Afstaða Íslands á fundi EFTA-landanna
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Albert Guðmundsson:
    Virðulegur forseti. Ég hafði hugsað mér að hafa mína ræðu mjög stutta þegar ég bað um orðið, en ýmislegt hefur komið fram sem gefur tilefni til að ræða þessi mál af miklu meiri hörku og á allt annan hátt en ég hafði upphaflega gert ráð fyrir.    Mér finnst hafa komið fram í máli ýmissa ræðumanna sjónarmið sem ég get ekki sætt mig við og álít að séu röng.
    Ég vil byrja á því að gera athugasemdir við það sem kom fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. og voru orð sögð í garð frummælanda sem ég tel að séu ekki rétt og hefði frekar viljað vera laus við að hlusta á vegna þess að það mál sem hér er á dagskrá á fullan rétt á sér. Ég vil taka það fram að sú nefnd sem hv. þm. vitnaði til og hann væri í hefur nú haldið ræðumönnum bíðandi hér, þeim ræðumönnum sem ekki eru í nefndinni, með því að tala manna lengst. Ég held að flestir af þeim sem hafa tekið til máls fyrir utan mig núna séu nefndarmenn þannig að ef nefndarfundur fellur niður er það vegna þess að nefndarmenn sjálfir fundu hvöt hjá sér til að tala meira um málin en aðrir þingmenn.
    En ég vil líka taka það fram að þessi Efnahagsbandalagsnefnd sem þeir kalla sjálfir svo er ekki með nein völd til að taka nokkrar ákvarðanir og er eingöngu sett á laggirnar til að afla upplýsinga fyrir hv. Alþingi og alþm. og það er kominn tími til þess einmitt núna þegar nefndin á að fara að ræða væntanlega yfirlýsingu EFTA-ráðherra á erlendri grundu að Alþingi ræði þá yfirlýsingu því að forsrh. fer umboðslaus frá Alþingi til að gefa nokkra bindandi yfirlýsingu fyrir land og þjóð. Ég er fulltrúi fyrir fjölda kjósenda. Ég er trúnaðarmaður þessa fólks, ég er trúnaðarmaður þess hluta þjóðarinnar og sem alþm. er ég eins og hver annar alþm. trúnaðarmaður fólksins í landinu þannig að það eru engin trúnaðarbrot að ræða þau mál, sem á að fara að tala um á erlendri grundu og snerta svo mjög efnahag þjóðarinnar til frambúðar, opið við þingmenn. En það er hægt að loka fundum Alþingis þannig að það séu þá trúnaðarmál. Það er aldrei hægt að ræða trúnaðarmál við þingmenn. Vegna hvers? Vegna þess að það eru einhver önnur eyru sem hlusta? Það er í þingsköpum Alþingis að það er hægt að loka fundum og ræða þessi trúnaðarmál við rétta aðila en ekki bara hluta, þann hluta sem er kosinn í einhverja nefnd. Nefndin hefur ekkert með þessi trúnaðarmál að gera. Hún hefur engan minn trúnað til að taka ákvarðanir né ræða málin. Ég tek ákvarðanir fyrir mig. Það gerir enginn annar.
    Ég mótmæli þessum fundi með nefndinni um trúnaðarmál sem á kannski að vera bindandi, a.m.k. verður það talið bindandi af öðrum undirskriftaraðilum eftir að forsrh. þjóðarinnar hefur skrifað þar undir. En það yrði leiðinlegt ef þingheimur væri svo ekki sammála á eftir. Ég óska eftir því að það verði enginn fundur haldinn með þessari nefnd um þessi mál, að fundurinn verði hér í Alþingi og alþingismenn geti rætt það mál sem hér hefur verið rætt í allan dag undir einhverri rós vegna þess að maður veit ekki

hvað er í vændum. Og þetta gengur náttúrlega ekki.
