Byggingarsjóður námsmanna
Mánudaginn 13. mars 1989

     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég vildi aðeins segja nokkur orð hér til þess að lýsa stuðningi mínum við þá meginhugmynd sem fram kemur í þessari þáltill. um stofnun sérstaks byggingarsjóðs fyrir námsmenn.
    Eins og fram kom í máli hv. frsm. búa námsmenn við mikil ókjör hvað húsnæði varðar og ég vildi benda á örfá atriði sem snerta námsmenn, ekki bara á því skólastigi sem hér ræðir aðallega um heldur einnig á framhaldsskólastiginu. Í janúar sl. var húsnæðiskostnaður námsmanna, þ.e. einstaklings sem ekki býr í foreldrahúsum, reiknaður 5.397 kr. í þeim útreikningum sem Lánasjóður ísl. námsmanna leggur til grundvallar. Leiga á stúdentagörðunum hér við Háskóla Íslands var 8.800 kr. á mánuði þannig að þar nær sá húsnæðiskostnaður sem Lánasjóðurinn gerir ráð fyrir ekki einu sinni ódýrustu húsaleigu sem nemendur eiga kost á hér í höfuðborginni.
    Hér hefur verið gerð ítarleg grein fyrir þörfinni á auknu húsnæði fyrir námsmenn og ætla ég ekki að fara nánar út í þá sálma. Ég vildi hins vegar benda á að í fskj. II er bréf frá Bandalagi ísl. sérskólanema. Það eru nemendur sem eru að hluta til á framhaldsskólastigi en aðrir á háskólastigi eins og t.d. við Kennaraháskólann og fleiri skóla. Ég vil ekki láta hjá líða við þessa umræðu að benda á að það ríkir líka mjög bágt ástand í húsnæðismálum framhaldsskólanema, þ.e. þeirra sem stunda nám í hefðbundnum framhaldsskólum og eiga ekki aðild að Bandalagi ísl. sérskólanema. Ég tel vera mikla þörf á að taka upp þeirra húsnæðismál ekki síður en þeirra sem eru á háskólastigi. Á undanförnum árum hafa verið stofnaðir margir nýir framhaldsskólar, og hefur það reyndar gjörbreytt aðstöðu nemenda til náms um allt land en þó er það svo enn þá að námsframboð er og verður trúlega alltaf nokkru meira hér á höfuðborgarsvæðinu en við smærri skólana úti á landsbyggðinni. Við flesta framhaldsskólana úti á landsbyggðinni hafa verið byggðar heimavistir. Engin þeirra annar eftirspurn nemenda eftir húsnæði. Hér á höfuðborgarsvæðinu er einungis um að ræða 36 pláss fyrir nemendur á heimavist við Sjómannaskólann í Reykjavík. Ég vildi aðeins koma þessu á framfæri við þessa umræðu að það þarf ekki síður að hugsa um þá sem yngri eru og þurfa að fara að heiman um 16 ára aldur. Það getur reynst mörgum unglingnum mjög erfitt að byrja í nýjum skóla í nýju umhverfi fjarri fjölskyldu sinni og það er mikil hætta á félagslegri einangrun. Það má t.d. líka benda á að fæði margra þeirra nemenda sem þannig búa er með öllu ófullnægjandi.
    Ég vil líka aðeins geta þess að 1985--1986 voru rúmlega 100 námsbrautir í boði hér við framhaldsskólana í Reykjavík en í því fræðsluumdæmi sem þær voru næstflestar, sem var Norðurl. e., voru þær aðeins 70. Nemendur sem vilja stunda t.d. iðnnám í fámennum greinum, ég get nefnt sem dæmi bifreiðasmíði, þeir eiga ekki annarra kosta völ en að fara til Reyjavíkur og einnig nemendur sem vilja leggja stund á hárgreiðslu.

    Ég vildi aðeins benda á þetta, en ég styð heils hugar þá hugmynd að komið verði upp sérstökum byggingarsjóði og ítreka að það er brýnt að ráða bót á húsnæðismálum nemenda hvort heldur er á háskólastigi eða framhaldsskólastigi.