Aðfaranám til ökuprófs
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Salome Þorkelsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vil aðeins koma í ræðustól til að lýsa stuðningi mínum við þessa till. til þál. Ég hefði þess vegna getað verið einn af flm. hennar. Þetta er mál sem hefur verið mér hugleikið og ég hef reynt að berjast fyrir á hv. Alþingi og oft minnst á bæði í ræðu og riti hve mikla þýðingu það hefur að gera allt sem mögulegt er til að bæta umferðaröryggi. Sá þáttur sem hér er fjallað um er eitt af undirstöðuatriðum hvað umferðaröryggi varðar.
    Eins og kom fram í máli 1. flm. till. eru það einmitt aldurshóparnir 15--24 ára sem eru í mestri hættu hvað varðar umferðarslys og umferðaróhöpp. Það hefur verið mín skoðun að ökunám eigi að færa inn í framhaldsskólana, t.d. í 9. bekk og fyrr vegna vélhjólaaksturs.
    Það getur varla verið að ungt fólk sé verri ökumenn en þeir eldri hvað hæfni varðar. Ástæðurnar hljóta að vera allt aðrar. Þess vegna þurfa unglingar að venjast því nógu snemma að bifreiðin er ekki leikfang heldur samgöngutæki sem ber að umgangast með fullri ábyrgðartilfinningu. Innræting þarf því að hefjast strax í skólunum. Þetta held ég að sé mikilsvert atriði og þess vegna vildi ég í þessum örfáu orðum taka heils hugar undir þessa þáltill. og lýsa stuðningi við hana.