    Hv. 1. þm. Norðurl. v. segir: Það þarf ekkert að vera að ræða þetta. Við erum að fara á nefndarfund til að ræða málið. Hann getur farið út í bæ og rætt það mál sem hann vill en ekki á vegum Alþingis nema hann hafi til þess samþykki. Hann hefur það ekki frá mér, hvorki hann né aðrir nefndarmenn, hvort sem þeir tilheyra mínum flokki eða ekki. Ég mótmæli því, ég mótmæli því sem þingmaður, og ætti þó ekkert að vera að skipta mér af því í þessu tilfelli vegna þess að það snertir mig ekki sjálfan öðruvísi en að ég varð sem þingmaður að hlusta á hv. 1. þm. Norðurl. v. segja að þetta mál sé flutt hér inn í þingsali og á dagskrá af einum hv. þm., sem hefur jafnan rétt og sá sem talaði þessi orð, til að slá sér upp. Hvers lags hugsunarháttur er þetta hjá þingmanni í garð þingmanns? Þetta mál er gott mál og það er stórt mál og á að ræðast hér. En það er ekki hægt að ræða það fyrr en það liggur fyrir framlagt af þeim sem eru trúnaðarmenn Alþingis á framkvæmdasviðinu. Þess vegna ítreka ég þá ósk mína að hér verði þingfundur um þetta mál, lokaður trúnaðarmannafundur, með trúnaðarmönnum þjóðarinnar og svo trúnaðarmönnum í framkvæmdarvaldinu.
    Hér er talað um alltaf af sama þingmanni, hv. 1. þm. Norðurl. v., að hér sé ekki um að ræða bandalag þjóða. Hvað hefur komið fram í þessari nefnd? Að þetta sé bandalag einhverra fyrirtækja sem hann er að ræða um? Auðvitað er þetta bandalag þjóða. Við erum að tala um hvort Ísland eigi eða eigi ekki að ganga í þetta bandalag þjóða. Þetta er ekkert annað en bandalag þjóða. Og við erum að ræða um viðskiptahagsmuni eins og kom fram hjá bæði formanni nefndarinnar og eins ef ég man rétt hjá hæstv. sjútvrh. Við erum að ræða um að skipta á, kaupa okkur viðskiptahagsmuni með veiðiheimildum og það sé stórhættulegt að vera ekki til viðtals um það. Ég vil segja að ég er alls ekkert til viðtals um að selja veiðiheimildir á neinn hátt, alls ekki. Það kemur líka fram, mátti skilja á orðum formanns nefndarinnar, að það sé verið að loka okkur frá mörkuðum, frá viðskiptum, frá því að börnin okkar geti fengið framhaldsmenntun í menntastofnunum. Það er verið að loka okkur úti eins og óþekka krakka sem koma of seint heim á kvöldin. Hvers lags gæslumenn
hagsmuna þjóðarinnar eru hér á ferðinni? Hvað er að ske? Þarf ekki hæstv. forsrh. að gera svolitla grein fyrir því hvers konar yfirlýsingu eða drög að yfirlýsingu á að fara að ræða? Ég er hræddur um það. Efnahagsnefndin er ekki lengur vettvangur til að ræða þessi mál. Þau eru komin á það stig að það er komið að alþjóðayfirlýsingum. Þá er það Alþingi sem tekur þetta mál upp á lokuðum fundi ef forsrh. óskar eftir því að það sé trúnaðarmál. Það get ég vel tekið undir með honum.
