Íslenskt mál í sjónvarpi
Mánudaginn 13. mars 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég vil taka eindregið undir efni þessarar till. og þakka hv. flm. fyrir frumkvæðið. Okkur veitir ekkert af hverju því ráði sem tiltækt er til að sporna gegn hnignun íslenskrar tungu því svo sannarlega steðjar að henni mikil hætta. Um það eru flestir sammála og öðru hverju hafa stjórnvöld rumskað og jánkað hugmyndum um aðgerðir til varnar. Tillögur um þetta efni hafa verið samþykktar öðru hverju hér á Alþingi en því miður hefur framkvæmdin yfirleitt runnið út í sandinn.
    Ég minnist þess t.d. að í apríl 1984 stóðum við hér og ræddum tillögu um kennslu í framburði íslenskrar tungu og málvöndun, bæði í grunnskólanámi og ríkisfjölmiðlum. A.m.k. átta þingmenn tóku þátt í umræðunum sem voru bæði skemmtilegar og fróðlegar og féllu mörg orð um þennan dýrmæta fjársjóð þjóðarinnar og mikilvægi þess að varðveita hann sem allra best. Þessi till. var síðan samþykkt í þinglok 1984. En ekki kann ég nú neinar frægðarsögur af framkvæmd málsins og ég held satt að segja að aðrir kunni það ekki heldur, a.m.k. hefur hún þá ekki vakið mikla athygli né orðið til mikils gagns.
    Í þessum umræðum talaði m.a. þáv. hæstv. iðnrh., Sverrir Hermannsson, áhugamaður um íslenskt tungutak og síðar menntmrh. Hann sagði þar frá tillögu sem hann hafði flutt ásamt fjórum öðrum þingmönnum árið 1977--1978 um kennslu og fræðslu í öllum greinum móðurmálsins í sjónvarpi og útvarpi, en umsjón með framkvæmd málsins átti að hafa 13 manna ráð kosið hlutfallskosningu á Alþingi. Tillagan var samþykkt töluvert útþynnt og m.a. fellt niður ákvæðið um framkvæmdaráð málsins. Þessi tillaga var sem sagt samþykkt í þinglok 1978, en eins og fram kom í máli Sverris Hermannssonar í fyrrgreindum umræðum, þá fer nú ekki öðrum sögum af framkvæmdinni en þeim að tillagan var aldrei framkvæmd. Minnir það okkur enn einu sinni á þá staðreynd að framkvæmdarvaldið liggur á því lúalagi að hundsa vilja Alþingis sem fram kemur í hinum ýmsu tillögum sem við samþykkjum hér á hverju ári.
    Þarna eru þá tvær tillögur svipaðs eðlis og sú sem hér er til umræðu sem voru samþykktar en aldrei framkvæmdar og sjálfsagt kunna þingreyndari menn að segja frá fleiri slíkum af þessu sama tagi. Þetta verkar auðvitað ekki beinlínis uppörvandi en má þó ekki draga úr okkur allan kjark.
    Ég get tekið undir margt í grg. með þessari till. og í ræðu hv. 1. flm. en margt fleira mætti færa fram til rökstuðnings. Hér er t.d. ekki minnst á þá hættu sem tölvunotkun hefur í för með sér, en oft er tölvutexti illa unninn og til vansa að mínu mati. Algengt er t.d. að það vanti kommur yfir stafi sem er nokkuð séríslenskt fyrirbrigði og textinn er þá afar ankannalegur þegar þetta fyrirbrigði fær ekki aðgang. Þá ráða tölvurnar illa við íslenskar orðaskiptingar og dagblöðin a.m.k. úa og grúa af sóðalegum villum af því tagi. Það getur jafnvel vafist stundum fyrir manni að skilja orðin þegar búið er að misþyrma þeim á þennan hátt. Þannig vill nú því miður fara með margt

þegar vélar eru látnar taka við af mönnunum. Það er ekki alltaf til bóta og a.m.k. verður maðurinn að gæta þess að láta ekki tæknina taka af sér öll ráð.
    Í grg. er minnst á stofnanamálið sem fer ákaflega í taugarnar á mörgum og þar á meðal þeirri sem hér stendur. Það er oft verulegt átak að lesa opinberar skýrslur og greinargerðir og jafnvel þingskjöl, ekki síst þau sem koma frá ráðuneytunum, því að málið er óljóst og oft illskiljanlegt. Menn skilja það jafnvel ekki alltaf sjálfir sem eiga að túlka það, sbr. orðið ,,afgjaldskvaðarverðmæti``, sem kom til tals hér í sölum Alþingis fyrr í vetur. (Gripið fram í.) Afgjaldskvaðarverðmæti. Við fengum reyndar að vita eftir dúk og disk og mikla eftirgrennslan fyrir hvað þetta orð stæði. En orðsins hljóðan var jafnóskiljanleg eftir sem áður.
    Annað dæmi er reyndar úr máli hv. 1. flm. þessarar tillögu í umræðum hér fyrir ekki löngu, þar sem hann talaði hvað eftir annað um ,,virðismat aflafengs`` og hafði vafalaust upp úr opinberri skýrslu. Ég sé það alveg fyrir mér orðið að einu orði ,,aflafengsvirðismat`` og svona mætti vafalaust telja mjög lengi. Þannig veitti mörgum stofnunum og ráðuneytum ekki af snjöllum málfarsráðunauti og best væri að gefa út orðabók með skýringum á stofnanamáli. Ég held að það væri þörf á því rétt eins og nýlega var gefin út orðabók yfir slanguryrði.
    En það er sannarlega ástæða til aðgerða af hálfu stjórnvalda til þess að veita viðnám gegn þeim ofsóknum sem íslensk tunga má sæta. Ein slík aðgerð felst í þessari till. og ég styð hana eindregið.