Verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða
Mánudaginn 13. mars 1989

     Flm. (Hjörleifur Guttormsson):
    Virðulegur forseti. Á þskj. 111 leyfi ég mér að flytja till. til þál. um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða. Tillagan er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta undirbúa á vegum Náttúruverndarráðs í samráði við yfirvöld orkumála áætlun um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða, fossa og hvera. Slík áætlun verði lögð fyrir Alþingi til kynningar og staðfestingar haustið 1990.``
    Í grg. er þessi tillöguflutningur rökstuddur og ég leyfi mér að nefna hér nokkra þætti sem varða efni tillögunnar.
    Í fyrsta lagi það að vísa til þess að víða eru uppi mikil álitamál varðandi nýtingu vatnsfalla með tilliti til virkjana og hið sama er raunar uppi varðandi hagnýtingu jarðhitasvæða. Sem dæmi um svæði þar sem árekstrar eru auðsæir á milli sjónarmiða hagnýtingar og verndunar má nefna Hvítá í Árnessýslu með Gullfossi og gróðurlendi við Hvítárvatn sem færi undir vatn í vatnsmiðlun vegna virkjunar í Hvítá ef til kæmi.
    Ég veit ekki hvort hv. alþm. er kunnugt hversu mikil vinna hefur þegar verið lögð í athugun á virkjun Hvítár í Árnessýslu. Ég get nefnt það því að það er mér í huga persónulega að ég kom nálægt því að mæla þetta svæði sumarið 1956, þá þegar. Á þeim tíma var Raforkumálaskrifstofan tekin að athuga um hagnýtingu á þessu vatnsfalli. Síðan hafa aðrir komið til, þar á meðal Orkustofnun. Það er búið að verja miklum fjármunum til þess að kanna virkjun þessa vatnsfalls með ýmsum hætti, þar á meðal að leiða vatn fram hjá Gullfossi við Haukholt og leiða það síðan inn í farveg Hvítár neðan við Gullfoss. Ég hef einhvers staðar í greinum talað um ,,framhjáhald`` í þessu sambandi, að leiða vatnið fram hjá þekktasta fossi Íslands í sambandi við virkjun árinnar. Þetta er eitt dæmi.
    Svipuðu máli gegnir um Jökulsá á Fjöllum, með Dettifossi og fleiri fossum neðar í ánni. Það hefur þegar verið varið verulegum fjármunum vegna hugsanlegra virkjana sem nýta mundu vatnið í Jökulsá á Fjöllum, m.a. tengt hugmynd um gífurlega stórt miðlunarlón í Möðrudal á Fjöllum þar sem það svæði allt væri undir vatni og spurning hvort kirkjuturninn í kirkju Jóns í Möðrudal stæði upp úr lóninu sem þar ætti að mynda. Það er sem sagt ein af fjölmörgum hugmyndum, en áður voru komnar útfærðar virkjunaráætlanir varðandi Dettifoss sérstaklega og virkjun í gljúfrinu rétt neðan við Dettifoss ofan við Hafragilsfossinn, eða á þeim slóðum.
    Ég bendi ekki á þessi dæmi vegna þess að þau séu einstök, heldur varða þau vatnsföll sem eru mjög þekkt og fossa sem eru flestum kærir sem þá hafa séð. En þannig eru álitamálin svo tugum ef ekki hundruðum skiptir í sambandi við hagnýtingu vatnsfalla.
    Af jarðhitasvæðum má nefna t.d. Hengilssvæðið og Torfajökulssvæðið, hið fyrrnefnda nær hagnýtingu og þegar til umræðu og ákvarðana varðandi hagnýtingu.