    Hv. formaður nefndarinnar, Kjartan Jóhannsson 4. þm. Reykn., segir að við skulum ræða þetta í rólegheitum, ekki vera að æsa okkur, á sama tíma sem hann gefur til kynna að það sé verið að loka okkur

úti á þann hátt sem ég var að segja áðan. Ef við ekki náum samkomulagi er ekkert annað en viðskiptahagsmunir sem koma til greina frá þeirra hálfu og ekkert annað en veiðiheimildir frá okkar hálfu, þá séu börnin okkar lokuð úti frá menntastofnunum, frá framhaldsnámi. Við skulum ræða þetta æsingarlaust og tala um málið yfirvegað. En hvað erum við að tala um þegar við erum að tala um inngöngu í Efnahagsbandalagið? Ég sagði frá því um daginn í ræðu að gefnu tilefni að ég hlustaði á tveggja tíma samtal við franska forsetann í franska sjónvarpinu fyrir einhvers staðar á milli mánuði og tveim mánuðum. ( KJóh: Við erum ekki að tala um inngöngu í Efnahagsbandalagið.) Við erum að tala um inngöngu í Efnahagsbandalagið. Við erum að tala um inngöngu í EFTA, inngöngu í EB. ( KJóh: Nei.) Heldur hvað? ( KJóh: Við erum að tala um stefnu okkar að ganga ekki í Efnahagsbandalagið.) Við erum búnir að vera að tala um skilmála til þess að fara inn eða fara ekki inn. ( KJóh: Nei. Við erum að tala um samningaviðræður.) Við erum að tala um samningaviðræður. Um hvað erum við að semja? Hvað er Efnahagsbandalagið? ( KJóh: Við erum nú þegar með samning við Evrópubandalagið. Við erum að tala um viðbótarsamning.) Já, en um hvað erum við að semja, hvað erum við að fara inn í? Við erum að tala um að semja um veiðiheimildir eða ekki veiðiheimildir, efnahagshagsmuni, markaði o.fl. Um hvað erum við að semja?
    Það stendur í Tímanum í dag, best að taka forsíðuna fyrst: ,,Óþarfi að skjálfa út af EB eins og lauf í vindi.`` Það er þetta EB sem við erum að tala um. Þar segir forsrh., það er haft eftir honum og ég reikna með að það sé orðrétt og rétt eftir haft: ,,Steingrímur Hermannsson segir``, með leyfi forseta, ,,að vart hafi orðið við óþarfa taugatitring vegna viðræðna um hugsanlega útvíkkun fríverslunarsamninga við EB. Ekki komi til greina að veita einhliða veiðiheimildir innan fiskveiðilögsögu okkar. Hann bendir jafnframt á að við getum ekki neitað að ræða um gagnkvæm skipti á veiðiheimildum þó litlar líkur séu á slíkum skiptum. Við höfum ekkert til að láta af hendi og sama virðist upp á teningnum hjá öðrum.``
    Hér segir hæstv. forsrh. að ekki komi til greina að veita einhliða veiðiheimildir. En hvernig veiðiheimildir koma þá til greina? Það er ekki einhliða. Þýðir þetta ekki að það er þá samstaða, skulum við segja, ríkisstjórnin er alltaf samstæð, við vitum það, er þá ekki samstaða um, úr því að forsrh. segir þetta í sínu málgagni, að einhvers konar veiðiheimildir komi til greina? Ég veit ekki betur en að formaður efnahagsnefndar okkar hafi sagt hér áðan að við skyldum ekki vera hræddir við að tala við þá því að ef við ekki gerðum það og ef við ekki næðum einhvers konar samningum taldi hann upp að við gætum orðið útilokaðir frá menntastofnunum, við gætum orðið útilokaðir frá hinu og þessu sem hann taldi upp. Það er verið að tala um samninga, virðulegur þingmaður. Þess vegna eru frammíköll af

því tagi sem voru áðan óþörf. Við erum að tala um sama málið.
    Og hvað erum við að tala um? Hvað sagði hæstv. utanrrh. og vitnaði þá í gjörðir hæstv. sjútvrh. í þessari grein í Tímanum, þeirra málgagni, í morgun? Þar segir, með leyfi forseta: ,,Það eina sem hefði gerst nú væri að sjútvrh. hefði lýst því yfir að ef EB hefði einhverjar óskir sem svar við okkar óskum um að horfið yrði til ástandsins eins og það var fyrir breytinguna 1986 þegar tollfrelsi var numið af okkar saltfiskafurðum, þá værum við tilbúnir að hlusta á þær.``
    Er þetta bara ekki boð um að semja ef þeir hafa einhverjar óskir? Ráðherra er búinn að bjóða það, hann er búinn að opna möguleika á viðræðum um þessi mál. Hann gerir það í heimildarleysi hvað Alþingi snertir. Hann hefur engar heimildir til þess að tala svona. Þetta eru mál sem eiga að ræðast á Alþingi og framkvæmdarvaldið á svo að fylgja því eftir.
