Íslenskt mál í sjónvarpi
Mánudaginn 13. mars 1989

     Þórhildur Þorleifsdóttir:
    Virðulegi forseti. Þessi till. er fyllilega tímabær því að þess sér alls staðar stað að kunnáttu fer hnignandi í meðferð málsins. Sérstaklega verður þessa vart opinberlega, í fjölmiðlum og, eins og síðasti hv. ræðumaður tók fram, í svokölluðu stofnanamáli og sjáum við þess víða stað í þeim plöggum sem við fáum í hendur. Hv. síðasti ræðumaður tók nokkur dæmi þar að lútandi og ég get ekki varist því að nefna dæmi þar sem jafnvel fjármagn eða vextir fara að lifa sjálfstæðu lífi. Svo mikið vægi fá þessi orð í texta að þau sprikla þar sjálfstæð og virðast ráða framgangi mála.
    En eflaust eru það börn og unglingar sem eiga mest undir högg að sækja. Þau verða fyrir mestri áreitni, bæði í sjónvarpi, myndböndum og í erlendri popp-tónlist. Eflaust er minna lesið fyrir þau heldur en gert var og þau ekki vanin við lestur eins og áður var og sjálfsagt er líka minna talað við þau inni á heimilum og þau læra tungumálið meira hvert af öðru en af fullorðnu fólki.
    Í gærkvöldi var í sjónvarpinu sagt frá athyglisverðu átaki sem var gert að mig minnir í Flataskóla í Garðabæ. Þar lýsti hver kennarinn á fætur öðrum áhyggjum af málfari barna og unglinga og sérstaklega notkun enskuslettna og síðan var talað við nokkur börn. Greinilegt var að þau verkefni og sú vinna sem kennarar höfðu sett í gang í þeim tilgangi að bæta þarna úr hafði vakið mikinn áhuga barnanna. Þau lýstu öll áhuga sínum á því að bæta sitt málfar og voru með heitstrengingar eins og það að þau ætluðu aldrei aftur að sletta ensku hvernig sem þeim gengur nú að lifa lífinu án þess. En kennarar þarna lýstu því yfir að þeir vildu gjarnan taka höndum saman við aðra kennara í landinu og að þetta næði víðar. Auðvitað væri best að einhvers konar landsátak yrði gert í þessu sambandi því að þannig vekti það athygli fleiri og næði sjálfsagt betri árangri.
    Í vetur hefur það verið mjög áberandi í fjölmiðlum, sérstaklega í hljóðvarpi, í þáttum sem fjalla um íslenskt mál að þar hafa menn aftur og aftur brýnt fyrir foreldrum að lesa fyrir börn og lesa með þeim og ræða svo við þau um efnið á eftir til þess að reyna að efla málkennd þeirra og tengja þau meira bókinni. Í gær var t.d. Illugi Jökulsson með athyglisverða fjölmiðlagagnrýni í útvarpi þar sem hann á mjög áhrifaríkan hátt hermdi eftir nokkrum sem hann hafði hlýtt á í hljóðvarpi og vakti athygli á orðfæð og því hvernig orð og orðasambönd komast í tísku og hver étur upp eftir öðrum og notar í tíma og ótíma. Þættirnir Daglegt mál og Íslenskt mál í hljóðvarpi hafa eflaust gert ómælt gagn mörg undanfarin ár og er oft ótrúlegur sá áhugi sem almenningur sýnir á þessum þáttum og þar með tungumálinu og tekur oft á lifandi hátt þátt í þeirri umræðu sem fer fram í þessum þáttum.
    Svipaðir þættir yrðu eflaust áhrifaríkari í sjónvarpi því að þar má nota myndmálið margumtalaða með þeim hætti að skýra það sem um er talað og ekki sakar að hafa sýnileg dæmi um það sem til fellur

hverju sinni. Þetta ætti að vera tiltölulega ódýrt efni og auðvelt í framleiðslu. Fyrir nokkrum árum var að vísu gerð svipuð tilraun í sjónvarpi en hún tókst fremur illa því að slíkur var hátíðleikinn og framsetningin öll svo settleg og þurr að flestir hafa eflaust flýtt sér annaðhvort að slökkva á sjónvarpinu eða að nýta tímann í eitthvað annað meðan þessi þáttur stóð. Möguleikar sjónvarpsins voru í engu nýttir í þessum þáttum, heldur einungis gert það sem mætti gera með jafngóðu móti í hljóðvarpi.
    Ég held að það sé áríðandi að svona dagskrárgerð tengist fréttum og sé fremur í stuttum þáttum og fleiri heldur en löngum. Þess eru jú dæmi að stuttir fræðsluþættir hafa verið t.d. tengdir fréttum og má þar nefna smádagskrá um áfengismál, um umferðarmál, slys eða slysahættu og -varnir og eflaust eru fleiri dæmi þar um. Það þyrfti svo sem ekki að koma í veg fyrir að öðru hverju væru gerðir myndarlegir þættir sem stæðu lengri tíma um íslenskt mál, en ég býst við að árangursríkast væri að hafa þetta jafnvel tvisvar, þrisvar í viku í nokkrar mínútur í senn strax eftir fréttir. Það gæti í því sambandi verið fróðlegt að kalla stundum fyrir fjölmiðlafólk og herma upp á það ambögur og fá útskýringu frá því sjálfu hvers vegna það orðar hlutina eins og það gerir og kenna því í beinni útsendingu vegna þess að ábyrgð þeirra á málfari þjóðarinnar er mikil. Þetta þyrfti ekki að vera eins og það væri gert í refsingarskyni heldur einungis til þess að taka nýleg dæmi og leiðrétta þau á lifandi hátt fyrir framan þjóðina þannig að báðir aðilar hefðu gagn af.
    Það hafa eflaust margir orðið vitni að því nú á dögunum þegar hæstv. utanrrh. leiðrétti í beinni útsendingu fréttamann sem innti hæstv. utanrrh. eftir því hvort ,,kjósendum hans langaði ekki að vita`` --- og það þarf ekki að fjölyrða það að fréttamaðurinn náttúrlega setti svo ofan við þessa orðanotkun að hæstv. utanrrh. hafði auðvitað yfirhöndina það sem eftir var þáttarins.
    Þó að svona tillögur eða líkar hafi komið fram áður og lítið orðið úr framkvæmd og kannski ekki tekist sem skyldi þegar það hefur verið reynt þá held ég að rétti tíminn sé einmitt núna. Það leynir sér ekki að almenningur hefur nú mjög mikinn og lifandi áhuga fyrir varðveislu tungunnar, þetta er mjög víða rætt, bæði af lærðum og leikum og líklegt að áhugi yrði mikill á svona dagskrárgerð og vona ég að í það verði ráðist hið fyrsta.