Í því sambandi má auðvitað vísa til Nesjavallasvæðisins sem þegar er verið að virkja.
    Það er mikil þörf á því að komið verði við forgangsröð sem byggð verði á skilmerkilegu, fjölþættu mati á landnýtingarhagsmunum og verndarsjónarmiðum varðandi vatnsföllin og einnig jarðhitasvæðin og það fyrr en seinna, áður en lengra er haldið í þessari hagnýtingu.
    Á vegum Náttúruverndarráðs hefur vissulega farið fram mikil vinna og gagnaöflun til að flokka vatnsföll og fossa, jarðhitasvæði og einstaka hveri út frá verndargildi og einnig votlendissvæði og aðrar gróðurvinjar á hálendinu sem gætu orðið í hættu vegna vatnsmiðlana. Með tillögunni er að finna fylgiskjöl í formi korta að verulegu leyti, sem draga fram mat náttúruverndaraðila, Náttúruverndarráðs og aðila sem unnið hafa á þess vegum, varðandi verndargildi nefndra þátta, fossa, jarðhitasvæða og votlendissvæða í landinu. Þar er einnig að finna sérstakt fylgiskjal yfir vatnasvæði sem eru talin í sérstakri hættu, flokkun sem tengist vinnu á vegum Norðurlandasamstarfs varðandi verndun vatnasvæða.
    Það hefur oft verið fjallað um þessi mál, t.d. á náttúruverndarþingum, og ályktað um þessi atriði varðandi undirbúning orkumannvirkja, það sjónarmið sett fram að strax í upphafi þurfi að ganga úr skugga um umhverfisáhrif vegna hugsanlegra virkjana og einmitt að búa þurfi til forgangsröð með hliðsjón af umhverfis- og náttúruvernd. Þessi mál hafa hins vegar ekki komið hér inn á vettvang Alþingis í því formi að þau væru til ákvörðunar eða ályktana fallin af hálfu þingsins, nema í tengslum við deilur um einstakar virkjanaframkvæmdir, undirbúning virkjana, þar sem skoðanir hafa verið mjög skiptar og gæti ég nefnt mörg dæmi þar að lútandi, allt frá Laxá í Þingeyjarsýslu til Blönduvirkjunar sem nú er verið að byggja.
    Það er eðlilegt að stefnt sé að því að áætlun eins og tillagan gerir ráð fyrir verði fullmótuð af hálfu Náttúruverndarráðs í samvinnu við orkuyfirvöld fyrir næsta náttúruverndarþing sem halda á eftir gildandi lögum á árinu 1990. Þar væri hægt að leita viðbragða, en málið yrði síðan lagt fyrir Alþingi að því búnu.
    Ég minni á að það er farvegur á milli Náttúruverndarráðs og orkuyfirvalda
þar sem er sérstök samráðsnefnd Náttúruverndarráðs og iðnrn. sem hefur starfað allt frá árinu 1972 og fjallað um virkjanaáform og umhverfisáhrif sem fylgja mundu ef til framkvæmda kæmi. Til þessa farvegs var stofnað af Magnúsi Kjartanssyni iðnrh. á nefndu ári og starf þessarar nefndar, sem er enn til og virk að einhverju leyti, hefur verið mjög mikilvægt og dregið úr árekstrum. Ég segi ekki að það hafi hindrað árekstra í þessum efnum, en í öllu falli hefur verið fjallað um málin frá báðum hliðum.
    Það er eðlilegt að mati flm. að Náttúruverndarráð hafi forgöngu um gerð verndaráætlunar, en jafnnauðsynlegt er að yfirvöld orkumála komi sínum sjónarmiðum á framfæri þannig að hvort tveggja liggi fyrir Alþingi í þeirri áætlun sem ég geri ráð fyrir að

lögð verði fyrir þingið.
    Ég vísa til vinnu í nágrannalöndum, þá sérstaklega í Noregi þar sem aðstæður eru um margt svipaðar og hjá okkur og mjög lengi hefur verið unnið að þessum málum, vatnsafl virkjað meira en hér á landi og fyrr. Kannski má segja að Norðmenn hafi tekið seint við sér í þeim efnum en síðan það gerðist svona á sjöunda áratugnum hefur verið staðið býsna skilmerkilega að þeim málum. Ég hef hér handa á milli stutt yfirlit yfir kjarnann úr þingsályktun eða skýrslu, Stortingsmelding, sem lögð var fyrir norska Stórþingið 1984--1985 og er í endurmati á vegum umhverfisráðuneytis Norðmanna. Þar er að finna flokkun á vatnsafli sem eftir er að nýta og þar sem spurningin er um hagnýtingu eða verndun út frá fjölþættu mati. Ég tel vænlegt fyrir þá þingnefnd, hv. félmn. sameinaðs þings, sem ég legg til að fái þetta mál til meðferðar, að hún kynni sér hvernig að þessum málum hefur verið staðið hjá Norðmönnum og hvernig að því er unnið um þessar mundir, svo og að sjálfsögðu að átta sig á stöðu mála á vegum þeirrar samstarfsnefndar sem hefur unnið að þessum málum.
    Ég treysti því að þetta mál fái jákvæðar undirtektir hér. Það er mikið í húfi og hlýtur að vera hugur allra hv. alþm. að það verði greindir hagsmunir sem tengjast þessum málum í tæka tíð áður en farið er að verja stórum fjárhæðum í undirbúning til hagnýtingar, þannig að menn geti sparað sér þær krónur ef samstaða er um það að vernda viðkomandi náttúruverðmæti í formi vatnsfalla og fossa sem þeim tengjast, votlendissvæða sem kynnu að fara undir vatnsmiðlanir og svo ekki síður jarðhitasvæðin okkar með ómetanlegum náttúrugersemum víða þar sem eru jarðhitamyndanir og hverir.
    Tillaga mín, virðulegur forseti, er sem sagt að að lokinni þessari umræðu verði till. vísað til hv. félmn.