    En um hvað erum við að semja? Það sem ég sagði frá í ræðustól síðast þegar við töluðum um þetta voru tilvitnanir í ræðu, eða ekki ræðu heldur langt viðtal, um tveggja tíma viðtal við Frakklandsforseta og Frakkarnir hafa verið leiðandi í þessu bandalagi og uppbyggingu þess. Þeir eru ekki hálfnaðir í þeirri uppbyggingu. Hann var fyrst og fremst að segja frá því að það væri komið samkomulag um að nota eina mynt, ECU. Meira að segja voru sýndar á sjónvarpsskerminum myndir af myntinni eins og hún er væntanleg. Það er búið að verðleggja hana eins og hún stæði þá í dag. Það er komið þetta langt. Hann var að segja frá tollabandalagi sem þýddi að landamæri þjóðanna væru felld niður eins og þau eru nema ytri landamærin. Hann var að segja frá því að það yrði
sameiginleg tollgæsla með samræmdum lögum um tollgæslu, með samræmdri lögreglu til að fylgja því eftir. Þetta er það sem við vorum að tala um og er komið á lokastig núna. Þetta er það sem á að taka gildi 1992. Og þá segi ég: Þó að ég sé ekki alltaf hrifinn af hv. 2. þm. Austurl. og við höfum oft eldað grátt silfur er það nú þannig að mér fannst hann flytja alveg frábæra ræðu áðan. Ekki getur hún verið mér að skapi vegna þess að við séum pólitískir samherjar því við höfum verið einhverjir mestu pólitískir andstæðingar á þingi sl. 14 ár. Við erum ekki bara, ef ég má taka til orða eins og hv. 4. þm. Reykn., ,,að brjóta niður múra``. Við erum að brjóta niður gamla múra til að byggja nýja. Hann gaf til kynna í sinni ræðu að ef við ekki værum góðu börnin og kæmum heim fyrir klukkan þetta værum við lokaðir úti, værum við bara utan við þessa múra. Og þá á að hegna okkur með því, sem ég vil ekki trúa af þeirri þekkingu sem ég hef á þessu fólki sem ég bjó með árum saman, að þeir fari að gera það eitthvað erfiðara fyrir okkur að semja við bandaríki Evrópu, ef það má kalla þetta það, eins og við semjum á milli þjóða núna eftir að þetta bandalag er komið af stað. Ég held að það lokist engar dyr. Þetta eru allt

samkomulagsatriði á þann hátt sem við erum að gera samninga núna án þess að tapa nokkru af okkar sjálfstæði á einn eða annan hátt. Það er verið að byggja nýja, sterkari og hærri múra en fyrir eru.
    Ég er alveg sammála hv. þm., formanni nefndarinnar. Við eigum ekki að vera hræddir við breytingar breytinganna vegna, en við skulum átta okkur á því áður en við förum út í breytingar hvort við þurfum nokkuð á breytingum að halda. Við skulum fara skref fyrir skref, en ekki taka eins konar þrístökk eða langstökk í málunum og lenda svo í einhverjum forarpolli.
    Framsfl. hefur skipt um skoðun í gegnum árin og hann hefur farið marga hringi. Þegar Jónas Jónsson talaði um þessi mál, utanríkismál Íslands og viðskiptamál, lagði hann áherslu á, framsóknarmenn hefðu gott af því að lesa þá grein, hún er merkileg að mörgu leyti, og hann varaði frekar við of sterkum böndum með hliðstæðum orðum og hv. 14. þm. Reykv. gerði áðan. Hann lagði mikla áherslu á að þó við hefðum sterk bönd og góð viðskipti við Evrópu væri leiðin til bjargar fyrir Ísland framtíðarinnar, eins og hann orðaði það, ,,leið Leifs Eiríkssonar``. Og hann ,,fílósóferaði`` í langri ræðu á mjög einfaldan og skiljanlegan hátt þannig að hún er vel læsileg, þessi ræða Jónasar, og á við enn þann dag í dag, um leið Leifs Eiríkssonar, virðulegu framsóknarmenn. Ég bið ykkur um að lesa hana því að þið hafið tapað áttum.
