Afstaða Íslands á fundi EFTA-landanna
Fimmtudaginn 09. mars 1989

     Kristín Einarsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið og þakka hæstv. forseta fyrir að leyfa umræðuna. Ég tel að umræðan hafi leitt í ljós að full nauðsyn hefur verið að hreyfa við þessu máli í þinginu.
    Ég veit ekki hvort ég á að vera að svara nokkru því sem hv. 1. þm. Norðurl. v. Páll Pétursson var að segja um pólitískt upphlaup og annað. Ég tel það varla svara vert. En ég vil lýsa því sem að þessari margumtöluðu EB-nefnd snýr. Það er rétt að við höfum fengið drög sem trúnaðarmál í tvígang. Einu sinni þegar við vorum úti í Genf og einu sinni eftir að við komum heim. Við höfum aldrei haft nein tækifæri til að ræða þessi drög eða hafa áhrif á þau. Alla vega hefur mér ekki gefist tækifæri til þess. Síðan höfum við frétt að það væru komin kannski einhver drög í viðbót. Við fréttum það frá Noregi að það séu komin ný drög. Ég reikna með því að það sé það sem við erum boðuð á fund nú til að ræða. Ég veit ekki hversu mikil áhrif við getum haft á þau, en það á þá eftir að koma í ljós.
    Ég hef ekki svo miklar áhyggjur endilega af sjálfri mér. Ég hlýt að hafa áhyggjur af öðrum þingmönnum hér eins og fleiri hafa reyndar komið inn á.
    Hæstv. forsrh. minntist á það áðan að það væri meiningin að kalla saman þennan fund með EB-nefndinni ásamt fleiri aðilum, aðilum vinnumarkaðarins. Ég tel það ekki vera nægilegt. Við erum með utanrmn. hér og eins og ég gat um áðan er reiknað með því að utanrmn. hafi samráð við nefndina í meiri háttar utanríkismálum.
    Forsrh. minntist líka á það áðan að við ættum að geta haft samráð við okkar þingflokka eftir fund í dag. Ég veit ekki hvernig við ættum að geta farið að því því að það eru ekki margir dagar þangað til að hann fer af landi brott. Ef ég man rétt sagði hann mér að hann færi á sunnudag. Þannig er lítill tími til samráðs við þingflokka ef við eigum að geta gert það á þessum stutta tíma sem er fram á sunnudag.
    Ég tel hins vegar að umræðurnar hafi verið mjög gagnlegar og nauðsynlegar og það hafi ekki komið fram neinn ágreiningur. Það hafa allir verið mjög sammála og ég held að það þurfi ekki að hafa neinar sérstakar áhyggjur af því.
    Ég hefði talið eðlilegra að það hefði verið haft samráð við utanrmn. þingsins varðandi þau drög sem þá hafa legið fyrir. Ég skil mjög vel að forsrh. geti ekki upplýst um drög að ályktun Oslóarfundarins í einstökum atriðum. Hann hefur hins vegar lýst yfir í megindráttum hvers konar afstöðu hann muni taka þó að það sé ekki ljóst nákvæmlega hvernig þessi drög eru orðuð.
    Ég vil hins vegar vekja athygli á því að þó svo að þessi nefnd sé ekki þingnefnd eru flestir aðilar hennar í utanrmn. eins og kom fram hjá hv. þm. Eyjólfi Konráði Jónssyni. Ég vil þó benda á að formaður utanrmn. er ekki í þessari nefnd. Ég veit að vísu ekki hvort hann hefur verið boðaður til fundarins á eftir, en mér þykir bara það eitt vera galli á því að ekki skuli

