Verðbréfaviðskipti
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Herra forseti. Ég tek til máls til að fagna því að þetta frv. er nú komið til 2. umr. og lýsa stuðningi við það. Ég fagna því sérstaklega að horfur eru á að algjör samstaða muni nást á hinu háa Alþingi um að lögfesta þetta mikla þarfamál.
    Hér á landi hafa verið að þróast undangengna áratugi verðbréfasjóðir, að vísu í litlum mæli fram á þá alveg síðasta tíma. Þetta hófst með því að Alþingi samþykkti einróma lög um Fjárfestingarfélag Íslands árið 1970 og auðveldaði stofnun þess félags sem hafði víðtækt starfssvið, m.a. leigukaupaviðskipti, viðskipti með ákveðin verðbréf og ýmiss konar frumkvöðlastörf. Því miður fór nú svo að þó að fjármunir væru talsverðir í því félagi, sem komu að mestu leyti frá einkaaðilum og samvinnuhreyfingu, nýttust þeir ekki sem skyldi því að á þessum tíma var bannað að lána verðtryggð lán eða hafa viðskipti með verðtryggingu og eins og menn vita hófst ný verðbólguskriða 1971 og 1972 sem gerði það að verkum að tilgangur þessa félags náðist ekki fyrr en síðar þegar félaginu fór að vaxa fiskur um hrygg.
    Síðan hafa risið upp fleiri verðbréfasjóðir og slík framkvæmdafélög og á þessu tímabili hefur auðvitað mikið verið unnið að því að reyna að setja reglur um starfsemi þessara sjóða. Það hafa ýmsar nefndir unnið að því. Það hafa þeir sem hafa verið í þessum félögum, forustumenn eða starfsmenn, auðvitað líka reynt að gera, en það hefur verið ljóst í allmörg ár að algjörlega var nauðsynlegt að setja lög hér á hinu háa Alþingi um starfrækslu þessara sjóða ef ekki átti að vera hætta á stórslysum eins og raunar henti eitt félagið á sl. ári og skal ég ekki fara að rifja það hér upp. Það náttúrlega vita allir sem hér eru inni og allir landsmenn hvernig þar fór. Það hefði naumast getað farið á þann veg ef þau lög sem við væntanlega afgreiðum nú hefðu verið í gildi.
    Ég held að bærilegt jafnvægi sé í þessari löggjöf, hún þrengi ekki að sjóðunum þannig að þeir geti ekki sinnt sínu hlutverki en engu að síður sé nægilegt aðhald til þess að stórslys geti ekki hent. Þessu fagna ég auðvitað og endurtek að ég fagna sérstaklega þessari samstöðu því að það er vissulega mikils virði ef Alþingi getur orðið einróma um slíka löggjöf.
    Auðvitað koma fram einhverjir gallar á þessum lögum eins og öðrum mannanna verkum og þróunin á sviði verðbréfaviðskipta í heiminum er nú svo ör og fjármagnsflutninga yfirleitt að við sjáum ekki í dag hvað gerist á morgun, þannig að þessi lög verða auðvitað til endurskoðunar. Við vitum það að Evrópubandalagið stefnir að sameiginlegum fjármagnsmarkaði strax árið 1992 og er raunar komið með hann meira og minna, einkum og sér í lagi í gegnum London og fjármálaviðskipti þar, en Bretar hafa eins og kunnugt er mjög öfluga starfsemi á þessum vettvangi.
    Hjá Evrópubandalaginu og EFTA tala menn um að það megi búast við að innan örskamms tíma, kannski nokkurra missira, verði kominn nokkurs konar heimsmarkaður á fjármál, þeir tala um

,,glóbalmarkað``. Það sé ekki eingöngu að Evrópubandalagið og EFTA muni verða með meiri og minni sameiginlega fjármagnsmarkaði næstum því hvað sem hver segir, það muni þróast þannig, heldur muni tengsl við t.d. Japan og New York aukast þannig að peningastreymið í heiminum verði með allt öðrum hætti en nú hefur verið og fram að þessu. Raunar gera menn jafnvel ráð fyrir að peningar í þeirri gömlu góðu merkingu verði nánast ekki til nema þá kannski til notkunar í strætó og þá kannski bara plastpeningar. Allar meiri háttar greiðslur eru nú þegar komnar í telexsendingar og tölvusendingar þannig að sjóðir á borð við þá sem hér hafa verið að þróast, í mjög litlum mæli að vísu, verða mjög virkir á markaði og við getum ekki sneitt hjá því. Menn tala raunar um að erlendir aðilar geti komist hér inn í bankakerfið með einhverjum hætti. Hvað úr því verður veit ég ekki. En hitt held ég að sé ljóst að við verðum að þróa fjármagnsmarkað í einhverjum takti við það sem er erlendis þó að við verðum að sýna þar fulla aðgæslu, en við höfum allar mögulegar leiðir til að koma í veg fyrir að erlendir aðilar nái okkar meginatvinnuvegum eins og sjávarútvegi með venjulegri löggjöf. Reyndar höfum við gamla og góða löggjöf um bann við því að útlendingar séu í fiskveiðum og fiskvinnslu. Ég held að alla vega sé þetta skref mjög mikilvægt og þess vegna vænti ég þess að við getum afgreitt frv. út úr hv. deild jafnvel í dag þegar menn hafa skoðað þetta með þessum hætti.
    Ég kemst ekki hjá að nefna að inn í frv. var skotið við lokaafgreiðslu hygg ég í Nd. hortitti, svo að ekki séu mikið stærri orð notuð, en það var ákvæði um að Seðlabankinn skyldi koma á bindiskyldu hjá verðbréfasjóðum. Það fyrirbæri hygg ég að hvergi þekkist. Verðbréfasjóðir eru starfræktir með allt öðrum hætti en venjulegar innlánsstofnanir og verða að hlíta markaðnum eins og hann er á hverjum tíma. Raunar var í 2. mgr. þessa ákvæðis, sem skotið var þarna inn, talað um að Seðlabankinn mundi ákveða almenna vexti og getur þá gert það hjá verðbréfamörkuðum líka. Með samþykkt þessa ákvæðis mundi starfsemi verðbréfafyrirtækja nánast verða lögð niður. Það yrði a.m.k. ekkert svigrúm fyrir þá einstaklinga sem litla fjármuni hafa en samt vilja vera á
þessum markaði. Mér er tjáð að í a.m.k. einu af verðbréfafélögunum sé yfir helmingur fólks sem ekki sé með yfir 200 þús. kr. í bréfum sjóðanna. Þetta fólk gæti ekki ávaxtað sína peninga á neinum gangvöxtum á markaði heldur yrði þá að leggja þá inn í sparisjóðsbók, væntanlega á eitthvað talsvert lægri vöxtum en markaðurinn býður. Hinir, sem stærri eru og eru kannski með margar milljónir í veltunni, geta lánað sína fjármuni út, haft um það einhvers konar samtök eða gert það einir og sjálfir. En ef á að þróast heilbrigður fjármagnsmarkaður er alveg fáránlegt að slíkt ákvæði verði fest í lögum og sem betur fer náðist um það full eining að taka þetta ákvæði út. Að vísu boða stjórnarflokkarnir að þeir kunni að fella eitthvað í þessa áttina í önnur lög og þá væntanlega

lög um Seðlabanka. Það mál hefur ekki komið til umræðu í nefndinni enn, en mér er kunnugt um að bankarnir telja nánast útilokað að það sé hægt að framkvæma þann paragraf sem vonandi verður aldrei lagaparagraf.