    Það kom fram hjá hæstv. sjútvrh. að við yrðum að vera opnir til að semja ef það kostar okkur að veita einhverjar veiðiheimildir til þess að fá aðgang að mörkuðum vegna þess að við þurfum að flytja sem mest út fullunnið. Þetta hefur verið rétt miðað við þá stefnu sem við höfum haft undanfarin mörg ár. En það hlýtur einhvern tímann að koma að því að við lærum af reynslunni. Það hlýtur einhvern tímann að koma að því að við spyrjum: Hvernig stendur á því þegar við erum búnir að fullvinna vöruna, eins og hæstv. ráðherra gat um áðan, að varan óunnin gefur okkur meira í tekjur? Þetta er staðreyndin undanfarin ár. Hvernig stendur á því? Hvar höfum við stigið feilspor? Ef þetta heldur áfram að verða stefna íslenskra stjórnvalda, ég er ekkert að tala um ríkisstjórnina eins og hún er núna, ég er að tala um ríkisstjórnir undanfarinna ára, ef niðurstaðan í dag, hvenær sem það er ,,í dag``, er sú að okkar undirstöðuatvinnuvegur þolir ekki að fullvinna vöruna hér, er þá ekki kominn tími til þess að við spyrjum: Hvers vegna? ( Gripið fram í: M.a. tollar.) Nei, tollarnir eru hér líka á vörunum sem koma ,,þaðan``, hvaða land sem það er, og þeir eru borgaðir og bornir uppi af því fólki sem er í landinu sem er viðtökulandið. Við skulum ekki halda áfram að blekkja okkur. Svo lengi sem við höldum áfram þessum blekkingaleik til að komast í gegnum daginn en hugsum ekki um markaðinn á morgun og áfram er niðurstaðan þessi: Það borgar sig ekki að fullvinna vöruna. Efnahagsbandalagið breytir engu þar um.
    En áður en hæstv. forsrh. hleypur úr salnum vil ég ítreka að þau drög að yfirlýsingu sem forsrh. hefur

upplýst að verði undirrituð, ég man ekki hvort hann sagði að þau yrðu undirrituð en alla vega rædd, forsætisráðherrar EFTA-ríkjanna hljóta að leggja vinnu einungis í það sem á að bera árangur svo það hlýtur að liggja fyrir að þau verði undirrituð, verði rædd á Alþingi á lokuðum fundi í trúnaðarmannahópi. Nefndin sem slík er enginn trúnaðarmannahópur hvað mig snertir í ákvarðanatöku og áliti á því sem á að fara að semja um og undirskrifa erlendis. Þegar nafn forsrh. landsins er komið á blaðið er það talið bindandi og þá er reiknað með samþykkt Alþingis þjóðarinnar.
    Ég óska eftir því að sá fundur sem átti að vera með nefndinni verði með réttum aðilum. Hann verði með mér og öðrum sem erum kosnir trúnaðarmenn þjóðarinnar. Forsrh. er trúnaðarmaður þeirra sem voru kosnir af þjóðinni. Það er Alþingi sem kýs ríkisstjórnina. Og þessi væntanlega tillaga, drög sem hafa komið að utan, verði rædd í framhaldi af þessum umræðum og þangað til boðað verður til fundar til að ræða þau mál verði fundi frestað og það verði áfram undir því dagskrármáli sem hér er nú á dagskrá utan dagskrár. Það er ekki
nefndarinnar að ráðleggja forsrh. um gæði þeirra draga sem hafa komið að utan. Það er ekkert víst að það sé alltaf best sem kemur að utan.