vera haft samráð við utanrmn. Það hefði vel verið hægt á fyrri stigum þessa máls þó svo að endanleg drög hafi ekki legið fyrir.
    Ég hlýt að vona og vil túlka þau ummæli forsrh. sem hann hefur viðhaft hér þannig að hann muni ekki taka neinar afdrifaríkar ákvarðanir án samráðs við Alþingi. Þetta eru mjög mikilvægar ákvarðanir sem við stöndum frammi fyrir.
    Áhyggjur mínar varðandi þetta mál eru e.t.v. enn meiri en annars hefði verið ef hæstv. sjútvrh. hefði ekki vakið máls á því sem komið hefur margoft fram hér í dag um veiðiheimildir innan íslenskrar lögsögu. Ég tel alls ekki koma til greina að skip frá Evrópubandalaginu fái leyfi til að veiða innan íslenskrar fiskveiðilögsögu. Ég tel það vera mjög misráðið að fara að ræða um það núna. Í máli hæstv. forsrh. kom fram áðan að hann væri mjög bjartsýnn á að á fundinum í Osló mundi nást samkomulag um fríverslun með fisk innan EFTA sem ég tel mjög mikilvægt og allir eru sammála um að er mjög mikilvægt varðandi samninga við Evrópubandalagið. Ég hefði talið það vera mikið stærri og meiri áfanga og síst af öllu okkur til framdráttar að ræða núna um fiskveiðiheimild til Evrópubandalagsins innan okkar lögsögu. Ég á því enn erfiðara með að skilja hvers vegna hæstv. sjútvrh. telur nú tímabært að vekja upp þennan gamla draug varðandi heimildir innan fiskveiðilögsögu Íslands.
    Umræðurnar í dag hafa m.a. orðið til þess að yfirlýsingar hafa komið fram um hve jákvæð áhrif það mundi hafa ef frelsi fjármagnsins yrði ótakmarkað og menn hafa rætt fram og til baka um ýmislegt annað en það sem ég hafði viljað vekja athygli á. Ég hóf mál mitt ekki til að ræða eins almennt eins og margir hafa gert um hvað Evrópubandalagið er að gera þó að það sé fyllilega ástæða til að gera það á þessum vettvangi. Frelsi fjármagnsins verður e.t.v. staðreynd innan skamms tíma, en hvað af því muni leiða hefur allt of lítill gaumur verið gefinn. Þó svo spá um aukinn hagvöxt og aukna peningalega hagkvæmni verði að veruleika er alls ekki víst að það muni verða fólkinu til góðs.
    Hv. þm. Kjartan Jóhannsson talaði í talsvert löngu máli um ágæti Evrópubandalagsins og hve nauðsynlegt er, að því er mér skilst, að við gerum eins og þeir hafa gert. Á máli hans var einnig hægt að skilja að best væri fyrir okkur að hætta að reyna að hafa stjórn á efnahagsmálum, þá mundi þetta
allt saman batna hér á landi, opna bara allar flóðgáttir og þá mundi allt lagast.
    Þingmaðurinn hafði ekki miklar áhyggjur af yfirþjóðlegum valdastofnunum og valdaafsali okkar á sjálfsákvörðunarrétti okkar. Hann taldi mig hafa talað í vandlætingartóni um þessi mál. Ég hafði verulegar áhyggjur af því að við værum að afsala okkur sjálfsákvörðunarrétti einmitt vegna þeirra draga sem ég hef að yfirlýsingum Oslóarfundarins. Og ef hv. þm. Kjartan Jóhannsson hefur heyrt vandlætingartón held ég að heyrnin hafi e.t.v. eitthvað brugðist þingmanninum. Frekar held ég að það hafi verið um

áhyggjutón að ræða en vandlætingartón.
    Virðulegur forseti. Það væri hægt að ræða mikið og lengi um þessi mál, en ég held að það sé kominn tími til að ljúka þessu. Ég treysti því að forsrh. bindi á engan hátt hendur þingsins eða þjóðarinnar í Osló. Hann hefur lýst því yfir að hann muni ekki fallast á neinar yfirþjóðlegar ákvarðanatökur innan EFTA, enda sé ekki verið að afsala neinum rétti í drögum að yfirlýsingu Oslóarfundarins.
    Ég fagna þessari yfirlýsingu forsrh. og ég verð að segja að mér er mikið rórra eftir þessa umræðu í dag og ég endurtek að ég held að hún hafi verið til góðs. Ég fullyrði að það er vilji meiri hluta Íslendinga að við afsölum okkur ekki í neinu sjálfsákvörðunarrétti okkar.