama saga að þegar maður er að segja frá launum fólks sem eru í þessum lágtekjuhópum vill eiginlega enginn trúa manni. Fólk segir að þessi laun séu ekki til. Það er sama þó að maður hafi launaseðil fólksins í höndunum. Það er mjög algengt að maður er rengdur um þetta. En ég fullvissa ykkur sem hlustið á mig um að ég þekki mjög vel öll þessi þrjú dæmi og ég er að segja alveg satt.
    Við vitum auðvitað dæmi þess, eins og segir í grg. með þáltill., að tveggja eða þriggja herbergja íbúðir eru nú leigðar á 40 þús. eða meira á mánuði. Ég þekki líka dæmi til þess að t.d. einstaklingsherbergi eru leigð ódýrara en á 10 þús. Einkanlega finnst mér það vera þegar aldrað fólk er að leigja út frá sér kannski eitt herbergi. Það er eiginlega meira að því til þess að njóta félagsskapar eða vera ekki eins einmana, hafa einhvern í húsinu. Þetta aldraða fólk leigir út fyrir tiltölulega lítinn pening.
    En það sem við meinum með þessari tillögu er fyrst og fremst að greiða tekjutengdan húsaleigustyrk eða húsaleigubætur. Það er engin ástæða til að greiða niður leigu fyrir þá sem hafa mikil eða góð fjárráð, en ég held að í fæstum tilfellum leigi þeir íbúðir. Í flestum tilfellum er þetta ungt fólk sem er að byrja búskap, svo og eldra fólk sem annaðhvort hefur aldrei tekist að eignast íbúðir eða misst þær, misst þær kannski vegna greiðasemi. Það hefur lánað einhverjum veð í íbúðinni sinni og hvað eina.
    A.m.k. ríkir í þessum málum hér á Reykjavíkursvæðinu mikið ófremdarástand og ég held að það sé ekkert betra annars staðar. Hér vantar tilfinnanlega leiguíbúðir og úr því verður ekki bætt eins og hendi sé veifað, en þetta má bæta að einhverju leyti með því að koma til móts við þarfir þessa fólks og létta því byrðina með það sem það þarf að borga.
    Ég sé ekki ástæðu til að hafa þessi orð fleiri. Mér finnst komið til skila það sem ég vildi segja og lýk hér máli mínu.