Stjórn efnahagsmála o.fl.
Þriðjudaginn 14. mars 1989

     Júlíus Sólnes:
    Virðulegi forseti. Hér er verið að gera smábreytingu á mjög umdeildum lögum um stjórn efnahagsmála, sem sett voru vorið 1979, þar sem lánskjaravísitalan fræga var innleidd með lögum. Síðan eru liðin ein tíu ár og ekki fæst séð að þessi lög hafi orðið þess valdandi að koma á stöðugleika í efnahagsmálum á Íslandi hafi það verið hugmyndin með þeim. Hér er að vísu ekki verið að gera annað en koma til leiðar smábreytingu á lögunum sem ég tel út af fyrir sig að sé mjög eðlileg og styð hana, þ.e. að vextir á verðtryggðum lánum verði fastir þannig að lántakendur þurfi ekki að hlíta þeim afarkostum eins og ég hef upplifað að taka lán með lánskjaravísitölu og sjá svo vextina rjúka upp úr öllu valdi á lánstímanum án þess að hafa nokkuð haft um það að segja þegar lánið var tekið.
    Í raun og veru er alveg ljóst að vextir umfram 2--3% af lánskjaravísitölulánum hljóta að túlkast sem okurvextir þegar menn fara að skoða þessi mál í raun.
    Hér er vart um það að ræða að fara að gera brtt. eða leggja til að lánskjaravísitalan verði felld niður. Það verður tekið upp á öðrum vettvangi, enda hafa tillögur þar að lútandi komið fram í þinginu áður. Ég er enn þá þeirrar skoðunar að það sé ekki um annað að ræða: annaðhvort verður að verðtryggja bæði lánskjör og laun í þessu landi eða hvorugt. Því er ég eftir sem áður ósammála því að hér sé við lýði lánskjaravísitala sem rígbindi alla lántakendur á klafa hennar meðan laun eru oft fryst eða a.m.k. fylgja engri vísitölu. Þetta er gersamlega óþolandi ástand og verður að taka á þessu. Það er stjórnvöldum til vansa að þetta ástand haldi áfram óbreytt.